Ingólfur Lars Kristjánsson fæddist í Reykjavík 27. september 1921. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 13. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Ragnhild Haga frá Stafangri í Noregi, f. 2. ágúst 1886, d. 25. nóvember 1940, og Kristján Ólafur Sveinsson frá Vífilsmýrum við Önundarfjörð, f. 31. ágúst 1884, d. 21. nóvember 1961. Systkini Ingólfs eru: 1) Sveinborg Kristín, f. 31. júlí 1917, d. 28. maí 1984, flutti til Bandaríkjanna 1957. 2) Þórdís Jóhanna hjúkrunarkona, f. 1. desember 1924, býr á Akureyri. 3) Ólafur Rikard, f. 29. janúar 1928, d. í Reykjavík. 26. desember 1943. 4) Sigurður Sæmundur, verkamaður og síðar bílstjóri hjá Búnaðarbanka Íslands, f. 3. nóvember 1929, d. 21. mars 1993.

Ingólfur kvæntist 11. ágúst 1945 eftirlifandi eiginkonu sinni, Kristbjörgu Jónsdóttur, f. í Ystafelli 8. júní 1919. Börn þeirra eru: 1) Ragnhildur Helga, f. 29. janúar 1946, gift Hreini Valtýssyni, búa í Eyvík á Tjörnesi. Þau eiga tvö börn. 2) Kristbjörg, f. 20. janúar 1948, gift Ólafi Dan Snorrasyni, búa á Akureyri. Þau eiga fjögur börn. 3) Gunnhildur, f. 28. nóvember 1950, gift Árna Njálssyni, búa á Jódísarstöðum í Aðaldal. 4) Helga, f. 10. maí 1953, gift Valdimar Valdimarssyni, búa á Akureyri. Þau eiga fjögur börn. 5) Ólafur, f. 18. júlí 1954, kvæntur Elínu Björgu Sigurbjörnsdóttur, búa í Hlíð í Kinn. Þau eiga sex börn. 6) Ari, f. 16. mars 1959, kvæntur Berit Hildu Ljung, búa í Svíþjóð. Þau eiga tvö börn. 7) Sverrir Ingólfur, f. 27. september 1965, kvæntur Guðrúnu Petreu Gunnarsdóttur, búa í Ystafelli. Þau eiga einn son.

Ingólfur stundaði bifreiðaakstur hjá hernámsliðinu í Reykjavík, lærði síðan bifvélavirkjun á verkstæði Sveins Egilssonar. Vorið 1946 fluttu Ingólfur og Kristbjörg norður og stofnuðu nýbýli í landi Ystafells. Þar byrjaði hann strax með bíla- og vélaviðgerðir. Ingólfur var einn af fyrstu mjólkurbílstjórum við mjólkursamlag KÞ á Húsavík. Hann stundaði einnig vegavinnu á sumrin og akstur skólabarna á veturna. Hans lífsspeki var "það má aldrei henda neinu, því þá þarf að leita að því daginn eftir". Þar af leiðandi fóru að safnast saman ýmsir hlutir sem eru sjaldséðir núna og þar er kominn vísirinn að Samgönguminjasafninu Ystafelli eins og það er í dag.

Útför Ingólfs verður gerð frá Þóroddsstaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Mjúkur, yndislegur, hlýr, glaður og fagur.

Þetta eru einungis brot af þeim fallegu lýsingarorðum sem einkenndu hann afa okkar.

En nú er hann farinn en verður þó alltaf í hjarta okkar og leiðir okkur í gegnum ókomnar þrautir lífsins.

Alltaf var það svo gott og gaman að koma til þeirra ömmu og afa í sveitina, hlýtt og notalegt.

Það er svo sterkt í minni okkar, allur sá tími sem við áttum með þeim. Varla gat maður beðið eftir að skóla lyki í enda viku til þess að komast heim í sveit. Það voru nú ófá skipti sem Björgvin ætlaði sér að hjóla austur, en viti menn, einn dag var afi gerður að stoltasta manni þegar Björgvin kom hjólandi upp heimreiðina.

