ÁKALL Saddams Husseins, forseta Íraks, í gær til þjóðar sinnar að verjast sókn Breta og Bandaríkjamanna bendir til að ráðamenn í Bagdad haldi enn fast við þau áform að berjast til síðasta manns.
ÁKALL Saddams Husseins, forseta Íraks, í gær til þjóðar sinnar að verjast sókn Breta og Bandaríkjamanna bendir til að ráðamenn í Bagdad haldi enn fast við þau áform að berjast til síðasta manns. Nú þegar bandamenn eru komnir að borgarmörkum Bagdad bendir því margt til að harður bardagi sé framundan um yfirráð yfir borginni, sem líklegur yrði til að kosta fjölda manns lífið; bæði óbreytta borgara og hermenn.

Richard Myers, forseti bandaríska herráðsins, gaf að vísu til kynna í fyrrakvöld að bandamenn kynnu að freista þess frekar að einangra stjórnina í Bagdad um leið og herlið héldi inn í hverfi shíta í borginni og treysti tök sín annars staðar í landinu.

Gaf Myers til kynna að bandamenn hefðu ekki hugsað sér að sitja um Bagdad. Frekar virtist hann hafa í huga að stjórn Saddams yrði einangruð þannig að hún hefði engin tök á samfélaginu.

Tæknilegir yfirburðir þýðingarlitlir í borgarhernaði

Reynsla sögunnar kennir, að tæknilegir yfirburðir annars aðilans í stríði verður þýðingarlítill í borgarhernaði. Þótt vopnatækni hafi fleygt fram frá því í orrustunni um Stalíngrad fyrir 60 árum segja hernaðarsérfræðingar að eftir sem áður gildi sömu lögmál um slíkan hernað.

Dæmi um borgarhernað sem Bandaríkjamönnum er hugstætt er orrustan um borgina Hue í Víetnam árið 1968. Þá stóðu bandarískir landgönguliðar í mánaðarlöngum bardaga, hús úr húsi, í því skyni að flæma norður-víetnamska hermenn á brott. Mikið mannfall varð í liði Bandaríkjamanna og stór hluti alls húsnæðis í borginni var eyðilagður. Hrakfarir bandarísku hermannanna sem á árinu 1993 voru sendir til Mogadishu í Sómalíu til að vernda friðargæzluliða eru líka ógleymdar, en þar sannaðist enn og aftur hvernig skæruliðar geta með gamaldags léttvopnum gert hátækniútbúnum hermönnum alvarlega skráveifu.