"Kaldar kveðjur til þeirra sem í raun lögðu fram gæðafé í velferðarsjóð barna."
MORGUNBLAÐIÐ sagði frá því í opnufyrirsögn hinn 29. janúar sl. að hagnaður Íslandsbanka á liðnu ári væri 3,4 milljarðar króna. Ekki afleitt það hugsaði ég. Neðar á sömu síðu gat að lesa viðtal við Bjarna Ármannsson bankastjóra sem sagði að það bezta við þennan hagnað væri að gæði hans væru svo mikil.

Gæði hagnaðar - hvað er það eiginlega? Gæðahagnaður er samkvæmt minni málkennd vandaður hagnaður og vel fenginn. Hagnist ég með vafasömum hætti eru gæði þess hagnaðar varla mikil.

Í síðustu áramótaræðu gerði forseti vor fátæktina á Íslandi að umræðuefni og fékk nærri því bágt fyrir. Mánuði síðar afhenti hann þekkingarverðlaunin 2003, stóran grjóthnullung, til bankastjóra Íslandsbanka. Var verið að verðlauna gæðaþekkingu?

Í áramótaræðu forsætisráðherra varð honum tíðrætt um traust, orðheldni, siðferði og hina borgaralegu skyldu sem á okkur hvílir. "Furðu margir segja hálfsatt eða ósatt og virðast ekki leiða hugann eina örskotsstund að heiðri sínum og orðstír og það sem lakara er, enginn hermir framkomuna upp á viðkomandi og ótrúlega mörgum virðist sama. Menn yppta öxlum og láta kyrrt liggja. Slíkt kann að standast skamma hríð en verður þjóðarböl, þegar til lengdar lætur."

Mér komu þessi orð forsætisráðherra í hug þegar ég hlustaði á fyrrverandi heilbrigðisráðherra og nú framkvæmdastjóra velferðarsjóðs barna svara spurningu Elínar Hirst í kastljósi sjónvarpsins 9. febrúar sl. um sjóðinn: "Íslensk erfðagreining gaf fimm hundruð milljónir, hálfan milljarð, til verkefnisins, sem er náttúrulega langstærsta gjöf sem nokkurt fyrirtæki hefur gefið til velferðarmála á Íslandi." Var þetta gæðasvar?

Rétt er að þegar þáverandi heilbrigðisráðherra og núverandi framkvæmdastjóri velferðarsjóðs barna afhenti forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar starfsleyfið að miðlægum gagnagrunni 22. janúar 2000 undirrituðu þau skjal um stofnun sjóðs á vegum heilbrigðisráðuneytisins og Íslenskrar erfðagreiningar, velferðarsjóðs barna. Til þessa sjóðs gaf forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar fyrir hennar hönd 150.000 hluti í Íslenskri erfðagreiningu. Hlutabréf eru langtímafjárfesting og á þessum tíma var Íslensk erfðagreining talin langverðmætasta fyrirtæki Íslands. Hver selur gulleggin sín? Hver selur hlutabréfin sín í Eimskip? Fyrrverandi heilbrigðisráðherra hefur hins vegar sagt frá því að sjóðurinn hafi losað sig við hlutabréfin í Íslenskri erfðagreiningu á stundinni. Og hverjir keyptu? Auðtrúa almenningur sem freistaði gæfunnar á glerhálu plani gráa hágæðamarkaðarins.

Núverandi bankastjóri Íslandsbanka var lykilmaður í sölu hlutabréfa Íslenskrar erfðagreiningar á gráa markaðnum meðan hann stýrði FBA-bankanum. Hann er einnig stjórnarformaður velferðarsjóðs barna. Það var hann sem seldi gjafabréf Íslenskrar erfðagreiningar á stundinni á himinháu gengi en í dag er það tveir dollarar á hlut! Íslensk erfðagreining er skilgetið afkvæmi nýja hagkerfisins. Nú kallar bankastjóri Íslandsbanka þetta blöðruhagkerfið. Það eru kaldar kveðjur til þeirra sem í raun lögðu fram gæðafé í velferðarsjóð barna.

Eftir Jóhann Tómasson

Höfundur er læknir.