Allt frá æskustundum munum við afa í krúttlegu bláu smekkbuxunum með skiptilykilinn í vasanum, eitthvað að gera úti. Og oft var það nú þegar að við komum austur að afi sat með hana ömmu í fanginu í horninu hans. Hann var alltaf eitthvað að gera til að ömmu liði vel.

Einn hversdaglegan fimmtudag fengum við sárar fregnir um að hann afi okkar væri farinn. Svo snöggt.

Höggið var ólýsanlegt og finnum við enn til, en þó fengum við tækifæri á að kveðja hann afa á heimili sínu og ömmu. Fyrir það erum við svo þakklát og að faðma hann og kyssa í hinsta sinn og að sjá þvílíka kyrrð sem yfir honum ríkti.

Kæri afi, við vitum að þó þú sért farinn þá horfirðu niður til okkar og brosir þínu fallega brosi.

Það er síðsumarkvöld,

þó er vorsól í huga.

Þó að hálfnuð sé öld,

þá mun ástin enn duga.

Þið byggðuð hér bæ,

þar sem bjartsýnin býr.

Þó sól setjist í sæ,

sér hver dagur rís nýr.

Enn er bjart í þeim ranni,

enn býr gleðin í hjarta.

Mörgum veglúnum manni,

mætir hlýjan sú bjarta.

(Á.A.)

Góði afi sofðu rótt.

Harpa og Björgvin.

Afi minn, sem ég kallaði oft gullið okkar.

Þegar ég minnist þín þá hugsa ég um alla góðu tímana sem að við áttum saman þegar að ég var í sveitinni. Ég man eftir litlu broddunum sem að ég var að berjast við þegar ég rakaði þig og þú hlóst oft að því, ég gleymi því aldrei. Og allan þann tíma sem að við áttum saman í skúrnum og allar ferðirnar okkar út um allt. Hugur minn var í Felli, ég vildi að ég gæti lifað þennan tíma aftur. En hvernig á ég að vita hvar allt er núna þegar þú ert farinn? Þegar mig vantaði eitthvað, þá spurði ég þig og þú fórst inn í skúr og náðir í það. En ég var samt búinn að leita að því en þú varst með þetta allt inni í hausnum á þér.

En það er ein vísa sem ég mun alltaf muna.

Þína skál, Íslands fagra meyja,

þína skál þó ég ætti að deyja,

þína skál.

Nú er liðið Norðurland,

nú á ég hvergi heima.

Þessa vísu raulaðir þú úti í skúr þegar við vorum þar.

En ég vildi að þú værir ekki farinn en svona er lífið. Þegar ég hugsa um gamla Ford, þá man ég allan tímann sem við og Sverrir áttum við hann og ég skal klappa honum fyrir þig.

Ég veit það að þú ert alltaf með okkur og lifir með okkur í anda og allur gleðitíminn sem við áttum saman gleymist aldrei.

Ég mun gleðjast þegar ég hugsa um þig afi minn.

Takka afi fyrir allt.

Ég elska þig,

Valdimar G. (Addi).

Okkur langar að minnast afa okkar í örfáum orðum. Það kom okkur svolítið í opna skjöldu þegar við fréttum að afi hafði kvatt þennan heim, svona án þess að það gerði nokkur boð á undan sér. Þegar við lítum til baka er hann þó búinn að skila ævistarfi sem margur gæti verið stoltur af. Fram á síðasta dag vann hann við áhugamál sín og sá ekki fram úr þeim verkefnum sem kölluðu á hann. Þeir sem þekkja til vita að sjaldan féll honum verk úr hendi.

Ef ferðalag var í vændum fannst honum ævinlega að einhver þyrfti að vera heima til að taka á móti gestum. Það eru ófáar minningarnar sem tengjast ferðalögum á rútunni en svo nefndist húsbíll sá er afi smíðaði fyrir sig og fjölskylduna. Hann fór oft með okkur upp að Íshólfsvatni, út í Krók á leið til Náttfaravíkur eða í Ásbyrgi og alltaf sá amma fyrir nægum veitingum fyrir alla sem með voru í för.

