MISJAFNT er hvort stærstu vörsluaðilar séreignarlífeyrissparnaðar borgi þann kostnað sem til fellur þegar einstaklingar færa sparnað sinn til þeirra.
MISJAFNT er hvort stærstu vörsluaðilar séreignarlífeyrissparnaðar borgi þann kostnað sem til fellur þegar einstaklingar færa sparnað sinn til þeirra. Búnaðarbankinn hefur að undanförnu auglýst í Morgunblaðinu að þeir sem eigi séreignarlífeyrissparnað hjá öðrum vörsluaðila hafi nú tækifæri til að færa sparnaðinn til bankans. Hann taki á sig kostnað við flutninginn sem viðskiptavinir þyrftu annars að greiða.

Hafliði Kristjánsson, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Kaupþings, segir að fyrirtækið greiði þennan kostnað fyrir viðskiptavini.

Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs sparisjóðanna, segir þá ekki greiða viðskiptavinum fyrir að færa viðskipti sín til þeirra. "Við látum meta okkur út frá góðri þjónustu, sem hefur til dæmis komið vel fram í ánægjuvoginni. Við höfum frá upphafi greitt hæstu vextina á verðtryggðum reikningum, miðað við sambærilega lífeyrisreikninga í bankakerfinu. Þannig höfum við í raun greitt viðskiptavinunum fyrir."

Ólafía Harðardóttir, sjóðsstjóri hjá Landsbanka, segir að bankinn taki ekki á sig kostnað við flutning viðskiptavina til bankans. "Hins vegar tekur Landsbankinn ekki kostnað ef viðkomandi er í Vörðunni eða gengur í Vörðuna með sín heildarfjármál," segir hún, en Varðan er heildarfjármálaþjónusta fyrir einstaklinga.

Kristjana Sigurðardóttir, sjóðsstjóri hjá Íslandsbanka, segir bankann greiða þann kostnað sem til falli þegar viðskiptavinur færi séreignarsparnað sinn til sjóðs í bankanum.