Eyjólfur Sverrisson
Eyjólfur Sverrisson
EYJÓLFUR Sverrisson er byrjaður á æfa á nýjan leik með Herthu Berlín, en meiðsli í hásin hafa verið að angra hann undanfarnar vikur.
EYJÓLFUR Sverrisson er byrjaður á æfa á nýjan leik með Herthu Berlín, en meiðsli í hásin hafa verið að angra hann undanfarnar vikur. Eyjólfur sagði í samtali við Morgunblaðið að meiðslin hefðu komið í veg fyrir að hann gaf kost á sér í landsliðið en Atli Eðvaldsson landsliðsþjálfari fór þess á leit við Eyjólf að fá hann til liðs við landsliðið á nýjan leik fyrir leikinn á móti Skotum.

Eyjólfur er sem kunnugt er á heimleið í sumar. Enn sem komið er hefur hann ekki tekið ákvörðun hvort hann leiki hér heima í sumar en Eyjólfur hefur aldrei leikið í efstu deild, enda fór hann ungur í atvinnumennsku frá Tindastóli á Sauðárkróki. Helst hefur verið rætt um að hann gangi í raðir Fylkis en þá hefur Grindavík einnig verið nefnt til sögunnar en bæði þessi lið reyndu að fá Eyjólf til liðs við sig í fyrra áður en hann ákvað að taka eitt ár til viðbótar með Herthu Berlin.

"Fyrst af öllu þarf ég að koma mér aftur í form. Ég hef misst mikið úr vegna meiðslanna og er ekki í sem bestu formi um þessar mundir. Síðan þarf ég að gera það upp við mig hvort ég yfirhöfuð ætli að spila heima," sagði Eyjólfur. Spurður hvort Fylkir yrði fyrir valinu hjá honum ef ákvörðun hans verður sú að spila í úrvalsdeildinni í sumar sagði Eyjólfur ekkert vera ákveðið í þeim efnum. "Ég er ansi rólegur yfir þessu öllu saman en það kemur að því að ég tek af skarið. Það fyrsta sem ég þarf að ákveða er hvort ég ætla að halda áfram að spila og síðan kemur í framhaldinu með hvaða liði," sagði Eyjólfur sem ekki verður í leikmannahópi Herthu Berlín á morgun þegar liðið sækir Leverkusen heim.