Heima vildi afi þó helst vera. Annaðhvort við viðgerðir í bílskúrnum eða að auka við byggingar heimilisins. Nú síðast var það átthyrndur teskáli sem kom úr smiðju hans, og var það ein af mörgum tillögum sem afi hafði í kollinum um svona skála.

Bílar voru samt aðal áhugamál afa og þær voru ófáar stundirnar sem hann dvaldi í skúrnum við að sýsla eitthvað tengt þeim. Ósjaldan raulaði hann við þessa iðju sína "Nú er úti veður vont..." eða "Jón og ég við vorum eins og bræður...". Afi hafði komið sér upp töluverðum efniviði til að moða úr. Þar má nefna gamla Ford, Carry-all, og fleiri eðalvagna sem hafa fylgt honum og ömmu frá upphafi hjónabands.

Ömmu unni hann afar heitt og mátti helst ekki af henni sjá, því þá var hann eins og vængbrotinn fugl. Það var umtalað af þeim sem komu inn á heimilið og sáu þau saman við eldhúsborðið þar sem afi sat með ömmu í fanginu að ástin blómstraði eins og hjá unglingum í blóma lífsins. Við eldhúsborðið voru oft sagðar sögur af mjólkurflutningum og öðru sem hann starfaði við hér á árum áður þegar samgöngur á landi voru að slíta barnsskónum. En það var einmitt við eldhúsborðið sem hann kvaddi þennan heim.

En nú er það svo að tíma afa hefur lokið hér á þessari jörð og hann horfið til annarra verka. Við þökkum fyrir þann tíma sem við fengum að vera með honum og kynnast þrautseigju hans og sýn á veröldina. Við biðjum Guð að styrkja ömmu á þessum erfiðu tímum.

Snorri, Inga Björg,

Kristján og Sigurður.

Hann stingur stálinu í eldinn.

Hann stendur við aflinn og blæs.

Það brakar í brennandi kolum.

Í belgnum er stormahvæs.

Í smiðjunni er ryk og reykur,

og ríki hans talið snautt.

Hann stendur við steðjann og lemur

stálið glóandi rautt.

Hann réð sínum ráðum sjálfur.

Hann rækir sín skyldustörf.

Þótt líkaminn sortni af sóti,

er sálin hrein og djörf.

Fast er um tangirnar tekið,

en tungunni lítið beitt.

Hart dynja höggin á steðjann,

unz höndin er dauðaþreytt.

Höndin, sem hamrinum lyftir,

er hafin af innri þörf,

af líknsamri lund, sem þráir

að létta annarra störf.

Sá fagri framtíðardraumur,

er falinn í verkum hans,

að óbornir njóti orku

hins ókunna verkamanns.

(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.)

Kveðja,

Guðrún Petrea (Didda).

Ég var ekki gagnkunnur Ingólfi Kristjánssyni á Yzta-Felli, en við urðum kunningjar og ég staldraði þar við er leið lá um. Fyrir löngu heyrði ég getið þeirra feðga Ingólfs og Sverris sonar hans fyrir mikið safn hvers kyns ökutækja þar heima á bæ. Þetta virtist þó við fyrstu sýn miðlungi aðlaðandi. Fjöldi af lúnum og uppgefnum tækjum stóð þar í breiðum við verkstæðið, vörubílum, fólksbílum, rútum og jeppum, og inn á milli dráttarvélar, og jafnvel mátti sjá þar einn vélbyssuvagn. Þetta var á ýmsum aldri og ekki allt mjög heillegt, en það átti sér skýringu. Þeir feðgar ráku viðgerðarverkstæði og gerðu við bíla og tæki sveitunga sinna. Því var eðlilegt að saman tíndist ýmislegt sem taka mætti úr varahluti og efni til smíða. En þó mátti sjá, að hér blundaði einnig önnur tilfinning.

