"Auðvitað eru öll lögin frábær," segir í umsögn um eina af tónleikum Sir Pauls McCartneys sem voru liður í umfangsmikilli Evrópureisu.
"Auðvitað eru öll lögin frábær," segir í umsögn um eina af tónleikum Sir Pauls McCartneys sem voru liður í umfangsmikilli Evrópureisu.
Tónleikar með Paul McCartney föstudagskvöldið 28. mars. Með honum á sviðinu voru Rusty Anderson gítarleikari, Brian Ray gítar- og bassaleikari, Paul "Wix" Wickens hljómborðsleikari og Abe Laboriel jr. trommuleikari. Tónleikarnir voru haldnir í Palau Sant Jordi-íþróttahöllinni, við hlið Ólympíuleikvangsins í Barcelona, að viðstöddum yfir 20.000 áhorfendum.
ÞAÐ VAR eins og Paul McCartney hefði aldrei komið til Íslands, þegar hann stóð á sviðinu í Ólympíuhöllinni í Barcelona fyrir rúmri viku. Það var eins og hann hefði alls ekki hlaupið út um bakdyr Perlunnar, út í bílaleigujeppann, brunað af stað og beygt af hringtorginu á móti umferð niður í Suðurhlíð. Þessi atvik voru ómur fortíðar; löngu liðin og sveipuð hulu óminnis.

En þarna var ég semsagt staddur, á 24. bekk, blaðamaðurinn sem tæpum þremur árum áður hafði orðið vitni að þessum atburðum, maðurinn sem alla tíð hafði haft sérstakt dálæti á Paul McCartney og hæfileikum hans. Cartney kallaði ég hann.

Reyndar væri réttast að kalla manninn Kraftney, því krafturinn í honum er með ólíkindum. Hann er ekkert að hlífa raddböndunum. Nei, hann gefur sig allan í sönginn eins og hann fengi borgað fyrir það. Kannski fær hann borgað fyrir það.

Allt í kringum mig eru Spánverjar. Kannski er það bara eðlilegt. Við hlið mér situr listmálari. Völlur á karlinum. Hann er hrumur að sjá, minnir óneitanlega á Picasso, en sennilega er hann ekki mikið eldri en Cartney. Hinum megin við listmálarann er ung eiginkona hans. Ég ímynda mér að hún sé hjákona listmálarans. Hann er ekki við eina fjölina felldur, listmálarinn.

Listmálarinn er ugglaust maníu-depressívur. Hann tekur æðisköst og málar þá eins og óður maður. Trönurnar hafa ekki undan. Þess á milli fellur hann í hyldýpi þunglyndis og leitar þá gjarnan huggunar hjá einni af tólf hjákonum sínum. Hann er Spánverji í húð og hár.

Fjörutíu mínútum eftir auglýst upphaf hefst byrjunaratriðið. Furðuverur ráfa um salinn; sumar með regnhlífar í frönskum endurreisnarkjólum, aðrar eins og sýningarfólk í fjölleikahúsi um þarsíðustu aldamót. Á meðan hljómar tónverk af bandi.

Atriðið er reyndar ívið of langt, en loksins, að stundarfjórðungi liðnum, birtist skuggamynd af Cartney með gamla Hofner-bassann sinn á skermi á sviðinu. Allt verður vitlaust í salnum. You say yes, I say no, You say stop and I say go go go ... "Hello Goodbye" er ágætis byrjunarlag. Hljómsveitin er þétt, en hljómurinn ekki nógu góður. Söngurinn rifnar í hátölurunum. En hvað um það.

Næsta lag er "Jet", af plötunni Band on the Run, einni vinsælustu plötu Wings. Jet - I can almost remember their funny faces ... Stemmningin er góð. Adrenalínið flæðir um salinn. Spánverjar eru æstir og hæstánægðir.

Mér til mikillar furðu er listmálarinn sofnaður. Hvaða hvatir liggja þarna að baki? Hvaða maður kaupir dýran miða fyrir sig og ástkonu sína á tónleika með frægasta tónlistarmanni heims og sofnar í öðru lagi? Svar: Listmálarinn. Hann hrýtur ofan í bringu.

Mér er nokk sama. Listmálarinn má sofa svefninum langa mín vegna (þá er ég að tala um níu tíma svefn). "The show must go on." Cartney virðist ekki taka eftir listmálaranum. Að minnsta kosti lætur hann sem ekkert sé.

Þessi hljómsveit Cartneys er að mörgu leyti frábrugðin fyrri hljómsveitum hans. Abe Laboriel jr. trommuleikari er hreint út sagt stórkostlegur. Hann er mikill að burðum og það er engu líkara en hann sé að refsa trommusettinu fyrir óþægð. Hamagangurinn virðist frantískur, en samt er hann nákvæmari en atómklukka.

