HREIÐAR Már Sigurðsson aðstoðarforstjóri Kaupþings banka sagði á kynningarfundi á ársuppgjöri Kaupþings í gær að umtalsverð dulin verðmæti lægju í óskráðum eignum félagsins.
HREIÐAR Már Sigurðsson aðstoðarforstjóri Kaupþings banka sagði á kynningarfundi á ársuppgjöri Kaupþings í gær að umtalsverð dulin verðmæti lægju í óskráðum eignum félagsins. Hann sagði jafnframt að til greina kæmi að selja eitthvað af helstu óskráðum eignum félagsins á árinu, en stærstu eignir bankans í óskráðum félögum eru í Vífilfelli, Bonus Store Inc. og Karen Miller.

Eignir Kaupþings banka í óskráðum félögum eru nú 4% af heildareignum og hafa farið minnkandi hlutfallslega, en Hreiðar sagði að óskráðar eignir Kaupþings hefðu verið þyrnir í augum margra. "Allt sem við eigum er til sölu hvenær sem er," sagði Hreiðar.

Slæm afkoma eignastýringar

Fram kom í máli hans að afkoma í eignastýringu hefði verið slæm og tap hefði numið 383 milljónum á síðasta ári og jókst úr 201 milljón árið áður. "Við erum að vonast til þess að afkoma í eignastýringu þessa árs verði umtalsvert betri."

Hreiðar sagði að mjög góð afkoma hefði verið af markaðsviðskiptum á síðasta ári, sérstaklega á fjórða ársfjórðungi, og hagnaður sviðsins hefði verið 712 milljónir króna fyrir skatta, og heildartekjur 2,3 milljarðar. Fyrirtækjasvið hefði einnig gengið vel á árinu og verið rekið með 852 milljóna hagnaði og sömuleiðis hefði verið góð afkoma af fjárstýringu og bankastarfsemi en hagnaður var 882 milljónir og óx úr 177 milljónum króna.

Innlán hafa stóraukist

Hreiðar sagði að gjörbylting hefði orðið í fjármögnun bankans þar sem nú væru innlán orðin næst stærsti hluti fjármögnunar bankans, eða tæpir 72 milljarðar, en var 10,6 milljarðar árið áður. Hann sagði að markmiðið um þreföldun innlána sem hann hefði talað um fyrir ári síðan hefði gengið eftir.

Eigið fé Kaupþings banka tvöfaldaðist á milli ára fjórða árið í röð úr 9,2 milljörðum í 18,3. Arðsemi eigin fjár síðustu fimm árin hefur verið 38% en markmiðið fyrir þetta ár er 15%. CAD hlutfall bankans er að vaxa umtalsvert á milli ára að því er fram kom í máli Hreiðars og fór úr 11,6% í 14,7%.

Rekstrartekjur félagsins hafa vaxið um 63% á ári að meðaltali síðan árið 1998 þegar þær voru 1.391 milljónir en voru á síðasta ári 9.909 milljónir.

Hreiðar sagði að fyrirtækið ætli að halda áfram að vaxa og að stjórnendur teldu að góð tækifæri væru bæði fyrir innri vöxt auk þess sem mörg yfirtökutækifæri væru á norrænum bankamarkaði.

Hann sagði að á þessu ári færi mikill tími stjórnenda í að ná samlegð út úr núverandi einingum. Hann sagði ennfremur að starfsemi á Íslandi færi niður fyrir 50% af tekjum félagsins á þessu ári.

Hreiðar sagði aðspurður um útrás félagsins til Lundúna, en Kaupþing opnaði skrifstofu þar á síðasta ári, að félagið hefði verið með starfsmenn þar nær stanslaust í tvö ár, þó að "skrifstofan" hefði verið á hótelherbergjum. Hann sagði að starfsemin í London hefði skilað fyrirtækinu bestum árangri í tekjusköpun á fyrirtækjasviði og áfram yrði haldið á þeirri braut.

Hreiðar sagði að fljótlega yrði nafni JP-Nordiska breytt í Kaupthing-JP-Nordiska og svo í fyllingu tímans í Kaupthing eingöngu, en það vörumerki á að vera ríkjandi í framtíðinni á öllum einingum félagsins. "Við ætlum að innleiða "Kaupþingskúltúrinn" í Svíþjóð og gera starfsfólkið þar með meira söludrifið en nú er raunin." Aðspurður hvort Kaupþing hefði í hyggju að sækja um lánshæfismat sagði Hreiðar að í raun væri ekki eftir neinu að bíða í þeim efnum. Hann sagði það þó ekki há félaginu að hafa ekki sótt um lánshæfismat þar sem Kaupþing nyti ágætra kjara í sinni fjármögnum.