Þar inni á verkstæðinu sá ég vel roskinn vörubíl, sem þeir feðgar voru að gera upp sér til gamans. Ég átti ekki von á að frekari stórvirki yrðu unnin á því sviði, en ég heyrði fornbílamenn tala með virðingu um Ingólf og dótið hans, og einhverjir sögðust kyssa jörðina eins og páfinn, er þeir komu þangað. En svo gerðist það, að þeim feðgum varð kleift að koma upp haganlegri og snyrtilegri sýningarskemmu hjá verkstæðinu, og þar inn voru sett ýmis heillegustu og merkilegustu tækin. Allt í einu var komið sýningarsafn, sem opnað var formlega 8. júlí 2002. Þar er líka snotur veitingastofa og á sýningunni getur að líta bifreiðar og önnur samgöngu- og flutningatæki, allt frá um 1930 er bifreiðar fóru að verða til almenningsnota, og lítils háttar reyndar frá hestatímabilinu. Þessu er vel fyrir komið og haganlega eftir því sem pláss leyfir. Margt er fleira að sjá, merki, skjöl og skilríki sem samgöngum tengjast, og nú sneru þeir feðgar sér af aflefli að standsetningu og frekari söfnun þeirra gripa, sem öðrum fremur höfðu varðveizlugildi.

Ég fann áhuga heimilisfólksins á að hafa hér safn sem lýsti samgöngum á landi á vélaöld, þróun vega og vegavinnutækja. Ómæld vinna og fyrirhöfn var lögð í þetta áhugamál. Sá ég það bezt, er ég dvaldist þarna á Yzta-Felli dagstund fyrir tveimur árum. Áhugi og þekking fylgdust hér að og gaman var að ræða við Ingólf um hugðarefnið. Hann var sjálfur gamall flutningabílstjóri þar fyrir norðan, og hafði eins og aðrir á þeim tíma orðið að bjarga sér sjálfur á margvíslegan hátt með viðgerðir og viðhald og lærði að brjótast áfram í snjó og ófærð. Starfsheimurinn var hans áhugasvið.

Vonandi fellur merkið ekki niður þarna á Yzta-Felli þótt Ingólfur sé frá fallinn. Hér er verkefni fyrir minjavörzlu landsins að styðja. Samgöngusöfnin í landinu eru merkileg nýjung, sem þurfa að hafa samráð og samstarf um verkefni. Vel sé þeim sem hyggja að þessum safnaþáttum eins og öðrum. Ingólfur skipaði sinn sess í minjavörzlunni og ég ætla að menn muni enn frekar meta verk hans er fram líða stundir.

Þór Magnússon.

Fyrir nokkrum dögum áttum við Kristrún leið um Kinn og komum við í Felli og drukkum kaffi hjá Guðrúnu og Sverri. Ingólfur og Kristbjörg komu yfir um og við fórum að tala um það, hvernig við gætum unnið áfram að því að byggja upp Samgönguminjasafnið. Það var notaleg stund, af því að þeir feðgar vissu nákvæmlega hvernig þeir sáu næstu skref fyrir. Sverrir var fullur bjartsýni, stórhuga, af því að hann finnur, að með þeim hætti getur hann fundið lífi sinu fyllingu og líka látið gott af sér leiða fyrir byggð sína og fyrir framtíðina. Haldið áfram því verki, sem faðir hans hafði hafið. Skemman, sem risin er, hefur sannað sig. Áhugamenn um fornbíla fylgjast glöggt með því sem þar er að gerast og safnafólk, sérfræðingar á því sviði, skilja, að menn eins og Ingólfur og Sverrir eru sömu náttúru og Egill á Hnjóti og Þórður í Skógum. Persónugervingar fyrir hið besta í íslenskri bændamenningu á sínu sviði. Ekki varði mig þá, að þessi stund yrði sú síðasta sem ég ætti með Ingólfi. Þessum sviphreina og svipsterka manni, sem fleiri standa í þakkarskuld við en hann hafði nokkru sinni hugmynd um. Ég efast um, að hann hafi nokkru sinni velt því fyrir sér. Ég held raunar, að hann hafi jafnan gengið til þeirra verka, sem knúðu á hverju sinni. Og síðan gekk hann til næsta verks.

