RÁÐSTEFNAN um framtíð Evrópu, eins og "stjórnlagaþing" Evrópusambandsins (ESB) er kallað, lagði til í gær að í því ígildi stjórnarskrár ESB sem þingið er nú með í smíðum, verði ákvæði sem geri aðildarlöndum kleift að segja sig úr sambandinu.
RÁÐSTEFNAN um framtíð Evrópu, eins og "stjórnlagaþing" Evrópusambandsins (ESB) er kallað, lagði til í gær að í því ígildi stjórnarskrár ESB sem þingið er nú með í smíðum, verði ákvæði sem geri aðildarlöndum kleift að segja sig úr sambandinu.

Fulltrúarnir 105, sem sæti eiga á ráðstefnunni og eru frá öllum núverandi og tilvonandi aðildarríkjum ESB, munu nú ræða þessa tillögu í samhengi við heildartillögu að framtíðarstjórnarskrá fyrir sambandið sem á að liggja fyrir í sumar.

Í ákvæðisdrögunum er kveðið á um, að hvert aðildarland ESB geti sagt sig úr sambandinu "í samræmi við eigin stjórnlög".

Jean-Luc Deheane, varaforseti ráðstefnunnar, útskýrði að ákvæðið væri sérstaklega smíðað til að koma til móts við efasemdarmenn um Evrópusamrunann sem kærðu sig ekki um að "læsast inni" í ESB.

Það var Valery Giscard d'Estaing, forseti ráðstefnunnar, sem í fyrra setti hugmyndina um úrsagnarákvæði fyrst á flot, en í núgildandi stjórnlögum ESB er slíkt ekki að finna.

Brussel. AFP.