[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnhildur M. Kjerúlf og systir hennar, Sigríður M. Kjerúlf, fæddust á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal og ólust þar upp. Ragnhildur fæddist 22. janúar 1923, hún lést 6. mars 1999. Sigríður fæddist 10. febrúar 1917, hún lést 23. apríl 1998. Foreldrar þeirra voru hjónin Guðrún Jónsdóttir, ættuð frá Felli í Suðursveit, og Metúsalem Jónsson Kjerúlf frá Melum í Fljótsdal.

Eftirlifandi eiginmaður Ragnhildar er Páll Sigurðsson í Sauðhaga í Vallahreppi. Eignuðust þau sex börn, fjórar dætur er upp komust og tvo syni er dóu í frumbernsku.

Eiginmaður Sigríðar var Einar Pétursson frá Ormsstöðum í Skógum í landi Hallormsstaðar, d. 14. mars árið 2000. Þeirra börn voru fimm, þrjár dætur og sonur, uppkomin öll, en annan drenginn sinn misstu þau níu mánaða gamlan.

Hinn 22. janúar sl. hefði hún Ragnhildur móðursystir mín orðið áttatíu ára ef örlögin hefðu ekki gripið í taumana, en hún lést úr hvítblæði og sýndi mikið æðruleysi í veikindum sínum. Áður höfðu tvær systur hennar látist úr þeim sjúkdómi, móðir mín, Aðalbjörg M. Kjerúlf, er andaðist 2. nóv. 1949 frá ellefu börnum 43 ára að aldri, og Þorbjörg M. Kjerúlf er lést 13. nóv. 1975.

Ragnhildur bjó með Páli manni sínum nærri fimmtíu ár í Sauðhaga, æskuheimili Páls, miklu þrifnaðarbúi og þá nær eingöngu með sauðfé.

Páll hefur mikið yndi af kindum og þá einkum mislitu fé. Hann býr enn í Sauðhaga við kindur sínar. Hefur snyrtimennska í hvívetna einkennt búskap hans.

Ragnhildur var ákaflega tónelsk, svo sem mörg systkini hennar. Síðari árin, eftir að heimilisstörfin urðu léttari, sat hún oft við hljóðfærið og samdi mörg lög. M.a. voru fjögur laga hennar flutt við útförina. Hún var glaðsinna og hláturmild og miðlaði gleði út meðal þeirra, sem voru henni nálægir.

Ragnhildur var einstaklega einlæg og kærleiksrík, laðaði til sín annað fólk og þá ekki síst börnin, sem oft dvöldu á heimili þeirra Páls, fyrir utan þeirra eigin.

Mjög oft lék hún við börnin þótt annir væru miklar á stóru heimili, spilaði við þau og lék á orgelið lögin sín og önnur. Minningin um elskulega konu, sem miðlaði góðvild og einlægri trú, mun ekki fyrnast meðal samferðafólks.

Sigríður og Einar, eiginmaður hennar, bjuggu ásamt börnum sínum um 30 ára skeið á Arnhólsstöðum í Skriðdal, arðsömu myndarbúi, uns þau eftirlétu Ingibjörgu dóttur sinni og Hreini Guðvarðssyni tengdasyni jörðina og bústofn allan.

Fluttu þá í Egilsstaði í nýbyggt hús, sem Einar hafði áður tekið þátt í að byggja. Þar stunduðu þau ýmsa vinnu á meðan heilsan leyfði.

Á meðan Sigríður bjó við góða heilsu var hún glaðlynd og á ég mjög auðvelt með að laða fram í endurminningunni hinn einlæga hlátur hennar, en svo dundi reiðarslagið yfir er hún veiktist af hinum langvinna sjúkdómi, alzheimer.

Dvaldi hún fyrst heima en varð að lokum að fara á sjúkrahúsið á Egilsstöðum þar sem hún dvaldi rúm fimm ár eða þar til yfir lauk. Hafði hún lengst af fótavist, en var lítt sjálfbjarga og gat nær ekkert tjáð sig. Þá átti hún frænka mín stundum erfitt.

Loks kom hin ljósa hönd miskunnseminnar, strauk mjúklátum fingurgómum um kveikinn og hreif með sér þann neista er svo lengi hafði blakt á kolu lífsins.

Aðdáunarvert var það hvað Einar var konu sinni hjálplegur í hennar erfiðu veikindum, en mjög kært var með þeim hjónum. Þegar Sigríður var dáin sagði hann að nú væri honum ekkert að vanbúnaði að kveðja þetta líf.

Vart verður þeirra Sigríðar og Ragnhildar minnst án þess að getið sé hinnar óeigingjörnu hjálpsemi Guðrúnar, systur þeirra, sem var þeim ómetanleg stoð og stytta í hinu mikla veikindastríði þeirra. Á hún miklar þakkir og heiður skilið fyrir það.

Sannarlega er og vert að geta þess hér að frá því þau Sigríður og Einar létust hefur sonarsonur þeirra Lúðvík Emil brugðið sér upp í kirkjugarð í Þingmúla hvern aðfangadag jóla með blómvendi og ljós, og komið þessu fyrir á leiðum ömmu sinnar og afa.

Þar hafa þessi ljós varpað bjarma á legsteinana yfir hátíðisdagana. Er þetta falleg ræktarsemi hins alúðlega unga manns.

Þegar þær systur hafa nú beygt kné sín til foldar má trúa því að hinn æðri máttur umvefji þær, sem þær og trúðu að biði við hliðið og vísaði öllum leið til sólskinsparadísar. Þegar ég heyri góðs manns getið er ljúft að minnast þeirra móðursystra minna.

Bragi Björgvinsson Víðilæk.