Enginn má skilja orð mín svo, að Ingólfur í Felli hafi nokkru sinni verið þræll sinnar vinnu. Hann tók sér góðan tíma til að skeggræða við þá, sem bar að garði, og Kristbjörg sá um, að þeim væri vel tekið. Og skaut inn orði. Bæði ákveðin í skoðunum og fylgdust vel með. Á meðan ég skrifa þessar línur heyri ég hljóm orðanna og þekki áherslurnar. Og það var farið vítt yfir. Pólitík bar á góma, ættfræði og fólk. Og að sjálfsögðu merkileg eintök af bílum.

Það eru áratugir síðan ég kom fyrst við í Felli. Einu sinni man ég eftir því, að öll fjölskyldan var undir, inni í eða ofan í Reo-trukk, ættuðum frá Keflavíkurvelli, og mátti ekki vera að því að líta upp. Strákar og stelpur á öllum aldri, það yngsta var að skipta um peru inni í bílnum og Ingólfur var í samfestingnum sínum með skrúflykla og málmhluti á hverjum fingri. Ástæðan var sú, að þau höfðu boðið vinum sínum Magnúsi Jónssyni frá Mel og Ingibjörgu Magnúsdóttur konu hans með sér yfir Sprengisand. Það var eftir að Magnús fékk áfallið. Og nú reið á, að allt væri í lagi. Ég hef aldrei séð jafn samhenta fjölskyldu. Ég spurði Ingólf einu sinni, af þessu tilefni, hvort börnin hans hefðu lært á bíl áður en þau lærðu að tala. Hann gaf ekkert út á það, svo að ég hef síðan haft það fyrir satt. En ferðin yfir Sprengisand gekk vel.

Þegar þau Ingólfur og Kristbjörg fluttu í Kinn var seiglan og dugnaðurinn það, sem fleytti þeim áfram. Og að vita, hvað þau vildu. Gamlir bílar fóru að safnast í kringum þau eða dráttarvélar, svo að ókunnugir höfðu orð á því, hneykslaðir meira að segja. Þeir vissu ekki, að Ingólfur réð ekki við söfnunaráráttu sína og hafði reiðu á öllum hlutum. Þeir vissu heldur ekki, að á bak við þessa hirðusemi var þessi krafa hans til sjálfs sín, að geta brugðist við, ef til hans væri leitað út af biluðu tæki. Ég kann sögu af því frá þeim árum, þegar enginn bíll var á Lækjamóti, aðeins Farmall Cub-traktor. Þetta var um hásláttinn og sama hvaða ráða var leitað. Hann vildi ekki í gang. Það var líka leitað til Ingólfs og kom fyrir ekki, svo að heimilisfólkinu var ekki rótt, enda efnin ekki mikil. Nokkrum dögum síðar birtist svo Ingólfur. Hann hafði verið með hugann á Lækjamóti, var með lítið stykki með vírendum út úr sér í hendinni og sagði sér hefði dottið í hug, að þéttirinn (ég vona að þetta sé rétt hjá mér) hefði gefið sig og skipti um. Og sjá: Farmall Cubinn gekk eins og klukka. Svona var Ingólfur. Hann gafst ekki upp og þótt sál hans væri mannlegrar náttúru var sál hans líka sál allra bíla og traktora, einkum gamalla bíla og gamalla traktora sem hann komst í tæri við. Fleiri sögur kann ég af hjálpsemi hans. Auðvitað kunni hann ekki að skrifa reikning fyrir vinnu sinni, en þau hjónin björguðust vel. Höfðu alltaf ráð.

Enginn vafi er á því, að Ingólfur ætlaði sér aldrei að efna til Samgönguminjasafns í Ystafelli, en hann vildi nýta hlutina og geta brugðist við. Smám saman varð þessi hugmynd til hjá þeim feðgum, Sverri og honum, og Kristbjörg og Guðrún stóðu með þeim í því. Og í gömlu fjárhúsunum og í hlöðunni ægir öllu saman, en samt er allt á vísum stað. Og í nýju skemmunni er öllu snyrtilega og vel fyrir komið, sem gleður augu þeirra sem þangað koma. Hver bíll á sína sögu og ber keim af eigandanum. Þar eru líka bílar, sem búið er að taka í sundur og verða að nýjum. Þannig hefur þessi sérstaka hirðusemi Ingólfs nú búið syni hans, Sverri, og fjölskyldu hans starfsvettvang. Nú hefur Ingólfur fallið frá, en ég heiti á sjálfan mig og aðra, að halda verkinu áfram. Ég sé fyrir mér, að hugsjón Sverris og konu hans Guðrúnar og fjölskyldunnar rætist.

