"Undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hafa verið stigin eftirtektarverð skref..."
AÐ undanförnu hefur komið í ljós að mikillar óþreyju gætir á Íslandi hjá áhugafólki um jafnréttismál. Ekki síst vegna þess að þegar íslenskt samfélag er skoðað með kynjagleraugum og staða karla og kvenna skoðuð birtist raunveruleiki sem ekki er í nokkru samræmi við gildandi jafnréttislög númer 96/2000. Þetta er því dapurlegra þegar haft er í huga að þrátt fyrir starfsemi rauðsokkuhreyfingarinnar, kvennaframboðsins og Samtaka um kvennalista, tilkomu Jafnréttisstofu og dugnað kvenfélagasamtakanna og kvenréttindafélagsins, svo fátt eitt sé nefnt, hefur karlveldinu ekki mikið verið hnikað til.

Jafnvel sú staðreynd að konur brugðust í alvöru við áskoruninni um að með aukinni menntun kæmust þær upp að hlið karla og að fram við þær yrði komið og við þær talað sem jafningja dugði ekki til. Það er nefnilega svo - því miður - að langt er í land með jafnréttið og nefni ég þá sérstaklega staðfestan launamun kynjanna og endalausan vinnutíma kvenna, því alltof litlar breytingar hafa orðið á verkaskiptingu á heimilum, þrátt fyrir eina mestu atvinnuþátttöku íslenskra kvenna af öllum OECD-ríkjunum.

En ekki skal ótalið það sem vel hefur verið gert en þar stendur árangur Reykjavíkurborgar upp úr hafsjónum hvað jafnréttismál varðar. Undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hafa verið stigin eftirtektarverð skref sem sýna að misrétti kynjanna er ekki náttúrulögmál heldur fyrirkomulag sem má breyta með vel ígrunduðum áætlunum og markvissum aðgerðum.

Samfylkingin, sem framsækið afl í íslenskum stjórnmálum, bregst við þessum staðreyndum með því að boða til átaks í jafnréttismálum á öllum sviðum þjóðlífsins. Þetta átak er byggt á áætlun sem framkvæmdastjórn flokksins vann sl. vetur og hefur nú verið sett fram í bæklingi. Þar kemur m.a. fram að Samfylkingin einsetur sér að vera í fremstu röð í jafnréttismálum og að hún skuli í umboði kjósenda setja jafnréttissjónarmið á oddinn í íslensku samfélagi og hafa þau samofin allri starfsemi. Í því felst enn fremur að þótt horft sé sérstaklega til jafnréttis kynjanna þá sé jafnrétti allra einstaklinga (óháð kyni, litarhætti, kynhvöt, trúarbrögðum eða atgervi) haft í huga við alla stefnumótun og ákvarðanatöku.

Eftir Hólmfríði Garðarsdóttur

Höfundur er háskólakennari og situr í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar.