BÚIST er við, að Hans Blix, yfirmaður vopnaeftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna, muni krefjast þess, að Írakar eyðileggi Al Samoud 2-eldflaugar sínar og einnig búnað til að framleiða eldflaugahreyfla.
BÚIST er við, að Hans Blix, yfirmaður vopnaeftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna, muni krefjast þess, að Írakar eyðileggi Al Samoud 2-eldflaugar sínar og einnig búnað til að framleiða eldflaugahreyfla. Eru frammámenn hjá SÞ og bandarískir embættismenn sammála um, að þessi krafa kunni að verða þúfan, sem veltir hlassinu. Neiti Saddam Hussein Íraksforseti að verða við henni, verði ekki lengur komist hjá hernaðaraðgerðum.

Talsmaður vopnaeftirlitsnefndarinnar, sagði í gær, að Blix ætlaði þá um daginn að senda Íraksstjórn kröfuna en ekki kom fram hvort hann ætlaði einnig að krefjast þess, að Írakar eyðilegðu 380 eldflaugahreyfla, sem fluttir voru ólöglega til landsins, en þá má nota í Al Samoud 2-flaugarnar.

Krafa Blix veldur Írökum miklum vanda. Þeir standa frammi fyrir því að gefa upp á bátinn mikilvægt vopnakerfi á sama tíma og þeir eru að búa sig undir innrás en geri þeir það ekki, þá hafa þeir þar með sagt upp samstarfinu við vopnaeftirlitið.

Bandaríkjamenn hafa krafist þess, að Al Samoud 2- flaugarnar og aðrar, sem draga lengra en 150 km, verði eyðilagðar í samræmi við vopnahlésskilmálana frá 1991 og nú eftir helgi ætlar Bandaríkjastjórn að kynna nýja ályktun í öryggisráðinu þar sem hernaður gegn Írak verður heimilaður. Jeremy Greenstock, sendiherra Breta hjá SÞ, býst hins vegar við, að ekki verði greidd atkvæði um hana fyrr en Blix og Mohamed ElBaradei, yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, gefi ráðinu nýja skýrslu en talið er líklegt, að það verði ekki fyrr en 7. mars næstkomandi og ekki síðar en 14. mars.

Herinn tilbúinn

Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í fyrrakvöld, að bandaríski heraflinn í Miðausturlöndum yrði tilbúinn til aðgerða strax og George W. Bush forseti gæfi merki þar um. Sagði hann, að stríð væri "sísti kosturinn", best væri, að Írakar afvopnuðust friðsamlega. Annar kostur væri, að stjórn Saddams færi frá, nauðug viljug ef ekki vildi betur. Fram kemur í breskum blöðum, að í ályktuninni verði Írökum gefinn þriggja vikna frestur til að afvopnast eða eiga yfir höfði sér árás ella.

Afvopnun eða ný stjórn

Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í gær, að hvergi væru mannréttindi jafnmikið fótum troðin og í Írak og hann kvaðst ekki efast um, að Íraksstjórn myndi beita gereyðingarvopnum í árásarstríði, yrði hún ekki afvopnuð. Í ræðunni, sem var eins konar siðferðileg réttlæting á stríði gegn Íraksstjórn, lagði Straw áherslu á, að markmiðið væri afvopnun.

"Náist það ekki með friðsamlegum hætti, verður alþjóðasamfélagið að skipta um stjórn í landinu."

Washington, SÞ. AP, Los Angeles Times.