SELKÓRINN á Seltjarnarnesi heldur tónleika í Seltjarnarneskirkju næstkomandi sunnudags- og mánudagskvöld og flytur þá tónlist eftir Antonin Dvorák, en þetta er stærsta verk kórsins í 35 ára sögu hans, að sögn Jóns Karls Einarssonar, stjórnanda kórsins.
SELKÓRINN á Seltjarnarnesi heldur tónleika í Seltjarnarneskirkju næstkomandi sunnudags- og mánudagskvöld og flytur þá tónlist eftir Antonin Dvorák, en þetta er stærsta verk kórsins í 35 ára sögu hans, að sögn Jóns Karls Einarssonar, stjórnanda kórsins.

Söngkonurnar Ingibjörg Guðjónsdóttir og Ingveldur Ýr Jónsdóttir með Peter Maté píanóleikara sér til fulltingis flytja nokkra Moravíska dúetta op. 32. í upphafi tónleikanna. Á síðari hluta þeirra flytur Selkórinn messu í D-dúr op. 86 fyrir blandaðan kór og orgel. "Þetta er stærsta verkið, sem kórinn hefur ráðist í, en það tekur um 45 mínútur í flutningi," segir Jón Karl, en tónleikarnir hefjast klukkan 20.30 bæði kvöldin.

Verkið samdi Dvorák 1887 að beiðni arkitektsins Jósefs Hlávka, stofnanda Tékknesku vísinda- og listaakademíunnar, í tilefni vígslu nýrrar kapellu í landi arkitektsins. Að sögn Jóns Karls er messan látlaus í uppbyggingu án þess að nokkurs staðar sé slegið af listrænum eða skáldlegum kröfum. Seinna gerði Dvorák fáeinar breytingar á verkinu er hann skrifaði orgelpartinn út fyrir hljómsveit, en þannig var verkið fyrst gefið út og er oftast flutt í þeirri útgáfu.

Í Selkórnum eru nú 45 manns, sem hafa notið raddþjálfunar Matthildar Matthíasdóttur söngkonu undanfarin misseri og segir Jón Karl að starf hennar sé ómetanlegt.