Ingólfur var sérstakrar gerðar og unni konu sinni Kristbjörgu og hafði hana alltaf í huga. Fyrir ári eða svo sagði hann mér, að hann ætlaði að reisa lítið hús fyrir Kristbjörgu vestan við safnhúsið fyrir þá hluti, sem Kristbjörg vildi halda til haga og hafði sankað að sér. Það stóð hann við. Frá því gat hann ekki dáið. Húsið er risið. Og ég man hvað hann var glaður og stoltur þegar hann sýndi okkur Kristrúnu það. Ef til vill er það merkilegasti hluturinn í safninu og verður alltaf. Ég hringdi í Kristbjörgu, eftir að ég hafði frétt lát Ingólfs. Og hafði við orð, að hún hefði ekki viljað fara á undan. Nei, sagði hún. Ég vildi ekki fara á undan. Þannig hugsuðu þau alltaf hvort um annað og hvort til annars. Ingólfur hefði sagt hið sama.

Við Kristrún höfum hugsað heim í Fell þessa síðustu daga. Þessa síðustu erfiðu daga. Guð sé með ykkur öllum og blessi minningu Ingólfs Kristjánssonar.

Halldór Blöndal.

Fyrir tveimur árum átti ég þess kost að dvelja vikutíma með fjölskyldu minni í gamalli hlöðu á eyðibýlinu Landamótum í Köldukinn, en hlöðu þessa hafði Ingólfur á Ystafelli gert upp af miklum hagleik og umbreytt í fallegt íbúðarhús. Fyrir utan eldhúsgluggann malaði forláta rafstöð frá Bjarna eldsmið í Hólmi og sá hún gestum fyrir nægu rafmagni. Ingólfur minnti um margt á Bjarna í Hólmi. Báðir voru þeir miklir hagleiksmenn á járn og þurftu löngum að viða að sér öllu því sem til féll, svo hægt væri að halda vélum og tækjum gangandi. Þegar Ingólfur og Kristbjörg kona hans fluttu norður í Kinnina árið 1946 var vélaöld að hefja innreið sína í sveitir landsins. Ingólfur hafði lært bifvélavirkjun hjá Sveini Egilssyni í Reykjavík og því lá beinast við að hann snéri sér að vélaviðgerðum fyrir norðan, þegar gömlu mennirnir í sveitinni voru smám saman að kaupa sér sína fyrstu dráttarvélar og kunnu að vonum lítið til viðgerða. Í þá daga gat skipt sköpum fyrir heyskapinn ef hægt var að gera við vélarnar á staðnum, því óratíma gat tekið að fá varahluti að sunnan. Ingólfur hóf því að viða að sér öllu því sem komið gat að notum við viðgerðirnar og lagerinn óx og dafnaði, eins og vegfarendur um Kinnina tóku vel eftir. Fyrr en varði urðu þessir aflögðu hlutir að merkilegum safngripum og enduðu margir þeirra að lokum inni í glæsilegu samgönguminjasafni, sem er og verður táknrænn minnisvarði um Ingólf á Ystafelli.

Ég og aðrir fornbílamenn sunnan heiða vottum Kristbjörgu og fjölskyldu hennar samúð okkar, með þakklæti fyrir frábærar móttökur á liðnum árum.

Örn Sigurðsson.

Ystafell. Ingólfur er í hlaði og heilsar komumanni. Eftir að hafa sýnt honum helstu verkefni sem unnið er að segir hann: "Jæja, en ég held það sé til kaffi, Bibba var áreiðanlega að hella á."

