[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á meðal spurninga sem hefur verið svarað á Vísindavefnum að undanförnu má nefna: Finnast eiturefni í íslenskum fiskum, er forystufé alltaf mislitt og hagar það sér öðruvísi en annað fé, hvað er kawasaki-sjúkdómur og er til opinber skilgreining á líftækni?

Hvaða áhrif hafa tölvuleikir sem innihalda klám og ofbeldi á börn?

SVAR: Rannsóknir á áhrifum ofbeldis í tölvuleikjum á börn og unglinga eru skammt á veg komnar í samanburði við rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum sjónvarps, enda eru tölvuleikir fremur nýtt fyrirbæri. Í nýlegri rannsókn á ofbeldi í 33 vinsælum tölvuleikjum kom í ljós að 80% af þeim voru ofbeldisleikir, að konur voru beittar ofbeldi í 21% leikjanna og í nær þriðjungi leikjanna voru konur hlutgerðar á kynferðislegan hátt.

Ítarleg rannsókn sem gerð var á áhrifum tölvuleikja sýndi að marktæk fylgni er á milli notkunar ungmenna á ofbeldisfullum tölvuleikjum og árásarhneigðar þeirra, það er að segja, því meira sem börn og unglingar nota slíka leiki, því árásarhneigðari eru þau. Einnig er vitað að því raunverulegri sem tölvuleikirnir eru, því meiri áhrif hafa þeir. Sumir leikir þykja reyndar svo raunverulegir að bandaríski herinn notar þá til að þjálfa hermenn sína. Sá tölvuleikur sem mest er notaður af bandaríska hernum er lítillega breytt útgáfa af vinsælum Super Nintendo-leik. Fyrrum ofursti í bandaríska hernum og prófessor í sálfræði og herfræðum, Dave Grossman, heldur því blákalt fram að framleiðendur tölvuleikja séu að kenna börnum og unglingum að drepa á nákvæmlega sama hátt og bandaríski herinn þjálfar hermenn sína í að drepa óvininn. Hann segir að tölvuleikir kenni börnum: a) að þykja ofbeldi vera eðlilegur hluti af umhverfi sínu, b) að þykja skemmtilegt að sjá ofbeldi og dauða, c) að skjóta sjálfkrafa á "mannverur" og d) að líta upp til þeirra sem beita ofbeldi.

Svo virðist sem ekkert sé vitað um áhrif kláms í tölvuleikjum á börn. Af siðferðilegum ástæðum hafa fáar rannsóknir verið gerðar á áhrifum kláms á börn og unglinga en þær rannsóknir hafa sýnt að klámefni og annað kynferðislegt efni getur haft áhrif á viðhorf þeirra til kynlífs og á kynlífshegðun þeirra. Unglingar sem horfa til dæmis á klámmyndir telja að sú hegðun sem þeir sjá þar sé eðlileg. Þessir sömu unglingar eru líklegri til að hafa haft fleiri rekkjunauta en jafnaldrar þeirra og vera síður líklegir til að nota getnaðarvarnir við samfarir.

Tekið skal fram að flestar rannsóknir á áhrifum tölvuleikja hafa mælt skammtímaáhrif leikjanna en lítið er vitað um hugsanleg langtímaáhrif þeirra. Jafnframt ber að nefna, að þó að börn og unglingar noti tölvuleiki með klámi og ofbeldi þýði það alls ekki að þau verði fyrir varanlegum skaðlegum áhrifum. Fjölskyldan er stærsti áhrifavaldurinn í lífi barna og unglinga og séu tengsl foreldra og barna góð hafa ofbeldi og klám í fjölmiðlum og tölvuleikjum yfirleitt lítil áhrif á þau. Þau börn sem alast upp við ofbeldi, vanrækslu og jafnvel misnotkun, eru hins vegar í áhættuhópi og í tilfelli þeirra getur ofbeldis- og klámefni verið sem olía á eld.

Guðbjörg Hildur Kolbeins, lektor

í hagnýtri fjölmiðlun við HÍ.

Get ég höfðað mál gegn sjálfum mér?

SVAR: Svarið við spurningunni er bæði já og nei. Þú getur að sjálfsögðu stefnt sjálfum þér en reglur einkamálaréttarfars um aðild að dómsmáli og sakarefni valda því að málinu yrði vísað frá og væri þar af leiðandi ekki tekið til efnislegrar meðferðar.

Um þetta efni gilda lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála (aðallega kaflar III og IV) og ólögfestar reglur einkamálaréttarfars. Reyndar taka lögin um meðferð einkamála ekki með berum orðum á þessu viðfangsefni en talið er að í réttarfari gildi sú óskráða regla að aðilar dómsmáls verði að vera tveir - sækjandi og verjandi, stefnandi og stefndi - enda getur sami maður ekki átt kröfu á hendur sjálfum sér og þannig haft lögvarða hagsmuni af úrlausn máls.

Þetta hefur komið skýrlega fram í dómum Hæstaréttar, svo sem í svökölluðum Mývatnsdómi frá árinu 1982 (bls. 182 í dómasafni Hæstaréttar). Þar stefndu landeigendur og tveir ábúendur jarða sem lágu að Mývatni ríkissjóði fyrir leyfislausa töku ríkisins á kísilgúr af botni Mývatns. Þar sem eigandi ábúðarjarðanna tveggja var í raun ríkið sjálft var kröfugerð þess aðila vísað frá dómi. Hæstiréttur taldi að sami aðili, í þessu tilviki hið opinbera, gæti ekki verið sækjandi og verjandi í sama máli.

Hins vegar er hægt að höfða mál gegn eins mörgum einstaklingum og verða vill svo lengi sem skilyrðum 18. og 19. gr. laganna um sameiginlega aðild þeirra er fullnægt og einnig er hægt að höfða mál gegn óþekktum aðila, svokölluð ógildingar- eða eignardómsmál, sbr. 120. og 121. gr. laganna, en þá er stefnan birt í Lögbirtingarblaðinu .

Sigurður Guðmundsson, laganemi við HÍ.