Beitir NK á landleið með fullfermi.
Beitir NK á landleið með fullfermi.
"ÞETTA lofar mjög góðu. Þeir sjá loðnu mjög víða og veðrið getur ekki verið betra á þessum árstíma," segir Freysteinn Bjarnason, útgerðarstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, í samtali við Morgunblaðið.

"ÞETTA lofar mjög góðu. Þeir sjá loðnu mjög víða og veðrið getur ekki verið betra á þessum árstíma," segir Freysteinn Bjarnason, útgerðarstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, í samtali við Morgunblaðið.

Beitir NK var fyrsta skipið til að landa loðnu á þessari vertíð, en hann kom með um 1.100 tonn til löndunar í Neskaupstað aðfaranótt mánudagsins og hefur haldið til veiða á ný. Þá kom Birtingur til heimahafnar í Neskaupstað síðdegis í gær með um 700 tonn sem hann fékk í nót og Börkur var í gær kominn með góðan afla líka.

Freysteinn segir að loðnan sé mjög góð, átulaus og því sé hægt að hefja frystingu en afli Beitis fór í bræðslu. Beitir og Börkur eru á trolli en Birtingur veiðir í nót. Mjög góð veiði var í nótina undir morgun á mánudaginn og jöfn og þokkaleg veiði hefur verið í trollið.

Nær allur loðnuflotinn hefur haldið til veiða og voru mörg skip á landleið í gær. Veiðisvæðið er 70 til 80 mílur austur af Vopnafirði. Víkingur AK var í gær á leið til Seyðisfjarðar með fullfermi af loðnu eða um 1400 tonn og Ingunn AK var komin með rúm 1000 tonn.

Nokkur skip eru þó enn á síld.