Kvartað hefur verið undan merkingum á matvælum sem ekki eru í samræmi við gildandi reglugerð.
Kvartað hefur verið undan merkingum á matvælum sem ekki eru í samræmi við gildandi reglugerð.
SAMTÖK verslunarinnar og aðildarfyrirtæki hafa að undanförnu orðið vör við aukningu á innflutningi á ýmsum matvælum sem ekki eru merkt í samræmi við reglugerð um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla.

SAMTÖK verslunarinnar og aðildarfyrirtæki hafa að undanförnu orðið vör við aukningu á innflutningi á ýmsum matvælum sem ekki eru merkt í samræmi við reglugerð um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla. Hollustuvernd ríkisins hefur meðal annars verið tilkynnt um slík dæmi og gripið hefur verið til aðgerða í framhaldi af ábendingum samtakanna. Í nýlegu máli sem varðar ólöglegar merkingar vakti það athygli Samtaka verslunarinnar hve langan tíma stjórnvöld létu viðgangast að ólöglegar vörur væru hér á markaði.

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunarinnar spyr hver stefna stjórnvalda sé í málum af þessu tagi. "Er stjórnvöldum stætt á að veita endalausan frest á að vörurnar séu fjarlægðar úr verslunum?

"Við höfum bent á að langur frestur geti leitt til þess að vörur sem eru markaðssettar á löglegan hátt og miklu hefur verið til kostað við markaðssetningu falli hugsanlega út af markaði. Við sem störfum hjá samtökunum teljum nauðsynlegt að hafa eftirlit með aðilum sem uppvísir hafa verið að ólöglegri markaðssetningu og teljum að auka þurfi eftirlitið," segir hann.

Fullyrðingar um næringarinnihald á gráu svæði

Rögnvaldur Ingólfsson deildarstjóri matvælaeftirlits Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur segir að stofnunin veiti ákveðna fresti þegar merkingum er ábótavant og það fari eftir eðli máls hverju sinni hversu langir þeir eru.

"Við leitum meðal annars ráða hjá lögfræðingi stofnunarinnar í tilfellum sem þessum," segir hann.

Segir Rögnvaldur ennfremur að stofnunin sé með nokkur mál í vinnslu þar sem verið sé að taka á merkingu matvæla. "Vörur geta verið á gráu svæði hvað varðar merkingar, þá sérstaklega hvað varðar fullyrðingar um næringargildi. Sumar af þessum fullyrðingum eru leyfðar í nágrannalöndunum en hér geta gilt aðrar reglur. Ætlunin er að auka markaðseftirlit [á þessu ári] og þá fyrst og fremst með vöruskoðun á markaði, bæði í heildsölum og verslunum. Reglur sem varða merkingar matvæla eru mjög flóknar og það virðist geta komið fyrir fyrirtæki sem vilja hafa alla hluti í lagi að flytja inn vöru sem ekki stenst reglur fullkomlega."

Segir Rögnvaldur loks að reynt sé að gæta meðalhófs og jafnræðis í veitingu frests og að Umhverfisstofa vinni náið með Hollustuvernd ríkisins hvað þetta varðar.