Danska bluegrass-söngkonan Sine Bach Ruttel bregður á leik á "Dönskum dögum" á Fjörukránni.
Danska bluegrass-söngkonan Sine Bach Ruttel bregður á leik á "Dönskum dögum" á Fjörukránni.
DANIR geta verið allra manna skemmtilegastir þegar sá gállinn er á þeim og kunna manna best að hafa það huggulegt í góðra vina hópi, eða "at hygge sig" eins og það er kallað "på dansk".
DANIR geta verið allra manna skemmtilegastir þegar sá gállinn er á þeim og kunna manna best að hafa það huggulegt í góðra vina hópi, eða "at hygge sig" eins og það er kallað "på dansk". Það var líka notalegt opnunarkvöldið á "Dönskum dögum" á veitingahúsinu Fjörunni í Hafnarfirði á fimmtudagskvöldið síðastliðið þar sem danskur matarilmur fyllti húsið. Boðið var upp á kvöldverð að dönskum hætti, enda verður danskur matseðill í veitingahúsinu meðan á dönskum dögum stendur, en þeim lýkur 2. mars næstkomandi.

Í forrétt fengu gestir kaldan laxa- og þorskturn með kavíar og sýrðum rjóma. Í aðalrétt var pönnusteikt grísalund með eplapiparrótarsalati, kantarellum og portvínssósu, og í eftirrétt var boðið upp á kalda rabbarbarasúpu með vanilluís, eða "kold rabarbersuppe med vanilleis" eins og Danskurinn hefði orðað það.

Undir borðum söng danska bluegrass-söngkonan Sine Bach Ruttel og spilaði sjálf undir á banjó. Var gerður góður rómur að söng og banjóspili blágresissöngkonunnar þótt hörðustu aðdáendur danskrar alþýðumenningar söknuðu þess dálítið að heyra ekki dönsk lög á borð við "Det var en skikkelig bondemand". Íslenskir víkingar, sem ruddust inn í borðsalinn öllum að óvörum, komu hins vegar til móts við þessar óskir og tóku nokkur dönsk alþýðulög við "glimrandi" undirtektir matargesta.

Danska bluegrass-hljómsveitin Shine Bach Ruttel Band mun hins vegar leika fyrir dansi á Fjörugarðinum föstudags- og laugardagskvöldin 21. til 22. febrúar og 28. febrúar og 1. mars.

Ekki var annað að finna á matargestum opnunarkvöldsins en aðmönnum líkað vel það sem boðið var upp á enda bregðast Danir sjaldan þegar góður matur er annars vegar. Á "Dönskum dögum" verður boðið upp á fjölbreyttan danskan matseðil, auk þeirra rétta sem að framan eru taldir.

svg@mbl.is