Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, heilsar upp á þingfulltrúa á flokksþinginu í gær.
Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, heilsar upp á þingfulltrúa á flokksþinginu í gær.
HALLDÓR Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði í setningarávarpi á flokksþingi Framsóknarflokksins í gær, að hann teldi ekki tímabært fyrir Framsóknarflokkinn að taka afstöðu til þess nú hvort og þá hvenær rétt væri að sækja...
HALLDÓR Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði í setningarávarpi á flokksþingi Framsóknarflokksins í gær, að hann teldi ekki tímabært fyrir Framsóknarflokkinn að taka afstöðu til þess nú hvort og þá hvenær rétt væri að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Óvissuþættirnir væru of margir, umræðan of óþroskuð og staðan í alþjóðamálum of tvísýn. Rétt væri að ljúka fyrst samningum vegna áhrifa stækkunar ESB á Evrópska efnahagssvæðið.

"Ég hef sannfæringu fyrir því," sagði Halldór, "að innan fárra ára renni sú stund upp að við Íslendingar verðum að gera þessi mál upp við okkur. Við Íslendingar höfum viljað styrkja EES-samninginn og halda í heiðri, en það hefur ekki verið auðvelt. Þar hefur okkar afstaða ekki einvörðungu áhrif, heldur jafnframt Evrópusambandið, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Evrópusambandið hefur gengið á skjön við samninginn. Kröfur um margföldun framlaga okkar eru gott dæmi um það. Við munum sjá vaxandi tilhneigingu í þessa átt."

Vill öflugt eftirlit

Halldór vék einnig að auknu frelsi í atvinnulífinu og sagði mikilvægt að tryggja bæði Fjármálaeftirlitinu og Samkeppnisstofnun fjármagn og lagaheimildir til að halda uppi öflugu eftirliti. "Á alþjóðavettvangi og einnig hér innanlands hefur athygli manna beinst í auknum mæli að hinu flókna valdatafli sem á sér stað í fjármálalífinu. Í kjölfarið hefur sprottið upp umræða um það, hvort nægilegt aðhald sé með fjármálamarkaðnum og hvort almennum siðareglum sé þar fylgt og þá hvernig. Við framsóknarmenn höfum lengi barist fyrir öflugum eftirlitsstofnunum á þessu sviði, svo tryggt sé að almennum leikreglum sé fylgt. Með þessu erum við ekki að leggja til að atvinnulífið verði hneppt í fjötra hafta og skrifræðis, heldur miklu fremur að jafnræði gildi við mat á aðstæðum þegar í húfi eru gríðarlegar upphæðir og heill atvinnufyrirtækja, einstaklinga og jafnvel byggðarlaga."

Halldór vék að því að landbúnaðurinn væri sífellt að færast nær alþjóðlegu umhverfi með meira frjálsræði í viðskiptum. Nýjustu tillögur Alþjóða viðskiptastofnunarinnar væru lýsandi dæmi um það. "Landbúnaðurinn á að líta á þessar aðstæður sem tækifæri. Tækifæri til þess að sækja fram í breyttu umhverfi. Á heimsmarkaði er vaxandi markaður fyrir náttúrulegar afurðir sem neytandinn er tilbúinn að greiða gott verð fyrir. Þarna tel ég að liggi mikil sóknarfæri, ef rétt er á málum haldið. "