Að koma að Ystafelli er líkt og að koma heim. Þar eru allir velkomnir. Þar hefur staðið samfelld veisla í hálfa öld. Ingólfur og Bibba hafa rekið þar einskonar veitingastað sem að sönnu mætti kalla "Ingólfskaffi" þeirra Þingeyinga eða Café Kristbjörgu. Þessi staður er að því leyti öðruvísi en aðrir af því tagi, að þar er alltaf opið og allar veitingar ókeypis. "Þið verðið að koma inn - og fá eitthvað áður en þið haldið áfram, - það er ómögulegt annað." Þetta heyrði ég Ingólf oft segja þegar hann hafði greitt úr vanda þeirra sem til hans höfðu leitað, með bilaðan farkost, en þeir voru ófáir. Einu sinni var ég spurður að því á hverju þetta fólk lifði. Sannaðist þá enn og aftur að þegar stórt er spurt verður gjarnan lítið um svör. Veistu það, svaraði ég, ég eiginlega veit það ekki alveg. Ég veit þó að ágirndin íþyngir þessu fólki ekki. Ingólfur sagði að vísu stundum að hann hefði alla tíð lifað á óförum annarra, það væri alveg sannleikur. Hitt er þó meiri sannleikur að hann verðlagði vinnu sína aldrei að verðleikum. Ósjaldan voru einföld þakkaryrði einu launin. Mestu skipti var að greiða úr fyrir þeim sem til hans leituðu. Líf hans snerist um það öðru fremur. Það er náungakærleikur, án sýndarmennsku og yfirlætis.

Ingólfur var einhver spaugsamasti maður sem á vegi mínum hefur orðið. Sagði sögur af sveitungunum, hinum og þessum uppátækjum og ógleymanlegum tilsvörurum, með þvílíku látbragði og lýsingum að allt ætlaði um koll að keyra úr hlátri. Endalaust grín, en þó svo græskulaust að engu skipti hver fyrir því varð. Einu sinni var ég í skúrnum hjá Ingólfi. Lá undir bíl og vantaði verkfæri til að losa kvarttommuskrúfu. Páll bróðir minn var þarna líka. Hvað vantar þig Ámundi? spurði Ingólfur. Fimm sextándu lykil, skiptilykil, töng, eða eitthvað, svaraði ég. Allt í einu skellir Palli upp úr. Ingólfur hafði rennt tíu kílóa, metra löngum skiptilykli undir bílinn til mín. Þegar Ingólfur var í sérlega góðu skapi söng hann oft vísur á drepfyndinn hátt. T.d. Yfir kaldan eyðisand, á alveg sérstakan hátt með löngum tónum þar sem seimurinn var svo langt dreginn að hægt var að fara með vísuna tvisvar meðan hann söng hana einu sinni. Þegar kallinn var í þessu stuði sveif kómíkin yfir vötnum. Hláturinn sauð og kraumaði allt í kring. Ingólfur sýndi engin svipbrigði.

Ingólfur var afburða verkmaður. Skipulag hans í verki skilaði ótrúlegum afköstum. Þau rúmlega þrjátíu ár sem ég þekkti Ingólf minnist ég þess ekki að hafa séð hann vinna upp eftir sig nokkurt verk. Það gekk allt og virkaði. Hann var alltaf í andlegu jafnvægi og skipti aldrei skapi á þann veg að hann hefði ekki fullkomna stjórn á orðum sínum og gerðum. Vissulega gat honum sárnað ef svo bar undir. Þá lét hann það líka í ljós á þann hátt að ekki varð misskilið.

Eins og allir vita var Ingólfur áhugamaður um gamlar vélar og bíla. Fyrir hans atbeina hefur á löngum tíma orðið til mikið safn af slíku í Ystafelli. Og hefur verið byggt yfir það að hluta. Þar er vegleg aðstaða fyrir gesti sem skoða vilja safnið.

Nú er leik lokið. Ingólfur hefur kvatt okkur og það nokkuð óvænt, Áhugi hans, starfsgleði og vinnuþrek var svo frábært að aldurinn vildi gjarnan gleymast. Hér er aðeins stiklað á stóru í minningum um Ingólf. Þar er af nægu að taka fyrir hans fjölmörgu vini. Þeir eiga ómetanlegan fjársjóð minninga um einstakan mann.

