"Öflugt atvinnulíf stuðlar að blómlegu mannlífi."
UNDANFARNAR vikur hafa verið háværar orðasennur um afskipti stjórnmálamanna af atvinnulífinu. Flestir eru sammála um að stjórnmálamenn eigi að setja almennar leikreglur en ekki vasast í sjóðum og stjórnum eins og tíðkaðist í áratugi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, talsmaður Samfylkingarinnar, skerpti á umræðunni í frægri ræðu í Borgarnesi. Hún sakaði Davíð Oddsson forsætisráðherra um óeðlileg afskipti af viðskiptalífinu. Undanfarin misseri hefur verið hávær umræða um meint afskipti forsætisráðherra og mönnum orðið tíðrætt um teppið á skrifstofu hans.

Afskipti stjórnmálamanna af atvinnulífinu er þörf umræða. Það er gagnrýni vert að framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins hefur undanfarin ár setið í stjórn Landsbankans og Vátryggingafélags Íslands jafnhliða að stýra Sjálfstæðisflokknum. Fingraför Kjartans Gunnarssonar af átökum um Tryggingamiðstöðina ber að gagnrýna.

Stjórnmálamenn og hagsmunagæslumenn stjórnmálaflokka eiga ekki að sitja í sjóðum og stjórnum úti í bæ. Stjórnmálamenn eiga að láta af afskiptum af fyrirtækjum. Rétt eins og fyrirtæki eiga að láta af pólitík.

Nánast alla 20. öldina var atvinnulífið í helgreipum pólitískra kommisara sem deildu og drottnuðu. Við höfum allt of mörg dæmi þar að lútandi. Stjórnvöld hafa undanfarin ár stórminnkað afskipti af fyrirtækjum. Flestir fagna því. Einkavæðing fyrirtækja hefur heppnast býsna vel, ekki síst bankanna. Fyrir fáeinum misserum réð ríkið 70% af peningastofnunum landsmanna - slíkt ofurvald kommissara var óþekkt í vestrænum lýðræðisríkjum. Sem betur fer liðin tíð.

Það þarf ekki að fara mörg ár aftur í tímann til þess að minnast dæmalausra mála. Fyrir 15 árum hugðist kommisar Sverrir Hermannsson í Landsbankanum reka Óla Kr. Sigurðsson í Olís út úr eigin fyrirtæki. Bankinn neitaði viðræðum, jafnvel þó hið erlenda Texaco bankaði upp á í Austurstræti. Það auðvitað var ótrúleg gjörð en Óli Kr. kom standandi niður úr þeirri glímu.

Fyrir rúmum áratug ræddu ráðherrar í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar í fullri alvöru um að reka undirritaðan úr starfi af Stöð 2 ásamt Páli Magnússyni fréttastjóra og Ólafi E. Friðrikssyni fréttamanni. Stjórnmálamennirnir töldu sig í slíkri aðstöðu þar sem Stöð 2 Jón Óttars Ragnarssonar vantaði ríkisábyrgð. Þið fáið ríkisábyrgð ef þið rekið fréttamennina. Auðvitað forherðing og misnotkun á valdi svo tók út yfir allan þjófabálk. Sú ríkisstjórn var mynduð til þess að útdeila milljörðum til "réttra" fyrirtækja.

Lína.net Ingibjargar Sólrúnar hefur tapað milljörðum. Hvað eru reykvískir stjórnmálamenn að vasast í samkeppnisrekstri? Sporin hræða, eða hafa menn gleymt bæjarútgerðinni. Össur Skarphéðinsson skrifaði Baugs-feðgum ótrúlegt skammarbréf, raunar svívirðingabréf á síðastliðnu ári. Þar hafði Össur í hótunum við feðgana - you ain't seen nothing yet, sagði stjórnmálamaðurinn. Var formaðurinn að láta verkin tala þegar hann tók upp málið á Alþingi og lét í veðri vaka að rétt væri að skipta Baugi upp? Hvar er efinn?

Það hefur verið plagsiður að ráðast á einstök fyrirtæki úr ræðustól Alþingis. Undirritaður skrifaði nýlega sögu Olíuverzlunar Íslands og fór meðal annars í gegnum þingræður um olíumál lungann úr 20. öldinni. Það var dapurleg lesning stöðugra árása og óvildar í garð fyrirtækja. Og heldur áfram. Samkeppnisyfirvöld gerðu húsleit hjá olíufélögunum fyrir rúmu ári. Það er réttur yfirvalda og ekkert út á það að setja. Hins vegar er ámælisvert að yfirvöld tóku persónulegan netpóst starfsmanna, milljónir skeyta. Já, milljónir skeyta og líka bókhald kirkjusafnaðar! Þarna fóru yfirvöld offari. Helst að líkja þessu við símhleranir til fortíðar. Hæstiréttur beit höfuðið af skömminni með því að stimpla gjörninginn. Skal staðhæft að slíkur dómur yrði ekki uppkveðinn annars staðar í V-Evrópu. Í kjölfarið létu menn í ljós ótta við að senda persónulegan netpóst af vinnustað. Hæstiréttur af ótrúlegum hroka sagði í dómsorði að óhjákvæmilegt sé að starfsmenn beri áhættu af því að geyma persónulegan netpóst sinn í vinnunni. Var furða þó kliður færi um þjóðfélagið.

Þegar menn báru hönd fyrir höfuð og töldu réttaröryggi stefnt í tvísýnu, sættu þeir árásum á Alþingi. Það skorti ekki stóryrði í garð fyrirtækja.

Það er mál að linni. Stjórnmálamenn eiga að láta lokið afskiptum af atvinnulífinu, hætta tilhæfulausum árásum og dylgjum í garð fyrirtækja í landinu; hætta að ala á öfund og tefla fram systur hennar, lyginni.

Ef stjórnmálamenn láta af þessari iðju sinni, þá höfum við gengið götuna til góðs í umræðu liðinna vikna. Raunar var allan síðasta áratug markvisst unnið að því að minnka þessi áhrif. Það starf vonandi heldur áfram. Landssíminn er óseldur. Öflugt atvinnulíf stuðlar að blómlegu mannlífi.

Eftir Hall Hallsson

Höfundur er blaðamaður og framkvæmdastjóri.