PÉTUR Guðmundarson stjórnarformaður Össurar hf.
PÉTUR Guðmundarson stjórnarformaður Össurar hf. sagði á aðalfundi félagsins í gær að gengissveiflur sem urðu á síðasta rekstrarári hefðu haft neikvæð áhrif á afkomu félagsins upp á 1,5 milljónir Bandaríkjadala en félagið færði 20-30 störf hingað til lands í fyrra vegna bætts skattaumhverfis fyrirtækja. "Þrátt fyrir að yfirvöld hafi bætt skattaumhverfi fyrirtækja hér á landi, fylgir sá böggull skammrifi fyrir fyrirtæki, sem hefur nánast allar sínar tekjur í erlendum gjaldmiðli en framleiðslukostnað í íslenskum krónum, hversu óstöðugt gengi íslensku krónunnar hefur verið. Þær miklu gengissveiflur sem urðu á síðasta rekstrarári hafa haft neikvæð áhrif á afkomu félagsins.

Svo sem hluthöfum er kunnugt, eru bækur félagsins færðar í Bandaríkjadölum. Reynslan af þessu hefur verið jákvæð í hvívetna, því að í tilviki Össurar hf. er Bandaríkjadalur eðlilegri uppgjörsmynt en íslenska krónan. Þegar mið er tekið af því og hinum miklu gengisbreytingum kemur í ljós að kostnaður í íslenskum krónum jókst úr 11% af kostnaði í upphafi árs 2002 í 18% í lok ársins. Lauslega má áætla að aukning kostnaðar á árinu vegna styrkingar krónunnar sé um 1,5 milljónir dala," sagði Pétur en Össur tók þá ákvörðun í fyrra að færa til Íslands alla framleiðslu á koltrefjum í kjölfar þess að skattaumhverfi fyrirtækja á Íslandi hafði verið bætt á árinu. Sú breyting þýddi að ráðið var í 20-30 stöðugildi hér á Íslandi.

Bankarnir ekki tilbúnir

Formaðurinn gagnrýndi einnig bankana fyrir að vera ekki tilbúnir að skrá hlutafé í erlendri mynt en samþykkt var á hluthafafundi Össurar sl. sumar að skrá hlutafé félagsins í Bandaríkjadölum. "Þegar til átti að taka, reyndist viðskiptakerfi bankanna ekki vera í stakk búið fyrir þessa breytingu, þannig að hún hefur ekki enn náð fram að ganga. Það er miður, því það er sannfæring stjórnenda félagsins, að með því að skrá hlutaféð í Bandaríkjadölum megi laða að félaginu fleiri fjárfesta, einkum erlenda. Vonandi verður þó ráðin bót á uppgjörskerfum bankanna fljótlega."

Stjórnin stækkar

Sex manna stjórn félagsins var endurkjörin á fundinum en við bættist sjöundi stjórnarmaðurinn, Bengt Kjell fulltrúi sænska fjárfestingarfyrirtækisins Industry Verden sem á síðasta ári keypti 16% hlut í Össuri.

Aðrir stjórnarmenn eru Gunnar Stefánsson, Heimir Haraldsson, Kristján T. Ragnarsson, Pétur Guðmundarson, Össur Kristinsson og Sigurbjörn Þorkelsson.