Pamína, Næturdrottningin og Papagena.   Þóra Einarsdóttir, Sigrún Pálmadóttir og Hlín Pétursdóttir.
Pamína, Næturdrottningin og Papagena. Þóra Einarsdóttir, Sigrún Pálmadóttir og Hlín Pétursdóttir.
ÞRJÁR íslenskar óperusöngkonur sungu öll þrjú aðalkvenhlutverk í óperu Mozarts, Töfraflautunni, á nýársdag í Óperunni í Wiesbaden í Þýskalandi.

ÞRJÁR íslenskar óperusöngkonur sungu öll þrjú aðalkvenhlutverk í óperu Mozarts, Töfraflautunni, á nýársdag í Óperunni í Wiesbaden í Þýskalandi. Þóra Einarsdóttir var í hlutverki Paminu, Hlín Pétursdóttir var í hlutverki Papagenu og Sigrún Pálmadóttir í hlutverki Næturdrottningarinnar. Það fer gott orð af íslenskum söngvurum í Wiesbaden og fjölmargir íslenskir söngvarar hafa verið ýmist fastráðnir þar eða sungið sem gestir. Fyrir nokkrum árum sungu þeir Viðar Gunnarsson, Kristinn Sigmundsson og Gunnar Guðbjörnsson allir í sömu sýningu þar, þegar þeir voru fastráðnir við húsið.

Þóra Einarsdóttir segir að sýningin á nýársdag hafi gengið mjög vel, og það hafi verið sérlega gaman að hafa íslenskar vinkonur sínar með sér á sviðinu. "Þetta var alveg rosalega gaman og fólki hér í húsinu fannst þetta mjög sérstakt. En það er svosem ekkert nýtt að maður sé spurður að því hvað valdi því að svo margir söngvarar komi frá Íslandi, sérstaklega ekki hér í Wiesbaden þar sem svo margir Íslendingar hafa sungið." Þóra segir að tveir karlanna í aðalhlutverkum hafi verið frá Þýskalandi og einn frá Sviss, og því er augljóst að Ísland átti fjölmennasta hópinn í aðalhlutverkum í Wiesbaden þetta kvöldið.

Sigrún Pálmadóttir tekur undir orð Þóru um að sýningin hafi gengið mjög vel. "Það var mjög skemmtilegt að vera svona þrjár saman, og það skapaði líka góða stemmningu. Viðar Gunnarsson kom á sýninguna með konunni sinni, af því tilefni að við vorum þrjár að syngja, en hann býr hér. Óperan í Wiesbaden virðist draga að sér Íslendinga og þá alltaf að minnsta kosti nokkra í einu," segir Sigrún, og bætir því við að þótt íslenskir óperusöngvarar séu orðnir margir í erlendum óperuhúsum, þá hafi þetta verið viðburður sem gerist ekki á hverjum degi.

Hlín Pétursdóttir segir að sýningin á nýársdag hafi verið alveg sérstaklega hátíðleg, og að það hafi haft sitt að segja að vera með Þóru og Sigrúnu á sviðinu. "Það voru allir í hátíðarskapi og sýningin tókst alveg glimrandi vel. Það var heldur ekki verra að hafa Viðar í salnum. Það er eiginlega með ólíkindum að við skulum hafa náð þessu; Ísland er á við smáborg hér í Þýskalandi, og það þætti fráleitt í 260 þúsund manna borg hér að hægt væri að manna þrjú aðalhlutverk með heimafólki. En íslenskir óperusöngvarar eru hér alls staðar; í Regensburg, Nürnberg, München, Frankfurt, Bonn, Berlín og Wiesbaden og svona mætti halda lengi áfram ef lausafólkið er talið með." Hlín hefur áður sungið með tveimur Íslendingum í sýningu. Það var árið 1999 í Bonn, þegar Viðar Gunnarsson og Ólafur Árni Bjarnason sungu með henni í Boris Godunov við óperuhúsið þar í borg.