GUÐRÚN Sigurðardóttir úr Sundfélagi Hafnarfjarðar fékk Sjómannabikarinn á Nýárssundi fatlaðra barna og unglinga sem nú var haldið í 20. sinn. Guðrún fékk 629 stig fyrir 50 metra baksund sem hún synti á 42,48 sekúndum.

GUÐRÚN Sigurðardóttir úr Sundfélagi Hafnarfjarðar fékk Sjómannabikarinn á Nýárssundi fatlaðra barna og unglinga sem nú var haldið í 20. sinn. Guðrún fékk 629 stig fyrir 50 metra baksund sem hún synti á 42,48 sekúndum.

Jóna Dagbjört Pétursdóttir úr ÍFR varð önnur með 484 stig fyrir 50 metra flugsund sem hún synti á 46,12 sekúndum og Hulda Hrönn Agnarsdóttir, Íþróttafélaginu Firði í Hafnarfirði, varð þriðja með 447 stig fyrir 50 metra bringusund sem hún synti á 1.01,22.

Sjómannabikarinn er bikar sem Sigmar Ólason, sjómaður á Reyðarfirði, gaf til þessa móts fyrir tveimur áratugum.

Þrjú Íslandsmet féllu á mótinu. Jóna Dagbjört setti Íslandsmet þegar hún synti 50 metra baksund á 45,14 sekúndum. Pálmi Guðlaugsson, Firði, setti tvö Íslandsmet, fyrst er hann synti 50 metra baksund á 1.02,18 og síðan þegar hann synti 50 metra með frjálsri aðferð á 45,13.

Á myndinni eru Jóna Dagbjört, Guðrún og Hulda Hrönn ásamt Kristínu Rós Hákonardóttur.