NEYTENDASAMTÖKIN og Samiðn hafa tekið höndum saman um framkvæmd verðkannana hér heima og utan landsteinanna. Ástæðan er mikil umræða um hátt verð á matvælum hérlendis, að því er segir í frétt á heimasíðu Neytendasamtakanna.
NEYTENDASAMTÖKIN og Samiðn hafa tekið höndum saman um framkvæmd verðkannana hér heima og utan landsteinanna. Ástæðan er mikil umræða um hátt verð á matvælum hérlendis, að því er segir í frétt á heimasíðu Neytendasamtakanna. Er hugmyndin sú að birta reglulega verðsamanburð milli Íslands og nágrannalandanna. Fyrsta könnunin náði til mjólkurvöru, enda er hún stór hluti af matvælakaupum heimilisins.

"Við munum ekki bara kanna verð á matvörum, heldur einnig á sérvörum og þjónustu, þannig að engin atvinnugrein er óhult í þessu sambandi," segja Neytendasamtökin.

"Könnunin var gerð í sambærilegum verslunum í öllum löndunum en athygli er vakin á, að hún var ekki gerð í svonefndum lágvöruverðsverslunum og því er ekki um að ræða lægsta verð sem neytendum stendur til boða.

Verð var kannað í tveimur verslunum í Reykjavík, tveimur í Brussel, einni í Kaupmannahöfn og einni í Stokkhólmi. Þar sem verð var skráð í fleiri en einni verslun í sömu borg var lægra verðið birt í könnuninni. Ef til voru fleiri en tvær vörur af sömu tegund var lægsta verðið tekið."

Virðisaukaskattur á matvörum er mismunandi í þessum fjórum löndum. Lægstur er skatturinn í Belgíu eða 6%, 12% í Stokkhólmi og 14% á Íslandi. Hæstur er hann í Danmörku eða 25%.

Ef virðisaukaskattur er tekinn frá var hæsta verðið að finna í Reykjavík í 13 tilvikum en í Brussel í fimm tilvikum, segir ennfremur.

Innfluttur ostur ódýrastur

"Aðeins í tveimur tilvikum var hæsta verð í Kaupmannahöfn, en Stokkhólmur stendur upp úr, án hæsta verðs. Lægsta verðið var oftast í Stokkhólmi eða í átta tilvikum, í sex tilvikum í Brussel og í Kaupmannahöfn og í Reykjavík aðeins í tveimur tilvikum. Mesti munur á verði var á hvítmygluosti, en verð í Reykjavík var 295,3% hærra en í Brussel. Í Reykjavík kostuðu 200 g af slíkum osti 293 krónur, en aðeins 74 krónur í Brussel. Næstmesti munur var á blámygluosti, en verð í Reykjavík var 202,7% hærra en í Kaupmannahöfn. Í Reykjavík kostuðu 200 g af slíkum osti 330 krónur, en aðeins 109 krónur í Kaupmannahöfn. Það skondna við þetta er að ódýrasti blámygluosturinn hér var innfluttur danskur Høng-ostur, að tollum og kaupum á kvótum meðtöldum," segja Neytendasamtökin.

Nýmjólkurvörur eru sýnu dýrari hér en hjá nágrönnum okkar, segir ennfremur í niðurstöðum könnunarinnar. "Þannig kosta þessar vörur hér um eða yfir 60% meira miðað við lægsta verð í könnuninni. Miklu munar á verði á 26% skorpulausum Gouda-ostum eða 132,4%. Hér kostar kílóið 843 kr. en 363 krónur í Stokkhólmi. Minni verðmunur, eða 74,4% er á bragðsterkum skorpuosti. Verðmunur á jógúrt getur verið æðimikill. Þannig kostar jógúrt í 500 g pappaumbúðum 118 krónur hér en 54 krónur í Kaupmannahöfn og er hún því 119,4% dýrari hér. Þess ber að geta að verðið á jógúrtinu í Kaupmannahöfn er miðað við eins lítra umbúðir og umreiknað yfir í 500 g. En því miður stendur okkur ekki hér til boða ódýrasta pakkningin. Mikill munur er einnig á verði á jógúrti án bragðefna. Hér kosta 500 g 163 krónur, eða 213% meira en í Brussel, þar sem sama magn kostar 52 krónur," segir á heimasíðu Neytendasamtakanna.

Verðkönnunin var gerð 4. febrúar í Reykjavík og Kaupmannahöfn en 5. febrúar í Stokkhólmi og Brussel.

Sjá ennfremur: www.ns.is.