Stofan, sem fylgdi 50 metra framhliðinni, var algjörlega úr gleri og opnanleg út í náttúruna.
Stofan, sem fylgdi 50 metra framhliðinni, var algjörlega úr gleri og opnanleg út í náttúruna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
H VAÐ getur sá, sem er ákafur unnandi siglinga, gert þegar fjölskyldan erfir, ekki flotbrú, heldur land úti í sveit þar sem hún hefur í huga að byggja sér hús?

HVAÐ getur sá, sem er ákafur unnandi siglinga, gert þegar fjölskyldan erfir, ekki flotbrú, heldur land úti í sveit þar sem hún hefur í huga að byggja sér hús?

Með þessari spurningu útskýrði Aude Perrault, eiginkona arkitektsins sem hannaði franska Landsbókasafnið í París, ógöngur sínar við að hugsa sér heimili þeirra inni í landi.

Hún þráði það frelsi sem hún hafði upplifað á siglingum sínum en skyldi vera hægt að aðlaga sig að landinu á sama hátt og að hafinu?

Húseign og bátur

Aude Perrault, sem var líka arkitekt, naut þess að sigla og hafði tekið þátt í fjölmörgum seglbátakeppnum. Þegar fjölskyldan erfði land í Bretagne, sem var aðeins örlítið útsýni frá yfir hafið og þá aðeins þegar aldagömul eikartrén voru lauflaus á veturna, spurði hún sjálfa sig hvort rétta húsið fyrir þessa lóð væri ekki bara einfaldlega bátur?

Hún sá grasflötina fyrir sér sem mjúkt grænt aðfall þar sem hún gat ímyndað sér frelsið sambærilegt því sem gerðist á hafinu. Öldurnar í landinu, litlu hæðirnar sem mótuðu sífelldar fellingar í landslagið, skyggðu á útsýnið að húsinu. Hús, sem var fellt inn í eina hæðina, mjótt eins og skurður í opnu landinu.

Þar sem húsinu var stungið inn í jörðina með gluggana inn í jarðlægum öldunum - eins og bátur úti á sjó sem enga slóð lætur eftir sig - var tilfinningin eða meginkjarni þess sem fólk kallar rætur eða uppruna, ekki til staðar.

Við það að húsið hyrfi inn í jörðina, hvarf arkitektúr þess líka. Svo virtist sem snúið væri aftur til grunnhugmyndarinnar um hús sem skýli eða að ímyndunaraflinu væri gefinn laus taumur, sem hvatti Aude til þess að hugsa um húsið sitt sem bát umkringdan mjúkum öldum landslagsins - líkt og staðið væri á flotbrú og skimað út á víðáttur hafsins. Þannig var tilfinningin þegar litið var út um stofugluggann og útsýnið skoðað.

Það var eins og ómaði fyrir tilfinningunni frá örófi alda um að hreiðra um sig í náttúrunni, leggja við eyrun og hlusta á þytinn í laufi eikartrjánna í gegnum ólíkar árstíðirnar.

Að búa inni í jörðinni

Þessi byggingarlausn átti rætur sínar að rekja til þeirrar óskar að gera tilraunir og reyna að skilja tilfinningalega afstöðu þess að búa í sterkum tengslum við umhverfi sitt. Dominique Perrault, eiginmaður Aude, hafði einnig sýnt vaxandi áhuga á að fást við landslagið sem tengilið milli húsagerðar hans og náttúrunnar.

Eitthvað, sem færði hann að þeirri spurningu hvort nútímamaðurinn gæti búið neðanjarðar, eða hvort hann gæti enduruppgötvað hellinn frá upphafi mannkyns, sem upprunalega tilfinningu táknræna um tilvist hans á jörðinni?

Fyrstu skýlin voru ekki gerð af manna völdum. Þau voru náttúrugerðir hellar, tilbúnir til íveru. En áður en sest var þar að, þurftu mennirnir þó að komast yfir þá og reka villt rándýr í burtu. Þeir kveiktu eld við hellismunnann sem bæði hélt á þeim hita og bægði dýrunum frá á meðan þeir elduðu bráðina sem þeir höfðu veitt en dimmu afkimarnir innantil voru tileinkaðir athöfnum lífsins, dauða og endurlífs. Þessa öruggu staði má rekja aftur í árþúsundir en stærð þeirra gat náð allt upp í 15 metra að lengd og 6 metra á breidd.

Á lóðinni í Bretagne gróf Dominique Perrault sig inn í landið til þess að koma fyrir þeim 400 fermetra grunnfleti sem húsið þarfnaðist. Húsið var þannig sett inn í hæðina og um leið gerðist það hluti af garðinum, sem var 4.000 fermetrar. Innra rými þess var tómt og í laginu eins og réttur og langur ferhyrningur.

Einu innréttingarnar innan í honum voru eins konar sundurgreindur gámur sem samanstóð af sex svefnherbergjum, eldhúsi, innantengdum klæðaherbergjum og baðherbergi, sem var komið fyrir í innri hlið rýmisins. Stofan fylgdi svo hinni gríðarmiklu framhlið til beggja enda, nærri 50 metrar á lengd. Hún var þar af leiðandi eini útveggurinn, algjörlega úr gleri og opnanleg út í náttúruna. Dagsbirta í innri hluta hússins barst frá loftgluggum sem voru mótaðir eins og þeir væru skornir í jörðina í samræmi við hæð grassins.

Á síðasta smiðshöggi sameinaðist húsið umhverfi sínu svo gjörsamlega, eins og skrokkur skips sem snertir yfirborð hafsins, það birtist og hverfur aftur í mjúkar öldur landsins. Þegar arkitektinn íhugaði líkanið af lokaúrlausninni, sem hann átti von á að myndi svara spurningum hans, spurði hann sjálfan sig: Þetta hús, er það virkilega hús?

Eftir Halldóru Arnardóttur listfræðing og Javier Sánchez Merina arkitekt. Netfang: jsm@coamu.es