"Vissulega er að finna óheiðarlegt fólk meðal starfsfólks í verslunum eins og í öðrum stéttum en það er undantekning. Starfsfólkið er hluti af lausninni en ekki vandamálinu."
Á RÁÐSTEFNU um öryggi í verslunum fyrr í þessum mánuði var fjallað um þjófnaði í verslunum og varnir gegn þeim.

Fram kom að talið er að tap verslunarinnar vegna rýrnunar og þjófnaðar geti numið allt að 1,75% af veltu líkt og í nágrannalöndunum. Á ráðstefnunni talaði norskur sérfræðingur, Thor M. Bjerke, um öryggismál. Sagði hann að þótt réttur öryggisbúnaður skipti miklu máli væri fræðsla starfsfólks mikilvægasta vopnið í baráttunni gegn rýrnun.

Hér er brýnt mál á ferð og varðar starfsfólk verslunarinnar miklu. Rýrnun ógnar ekki aðeins afkomuöryggi starfsfólksins. Það er hluti af starfi verslunarmanna að vinna gegn þjófnaði í verslunum. Stundum getur sú barátta beinlínis ógnað heilsu og öryggi fólksins.

Segja má að hver einasti starfsmaður verslunarinnar á Íslandi sé líka nokkurs konar öryggisvörður í sinni verslun eða deild. Árvekni starfsmanna dregur úr þjófnuðum og þeir sem stunda þjófnaði forðast þær verslanir þar sem öryggiskerfi eru og starfsmenn fylgjast vel með. Starfsmenn eru víða undir álagi vegna þessa. Það er ekki nóg að sjá barn, ungling eða fullorðinn stinga inn á sig vörum úr hillum. Viðkomandi verður að ganga framhjá afgreiðslukössum án þess að borga hlutinn og stíga út á götu áður en starfsmaður getur tekið á málinu. Þá er ætlast til að starfsmaðurinn sýni það áræði að bregða sér í hlutverk lögreglumanns og stöðva þjófinn.

Reglur flestra verslana eru þær að kalla á lögregluna í hvert sinn sem þjófur er staðinn að verki en tíminn sem líður frá því þjófur er stöðvaður og lögreglan kemur er starfsmanninum erfiður. Viðbrögð fólks við það að vera þjófkennt eru mismunandi, allt frá skömm og iðrun yfir í ofsareiði. Það sem starfsfólk verslana hræðist mest er það ástand sem þjófurinn er í. Er hann hugsanlega í vímu og hver verða viðbrögð hans?

Þrátt fyrir þetta eru starfsmenn verslana daglega á verði gegn búðarhnupli og þjófnuðum. Það hlutverk veldur auknu álagi í erfiðu starfi. Þegar starfsmaður í verslun bregður sér í hlutverk lögreglu til þess að koma lögum yfir brotamenn á öllum aldri og úr öllum stéttum þjóðfélagsins tekur hann stundum áhættu varðandi eigin heilsu, velferð og öryggi.

Verslunarmenn vita að minni rýrnun þýðir betri afkoma verslunarinnar. Betri afkoma þýðir að verslunin getur greitt starfsfólki hærri laun. Það eru því sameiginlegir hagsmunir verslunarfólks og verslunareigenda að vinna gegn hnupli og þjófnuðum.

Þjófnaður brýtur ekki aðeins gegn hagsmunum starfsfólks heldur einnig gegn réttlætiskennd þess og sómatilfinningu. Meta ber að verðleikum þá ábyrgð sem starfsfólk verslunarinnar axlar í baráttu gegn búðahnupli. Það er allra hagur að verslunarfólki sé veitt vönduð og markviss fræðsla sem gerir kleift að ná enn betri árangri í því að verjast vágestum á vinnustöðum verslunarmanna.

Það hefur ekki staðið á starfsfólki í verslunum að leita leiða til að vinna gegn þessu vandamáli. Verzlunarmannafélag Reykjavíkur hefur í kjarasamningaviðræðum hreyft þeirri hugmynd að komið verði upp ábataskiptakerfi þar sem kaupmenn og starfsmenn skipti með sér ábata af minnkandi rýrnun. Viðsemjendur hafa ekki verið tilbúnir til þess.

Það er því einkar ógeðfellt að heyra talsmenn Samtaka verslunar og þjónustu tala í fjölmiðlum um þjófnað starfsfólks sem helsta vandamálið sem við er að eiga þegar þjófnaður úr verslunum er annars vegar. Vissulega er að finna óheiðarlegt fólk meðal starfsfólks í verslunum eins og í öðrum stéttum en það er undantekning.

Starfsfólkið er hluti af lausninni en ekki vandamálinu. Meðan Samtök verslunar og þjónustu kjósa að einblína á skemmdu eplin er ekki líklegt að sá árangur náist sem stefna ber að í baráttunni gegn þjófnaði í verslunum.

Eftir Gunnar Pál Pálsson

Höfundur er formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur.