Dagur íraska hersins var í gær og af því tilefni var marsérað framhjá Gröf óþekkta hermannsins í Bagdad. Naji Sabri, utanríkiráðherra Íraks, sagði í ræðu, að herinn væri þess albúinn að verja landið árásum Bandaríkjamanna.
Dagur íraska hersins var í gær og af því tilefni var marsérað framhjá Gröf óþekkta hermannsins í Bagdad. Naji Sabri, utanríkiráðherra Íraks, sagði í ræðu, að herinn væri þess albúinn að verja landið árásum Bandaríkjamanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÁÆTLANIR Bandaríkjastjórnar um það hvað taki við að afloknu stríði við Írak, fari svo að til hernaðarátaka komi, gera ráð fyrir hernámi í minnst 18 mánuði, réttarhöldum yfir hæst settu embættismönnum ríkisstjórnar Saddams Husseins og yfirtöku olíulinda.

ÁÆTLANIR Bandaríkjastjórnar um það hvað taki við að afloknu stríði við Írak, fari svo að til hernaðarátaka komi, gera ráð fyrir hernámi í minnst 18 mánuði, réttarhöldum yfir hæst settu embættismönnum ríkisstjórnar Saddams Husseins og yfirtöku olíulinda. Frá þessu er sagt í The New York Times í gær en blaðið segir að með yfirtöku olíulindanna sé ætlunin að afla fjármuna til þess uppbyggingarstarfs sem ráðgert er í landinu.

Talsmenn Bandaríkjastjórnar leggja áherslu á að enn hafi engin ákvörðun verið tekin um að ráðast á Írak. Þá sagði Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, síðast í gær að minna en helmingslíkur væru á því að til átaka kæmi.

Embættismenn Bandaríkjastjórnar hafa þrátt fyrir þetta lagt á ráðin um eftirleik hugsanlegra hernaðarátaka, að því er fram kom í New York Times í gær. Hafa hugmyndir þeirra verið ræddar við George W. Bush Bandaríkjaforseta. Þær hafa hins vegar ekki verið endanlega útfærðar og m.a. er mönnum umhugað um að koma í veg fyrir að aðgerðir Bandaríkjanna minni um of á hegðun evrópskra nýlenduvelda fyrr á tímum.

Aðeins æðstu embættismenn sóttir til saka

Áætlanirnar gera ráð fyrir því að auðveldur sigur vinnist á her Íraka og að Saddam verði hrakinn frá völdum. Engu að síður spáir varnarmálaráðuneytið bandaríska því að nauðsynlegt muni reynast að setja á laggirnar hernámsstjórn, sem ríki í a.m.k. 18 mánuði, en verkefni hennar yrði að standa vörð um frið í landinu, hafa hendur í hári helstu undirmanna Saddams og finna þau gereyðingarvopn, sem Bandaríkjamenn segja falin í Írak.

Samhliða yrði komið á fót borgaralegri stjórn, hugsanlega undir forræði Sameinuðu þjóðanna, en hennar verkefni yrði að stýra efnahag landsins, endurbyggja skóla og pólitískar stofnanir og tryggja að nauðþurftir bærust til bágstaddra.

Áætlanirnar gera ráð fyrir að aðeins æðstu embættismenn ríkisstjórnar Saddams yrðu sóttir til saka. Tekið yrði tillit til þess ef einhverjir þessara manna ákvæðu að taka þátt í því að hrekja Saddam frá völdum.

Leita að skotpöllum

Dagblaðið The Boston Globe fullyrðir síðan í gær að um eitt hundrað bandarískir sérsveitarmenn séu komnir inn í Írak, auk um fimmtíu erindreka leyniþjónustunnar, CIA. Hafi þessar sveitir verið að störfum innan landamæra Íraks í allt að fjóra mánuði. Verkefni mannanna hefur verið, skv. Boston Globe, að hafa upp á skotpöllum fyrir Scud-flugskeyti Íraka, fylgjast með olíulindum landsins, kortleggja jarðsprengjusvæði og veita herþotum Bandaríkjamanna, sem hafa eftirlit með flugbannssvæðinu yfir Írak, aðstoð á jörðu niðri. Íraksforseti flutti sjónvarpsávarp í gær þar sem hann sakaði vopnaeftirlitsmenn SÞ um að stunda njósnir í landinu. "Í stað þess að leita svokallaðra gereyðingarvopna í því skyni að sanna að í þeim efnum hefur mörg lygin verið sögð, hafa eftirlitsmenn verið að búa til lista yfir íraska vísindamenn, spyrja spurninga sem óljósan tilgang hafa og leita svara um herbúðir og óleyfilegan vopnabúnað," sagði Saddam. "Allt þetta, eða a.m.k. meginhluti þess, kallast á mannamáli njósnir," bætti hann.

Þá hélt Saddam því fram að Bandaríkin legðu á ráðin um að sölsa allt Persaflóasvæðið - sem er afar ríkt af olíu, eins og kunnugt er - undir sig.

Washington, Bagdad, London. AFP.