Ámundi Loftsson.

Það er sumarkvöld, og fuglarnir gengnir til náða í Köldukinn. Út um hálfopnar dyr skemmunnar að Ystafelli berst ljósglæta, og ef litið er inn ber fyrir augu ótrúlegt samansafn af bílum og bílhlutum, vélum og verkfærum. Við vélarblokk stendur maður með skrúflykil í hendi og glímir við heddbolta hægum og fumlausum tökum. Ef lagt er við hlustir heyrist raulað "Yfir kaldan eyðisand". Það er til marks um að boltinn er að láta undan þrautseigju mannsins.

Maðurinn er Ingólfur Kristjánsson og umhverfið er hans ævistarf; þarna á hann heima.

Þegar rúmlega áttræður maður deyr ætti það ekki að koma neinum á óvart. Jafnvel til í dæminu að fólki sem nær slíkum aldri sé dauðinn velkomin líkn frá ellihrumleikanum. En þeir sem þekktu Ingólf í Ystafelli áttu svo sannarlega ekki von á því að hann myndi deyja á næstunni. Ekkert í fari þessa glaðlega og sístarfandi manns minnti á háan aldur og mikla vinnu frá barnæsku. En svona er lífið, - og dauðinn, sífellt að koma á óvart, enda má segja að mesti spenningurinn færi úr tilverunni ef allir vissu ætíð sinn næturstað. Trúlega hefði Ingólfur kosið sér örlítið lengri tíma hér á jörð, því það átti aldrei við hann að hverfa frá óloknu verki. En dauðdaginn var eins og hann hefði að líkindum sjálfur viljað, og á þeim stað sem honum var kærastur.

Ingólfur Kristjánsson var vinur minn og allrar minnar fjölskyldu. Fyrir tveim áratugum var ég svo ljónheppinn að vera nokkur sumur hjá sæmdarhjónunum Ingólfi og Bibbu. Fyrir þá sem ekki vita skal upplýst að þarna var ekki stundaður hefðbundinn búskapur. Einhverjar kýr voru í fjósi, og að sjálfsögðu heyjað fyrir þær, en að öðru leyti snerist lífið að Ystafelli um bíla. Þeir bílar sem ekki voru a.m.k. tuttugu ára gamlir töldust reyndar ekki með. Fyrir óharðnaðan ungling úr Reykjavík var það opinberun að koma á slíkan stað. Þarna var allt unnið af ljúfmennsku og heiðarleika, hávaðalaust. Þeir sem kenna okkur slíka eiginleika verða vinir okkar.

Á þessum árum var ekki álitið til eftirbreytni að sanka að sér bílhræjum, enda talaði skammsýnt fólk stundum um "draslið á Ystafelli". Nú heitir þetta björgun menningarverðmæta, og félagar í Fornbílaklúbbnum kyssa jörðina þegar þeir eiga leið um Köldukinn. Slíkur fjöldi bíla er á jörðinni að ég veit um unga stúlku sem fór þar framhjá nokkrum sinnum, og spurði að lokum foreldra sína: "Er alltaf afmæli þarna?"

Fyrir nokkrum árum réðust þeir feðgar, Ingólfur og Sverrir, í það stórvirki að byggja yfir hluta bílaflotans, og stofnuðu Samgönguminjasafnið. Þar hefur verið fróðlegt að njóta leiðsagnar þeirra, og mun þetta framtak halda nafni þeirra á lofti um ókomin ár.

Það verður ögn tómlegt að koma að Ystafelli þegar Ingólf vantar, en ég veit að Samgönguminjasafnið heldur áfram að stækka og dafna undir styrkri stjórn Sverris.

Því miður komumst við ekki til að fylgja Ingólfi síðasta spölinn, en sendum þessa kveðju. Einnig frá foreldrum mínum og systur.

Megi allar góðar vættir styrkja Bibbu og afkomendur hennar og Ingólfs í sorginni.

Björgvin Harðarson

og fjölskylda.