Guðrún, Erla, Birgir og Baldur segja klúbbinn þeirra, Flott án fíknar, vera góðan stuðning við unglinga sem ætla ekki að neyta fíkniefna á meðan þeir eru í grunnskóla auk þess sem tilboð klúbbsins freisti talsvert.
Guðrún, Erla, Birgir og Baldur segja klúbbinn þeirra, Flott án fíknar, vera góðan stuðning við unglinga sem ætla ekki að neyta fíkniefna á meðan þeir eru í grunnskóla auk þess sem tilboð klúbbsins freisti talsvert.
KRAKKARNIR í Lindaskóla í Kópavogi eru ekki bangnir við að láta heiminn vita hver afstaða þeirra til neyslu tóbaks og vímuefna er. Á dögunum skráði 100.
KRAKKARNIR í Lindaskóla í Kópavogi eru ekki bangnir við að láta heiminn vita hver afstaða þeirra til neyslu tóbaks og vímuefna er. Á dögunum skráði 100. félaginn sig inn í klúbbinn þeirra, Flott án fíknar, sem eins og nafnið bendir til er félagsskapur þeirra unglinga sem hyggjast láta þessi fíkniefni vera.

"Þetta gengur út á að krakkarnir gera skriflegan samning þar sem þeir lofa að fikta ekki við tóbak, áfengi eða önnur vímuefni á meðan þeir eru í grunnskóla," segir Guðrún Snorradóttir, náms- og starfsráðgjafi, en hún vinnur einnig að forvarnamálum í skólanum og heldur utan um starfsemi klúbbsins. Undir samninginn skrifa svo unglingurinn, foreldrar hans og Guðrún, sem hefur skjalið í vörslu sinni.

"Í staðinn fá þau ýmis tilboð," heldur hún áfram, en meðal annars hefur krökkunum verið boðið í Lazer Tag, keilu, á bíósýningu og í dag verður farið í skemmtiferð í Bláfjöll. Þetta virðist bera tilætlaðan árangur því félagatalan tvöfaldaðist nánast á einum degi í tengslum við heimsóknina í Lazer Tag. Sem fyrr segir eru félagarnir nú orðnir 100 talsins og einum betur, en alls eru um 140 krakkar í unglingadeild skólans.

Fylgjast með hvert öðru

Spurð um eftirlit með því að samningurinn sé haldinn segir Guðrún að krakkarnir fylgist hvert með öðru enda setji hún reglulega upp nafnalista yfir þá sem eru með í klúbbnum. "Ég trúi því að þeir sem eru í klúbbnum séu ekki að brjóta samninginn enda finnst mér einstaklega góður andi hér í unglingahópnum og það viðhorf ríkjandi hjá þeim að stunda heilbrigt líferni."

Erla Brynjarsdóttir, nemandi í 10. bekk skólans og hundraðasti félagi klúbbsins, bætir því hér við að foreldrarnir séu líka duglegir að fylgjast með og undir það taka Baldur Viðar Baldursson, nemandi í 8. bekk og Birgir Örn Strange, sem er í 9. bekk skólans.

En af hverju ákváðu þau að vera með í klúbbnum?

"Þetta er bara skemmtilegt," segir Erla. "Og góð afþreying og svolítil skemmtun fyrir samræmdu prófin," bætir hún við.

Birgir er sama sinnis. "Auk þess vildi ég einfaldlega standa við þennan samning um að reykja ekki og drekka ekki á unglingastiginu og helst bara áfram í menntaskóla," segir hann.

Gott haldreipi

Krakkarnir eru sammála um að gott sé að hafa samninginn sem ákveðið haldreipi. "Ef einhver ætlar að reyna að plata mann í eitthvað þá segir maður bara nei því annars missir maður út öll tilboðin sem eru í klúbbnum," segir Birgir.

Baldur segist halda að líklega séu fáir jafnaldar hans að fikta við vímuefni og þeir hafi líklega lítinn áhuga á þeim. Eldri krakkarnir eru ekki eins sannfærðir. "Auðvitað spáir maður í þetta," segir Erla og Birgir tekur undir. "Maður vissi af þessu strax í 7. bekk því þá voru einhverjir krakkar að fikta við að reykja."

Guðrún bendir á að klúbburinn sé hluti af forvarnaáætlun skólans en fyrir utan klúbbinn sé fleira gert. "Við leggjum t.d. mikla áherslu á útivist og bjóðum upp á valgrein fyrir 9. og 10. bekk sem kallast útivist og fjallamennska. Þar eru 36 nemendur með. Þar fyrir utan er þessi almenna fræðsla sem er í öllum skólum á borð við kennsluefni Krabbameinsfélagsins, fyrirlestra og annað."

Hún bætir því við að 11. mars næstkomandi muni skólinn kynna forvarnaáætlun sína á opnum fræðslufundi hjá starfshópnum Náum áttum sem vinnur að því að vekja grunnskóla til umhugsunar um þessi mál. "Fyrst þetta hefur virkað svona vel hér viljum við gjarnan segja frá þessu ef einhverjir aðrir skólar vilja taka þetta upp," segir hún að lokum.