Chasing the Dime, skáldsaga eftir Michael Connelly. Litle, Brown & Company gefur út 2002. 371 síða innb. Kostar 3.395 í Pennanum-Eymundsson.

MICHAEL Connelly þekkja glæpasagnavinir fyrir bækur hans um lögreglumanninn Hieronymous "Harry" Bosch. Fyrsta Bosch-bókin kom út fyrir áratug og sú síðasta, sem var býsna góð, í sumar. Í skáldsögunni Chasing the Dime er Bosch aftur á móti víðs fjarri því þótt bókin gerist á sömu slóðum, í Los Angeles, er söguhetjan tölvumaður, eða réttara sagt hugbúnaðarhugsuður sem flækist inn í dularfullt mál og kemst heldur en ekki í hann krappan.

Bókin hefst þar sem söguhetjan, Henry Pierce, nýskilin og flutt í blokkaríbúð, tengir símann sinn til þess eins að komast að því að símanúmerið var áður í notkun og er enn tengt fyrri notanda, Lilly, fylgdarstúlku / gleðikonu, sem enn er með númerið á vefsíðu sinni. Pierce gengur í að fá hana til að skipta um númer á vefsíðunni, enda búið að kynna öllum viðskiptavinum og samstarfsmönnum nýja númerið þannig að einfaldara virðist að að skipta út númeri á vefsíðu en að fara allan hringinn aftur. Það er þó enginn hægðarleikur að ná í Lilly en Pierce gefst ekki upp, leitin að Lilly verður að þráhyggju sem setur hann í verulega hættu.

Þótt Chasing the Dime standist ekki samjöfnuð við bestu bækur Connellys um Harry Bosch, sérstaklega finnst mér Henry Pierce álappalegur í samanburði við Bosch, er bókin ágæt skemmtun. Nokkuð spillir henni hversu mikið er lagt í að útskýra hvað það er sem tölvufyrirtæki Pirece fæst við, sérstaklega finnst tölvufróðum slíkar útskýringar óþarfi, en má segja Connelly til afsökunar að hann gerir þetta til að undirbyggja veigamikinn hluta fléttunnar sem snýr að tilganginum fyrir öllu saman.

Á köflum er bókin vel skrifuð, til að mynda er kaflinn í geymsluhúsnæðinu sterkur og ofbeldi í henni er eins hrátt og viðurstyggilegt og ofbeldi er vissulega. Lokauppgjörið er ævintýralegt eins og Connelly er von og vísa og þó að söguþráðurinn sé á köflum fáránlega ótrúlegur leggur lesandinn bókina frá sér nokkuð sáttur.

Árni Matthíasson