BENGT Johansson, landsliðsþjálfari Svía í handknattleik, kveðst ekki hafa neinar áhyggjur af sínu liði þrátt fyrir tvo ósigra á móti í Belgrad um helgina.

BENGT Johansson, landsliðsþjálfari Svía í handknattleik, kveðst ekki hafa neinar áhyggjur af sínu liði þrátt fyrir tvo ósigra á móti í Belgrad um helgina. Svíar töpuðu þar fyrir Júgóslövum, 28:25, og fyrir Frökkum, 34:29, og það eru ár og dagur síðan sænska landsliðið hefur mátt þola tvo ósigra í röð. "Það er næstum því heilt ár síðan okkar sterkasti hópur hefur verið saman. Það hefði verið nánast óeðlilegt ef við hefðum spilað vel í Belgrad," sagði Bengt við Aftonbladet í gær. Hann hefur ekki kallað saman sína bestu leikmenn síðan í úrslitaleik Evrópukeppninnar í Stokkhólmi 3. febrúar á síðasta ári, þegar Svíar lögðu Þjóðverja í framlengdum leik.

"Það eina sem ég hef áhyggjur af er meiðslin sem margir af mínum mönnum hafa orðið fyrir en sem betur fer eru þeir allir á batavegi. Ég vona bara að fleiri meiðist ekki áður en heimsmeistarakeppnin hefst."