LÍKUR á mjög víðtæku verkfalli opinberra starfsmanna í Þýskalandi jukust í gær er viðsemjendur þeirra höfnuðu miðlunartillögu sáttasemjara. Kvað hún á um 3% launahækkun til þriggja milljóna launþega á hálfu öðru ári.

LÍKUR á mjög víðtæku verkfalli opinberra starfsmanna í Þýskalandi jukust í gær er viðsemjendur þeirra höfnuðu miðlunartillögu sáttasemjara. Kvað hún á um 3% launahækkun til þriggja milljóna launþega á hálfu öðru ári.

Otto Schily, innanríkisráðherra Þýskalands og formaður samninganefndar ríkis og bæja, sagði, að tillaga sáttasemjara hefði verið mjög óeðlileg enda í henni tekið að mestu undir kröfur opinberra starfsmanna. Hún þýddi í raun að útgjöld hins opinbera og sveitarfélaganna myndu aukast um meira en 1.000 milljarða íslenskra króna á næstu tveimur árum.

Kjaradeilan kemur á mjög slæmum tíma fyrir ríkisstjórn Gerhards Schröders en 2. febrúar nk. verða mikilvægar kosningar í tveimur sambandslöndum, Neðra-Saxlandi og Hessen. Er almennt litið á þær sem eins konar mælingu á stöðu stjórnarinnar, sem stendur nú þegar mjög höllum fæti gagnvart almenningsálitinu. Samdráttur er í efnahagslífinu og Schröder hefur ekki getað efnt það loforð að koma atvinnuleysinu niður fyrir fjórar milljónir manna.

Sveitarfélög standa illa

Talsmenn ríkis og bæja segjast aðeins tilbúnir til að hækka launin í tveimur áföngum, um 0,9% og 1,2%, en það er aðeins umfram verðbólguna. Heinrich Aller, fjármálaráðherra í Neðra-Saxlandi, sagði að ástandið hjá mörgum sveitarfélögum væri afar erfitt og mörg "í raun gjaldþrota". Ekki hefur komið til mikilla verkfalla í Þýskalandi frá árinu 1992.

Berlín. AFP.