Á hljómborðinu er Paul "Wix" Wickens, sem er eini hljómsveitarmaðurinn sem hafði spilað með Paul fyrir þessa tónleikaferð. Hann er frábær hljómborðsleikari og græjurnar hans geta líkt eftir hvaða hljóði og hvaða hljóðfæri sem er.

Gítarleikararnir eru tveir. Rusty Anderson tekur flest gítarsólóin. Hann er greinilega náttúrubarn í tónlist og virðist eiga afar auðvelt með að herma nákvæmlega eftir gítarleiknum í frumútgáfum laganna. Brian Ray er ekki síðri gítarleikari, en að auki spilar hann á bassann þegar Cartney bregður sér á gítar, hljómborð eða píanó.

Þessir menn hafa greinilega ofboðslega gaman af því sem þeir eru að gera. Þeir líta á sig sem lukkunnar pamfíla, að fá að spila þessi lög með einum fremsta lagasmiði sögunnar. Spilamennskan hjá þeim er tæknilega fullkomin, en um leið mátulega kæruleysisleg og gríðarlega kraftmikil, líkt og hjá The Beatles í gamla daga. Þetta hugarfar smellpassar við lögin og virðist hafa smitað Cartney sjálfan.

Hljómsveitin þéttist þegar á tónleikana líður. Hvert snilldarlagið rekur annað: "All My Loving", "Getting Better", "Coming Up", "Let Me Roll It", "Lonely Road", "Driving Rain" og "Your Loving Flame". Þvílíkur fjöldi laga sem maðurinn hefur úr að velja! Krafturinn í sveitinni eykst með hverju lagi. "Coming Up", sem var á hinni lítt þekktu McCartney II frá árinu 1980, lukkast með eindæmum vel. Frábært lag.

Þrjú síðastnefndu lögin voru á nýjustu plötu Cartneys frá 2001, Driving Rain, þar sem hann sýndi gamalkunna takta og sköpunargleði sem er sjaldgæf hjá sextugum manni.

Hinum megin við mig, semsagt ekki listmálaramegin, situr bróðir minn. Í lok lagsins "Driving Rain" stendur hann upp og yfirgefur sæti sitt. Af einhverjum völdum kemur þá fát á listmálarann. Hann iðar í sætinu og gerir sig líklegan til að slá hönd sinni á lær mér. Ég veit ekki hvaðan á mig stendur veðrið. Sem betur fer hættir hinn skapheiti meistari strigans við að káfa á sessunauti sínum og sofnar aftur innan skamms.

Auðvitað eru öll lögin frábær, þótt maður sakni nokkurra. Um miðbikið, á eftir "Your Loving Flame" stendur Cartney einn eftir á sviðinu með kassagítarinn. "Blackbird", "Every Night", "We Can Work It Out", "You Never Give Me Your Money/Carry That Weight", "Fool On The Hill", "Here Today" og "Something". "Here Today" tileinkar hann auðvitað Lennon vini sínum, en lagið var á plötunni Tug of War, sem kom út 1982. "Something" er eina lagið á dagskránni sem er ekki eftir Cartney sjálfan, en það spilar hann til heiðurs nýgengnum félaga sínum, George Harrison.

Þá kemur hljómsveitin inn á sviðið, en beitir ekki rafmagnshljóðfærum í næstu lögum: "Eleanor Rigby", "Michelle", "Calico Skies" og "Here, There, and Everywhere". Cartney er fagnað meira eftir þessi lög en eftir rokklögin, þar sem rafmagnshljóðfæri og trommur eru á útopnu.

Áfram heldur fjörið: "Band On The Run", "Back In The USSR", "Maybe I'm Amazed", "Let Em In, My Love", She's Leaving Home", "Can't Buy Me Love", "Birthday", "Live and Let Die", "Let It Be", "Hey Jude". Hápunktur tónleikanna er frábær flutningur á "She's Leaving Home", sem hann hafði aldrei flutt opinberlega fyrr en í París þremur dögum fyrr. Rusty leikur listilega á klassískan gítar í stað hörpuleiksins. Hann hlýtur að hafa eytt mörgum klukkustundum í að ná því. Snilldarlega gert.

Listmálarinn er mestmegnis sofandi, þótt það sé óskiljanlegt hvernig hægt er að sofa í þessum drunum og hávaða. Stundum rís hann þó upp úr öskustónni og klappar af sinni alkunnu maníu. Ástkonan er samkvæmari sjálfri sér. Hún heldur fullri meðvitund og er vel með á nótunum.

Auðvitað tekur Cartney aukalög. Reyndar er hann klappaður þrisvar upp. Spánverjar rísa úr sætum af hrifningu. Listmálarinn situr, sofandi.

Ívar Páll Jónsson