LÖGREGLAN í Þýskalandi yfirheyrði í gær mann sem á sunnudag rændi lítilli einshreyfils flugvél og hótaði að fljúga henni á höfuðstöðvar Seðlabanka Evrópu í Frankfurt.

LÖGREGLAN í Þýskalandi yfirheyrði í gær mann sem á sunnudag rændi lítilli einshreyfils flugvél og hótaði að fljúga henni á höfuðstöðvar Seðlabanka Evrópu í Frankfurt. Maðurinn er sagður veikur á geði og var ekki ljóst í gær hvers eðlis ákæra á hendur honum verður.

Mikill öryggisviðbúnaður var í Frankfurt meðan á hringsóli mannsins í háloftunum stóð. Hann ákvað hins vegar að lenda vélinni eftir tveggja klukkustunda flug og var þá handtekinn. Maðurinn, sem er 31 árs gamall Þjóðverji, stal vélinni frá litlum flugvelli skammt frá Frankfurt. Ógnaði hann flugmanninum með byssu og neyddi hann út úr vélinni áður en hann tók sjálfur á loft.

Sagt er að maðurinn hafi sagt, að hann flygi vélinni á höfuðstöðvar Seðlabanka Evrópu, sem eru í Frankfurt, fengi hann ekki að fara í viðtal um ævistarf Judith Resnik, geimfara sem fórst með bandarísku geimferjunni Challenger árið 1986.

"Hún [Resnik] á skilið meiri athygli. Hún var fyrsti gyðingurinn til að fara út í geim og kannski er það þess vegna sem hennar er eiginlega ekki minnst," sagði maðurinn í samtali við sjónvarpsstöðina n-tv meðan á flugferð hans stóð.

Frankfurt. AP.