* JÓHANNES Karl Guðjónsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, kemur inn í leikmannahóp Aston Villa á nýjan leik þegar Villa tekur á móti meisturum Arsenal á Villa Park í dag. Jóhannes hefur ekki verið með í síðustu leikjum Aston Villa .
* JÓHANNES Karl Guðjónsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, kemur inn í leikmannahóp Aston Villa á nýjan leik þegar Villa tekur á móti meisturum Arsenal á Villa Park í dag. Jóhannes hefur ekki verið með í síðustu leikjum Aston Villa . Hann tók út leikbann í leiknum við Southampton og meiðsli á ökkla komu í veg fyrir að hann gæti leikið á móti Manchester United .

* GUÐNI Bergsson verður á sínum stað í vörn Bolton þegar liðið mætir Manchester City á hádegi í dag. Guðni og félagar þurfa nauðsynlega á öllum stigunum að halda enda Bolton í bullandi fallbaráttu.

* EIÐUR Smári Guðjohnsen gæti misst af leik Chelsea á móti Sunderland en hann varð fyrir meiðslum á nára í landsleiknum á móti Skotum um síðustu helgi og hefur verið í stöðugri meðferð síðan.

* ARSENAL verður án fjögurra fastamanna í leiknum við Aston Villa en David Seaman , Robert Pires , Giovanni Van Bronckhorst og Martin Keown eru allir frá vegna meiðsla. Arsene Wenger , stjóri Arsenal , er þó óhræddur og segist hafa öflugan mannskap og góða leikmenn sem geti fyllst í skörðin. Leikur Aston Villa og Arsenal verður í beinni útsendingu á Stöð 2 klukkan 14 í dag.

* ALEX Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, vonast til að geta valið fyrirliðann Roy Keane og Sebastian Veron inn í hóp sinn á nýjan leik fyrir leikinn á móti Liverpool á Old Trafford í dag en þeir hafa verið frá vegna meiðsla undanfarnar vikur.

*MICHAEL Owen er hins vegar mjög tæpur í liði Liverpool en hann meiddist á baki í leiknum við Tyrki á miðvikudagskvöldið. Leikurinn á Old Trafford hefst klukkan 11.30 og verður í beinni útsendingu á Sýn.

* LIVERPOOL hefur haft gott tak á United í gegnum árin þrátt fyrir að Manchester United hafi unnið fyrri leikinn á Anfield, 2:0, þar sem Diego Forlan skoraði bæði mörkin. Í tveimur síðustu heimsóknum á Old Trafford hefur Liverpool farið með sigur af hólmi og í síðasta mánuði hafði Liverpool betur í úrslitaleik liðanna í deildarbikarkeppninni í Cardiff.

* NEWCASTLE sem er í baráttunni við Arsenal og Manchester United um meistaratitilinn á erfiðan leik fyrir höndum á morgun en þá mætir liðið Everton á Goodison Park. Gary Speed og Craig Bellamy eru tæpir í liði Newcastle sökum meiðsla en hjá Everton er ástand manna gott.

*LEIKNI frá Fáskrúðsfirði hefur verið úrskurðaður sigur, 3:0, á KS frá Siglufirði í deildabikar KSÍ. KS vann leikinn, 1:0, en tefldi fram ólöglegum leikmanni, Bjarka Má Flosasyni, sem einmitt skoraði eina mark leiksins.