Hagnaður Granda á síðasta ári var helmingi meiri en hagnaður félagsins hefur áður verið, sagði Árni Vilhjálmsson, stjórnarformaður  og starfandi framkvæmdastjóri Granda, á aðalfundi félagsins í gær.
Hagnaður Granda á síðasta ári var helmingi meiri en hagnaður félagsins hefur áður verið, sagði Árni Vilhjálmsson, stjórnarformaður og starfandi framkvæmdastjóri Granda, á aðalfundi félagsins í gær.
VEGNA aukinnar úthlutunar á úthafskarfa fyrir yfirstandandi ár er útlit fyrir að Grandi verði ekki eins háður öðrum með veiðiheimildir hér við land og áður.
VEGNA aukinnar úthlutunar á úthafskarfa fyrir yfirstandandi ár er útlit fyrir að Grandi verði ekki eins háður öðrum með veiðiheimildir hér við land og áður. Ákveðið hefur verið að ísfisksskipunum verði ekki lagt í sumar og stefnt að því að halda uppi fullri vinnslu í Norðurgarði, sem er sérhæfður í vinnslu karfa og ufsa, í sumar. Þetta kom fram í ræðu Árna Vilhjálmssonar, stjórnarformanns og starfandi framkvæmdastjóra Granda, á aðalfundi félagsins í gær.

Hagnaður Granda á síðasta ári nam 1.814 milljónum króna sem er meira en helmingi hærri tala en sú sem hæst hefur sést í rekstrarreikningi Granda.

Meirihluti starfsfólks í frystingu af erlendum uppruna

Að sögn Árna fór togarinn Venus í þrjár ferðir í Barentshafið og náði að veiða 1.753 tonn af þorski og 105 tonn af meðafla utan kvóta, aðallega ýsu, fyrir samtals 363 milljónir króna. "Með því að beita Venusi á þennan hátt var hinum frystitogurunum skapað meira rými/veiðimöguleika í íslenskri lögsögu. Þetta úthald Venusar kom sæmilega út fjárhagslega, en ekki meira en svo. Á það er að líta að af heildaraflanum voru ekki nema 310 tonn af þorski sem Granda hafði verið úthlutað. Hinar heimildirnar voru fengnar með því að leigja kvóta margra annarra íslenskra útgerða, sem hver um sig hafði ekki fengið nægilegan kvóta að dygði fyrir einni veiðiferð. Fyrir kvótann sem við leigðum, 1.446 tonn, þurfti að greiða 75 krónur á kg. Það gerði samtals 108,5 milljónir króna og nam 29,9% af heildaraflaverðmæti," sagði Árni.

Hann segir að fólk af erlendum uppruna sé nú komið í meirihluta meðal starfsmanna í frystihúsi Granda, um 60% að meðaltali á árinu. Árni segir að mikill fengur sé að þessu starfsfólki og ekki sýnt hvernig tekist hafi til við að manna stöður þeirra ella með viðunandi hætti.

Síðastliðið haust sleit Grandi tengsl við fyrirtækið Isla ehf., sem stóð að starfsemi í Mexíkó, með sölu á sýndarverði og greiðslu ábyrgðar vegna skulda þess. Að sögn Árna hafði Isla verið dragbítur á Granda í nokkur undanfarin ár. Sem hlutdeildarfélag olli Isla Granda 93 milljóna króna tapi á árinu 2002.

Grandi á 31% hlut í Stofnfiski en þar er unnið að rannsóknum sem varða kynbætur á laxi, regnbogasilungi, bleikju og sæeyrum og við framleiðslu á hrognum sem að mestu leyti eru flutt út. "Sýnt er að Stofnfiskur mun gegna lykilhlutverki í rannsóknum sem verða undanfari framþróunar í þorskeldi. Með þátttöku Granda í þessu fyrirtæki og öflugum stuðningi við það er Grandi í rauninni virkur þátttakandi í nýsköpunarstarfi þar sem ráðdeild og hyggindi ráða ferðinni," að sögn Árna.

Áhrif þorskeldis á verð á veiðiheimildum

Fram kom í máli Árna að Grandi, sem og allir aðrir útgerðaraðilar hér á landi, hljóti að hugleiða hvaða árangur muni geta náðst í þorskeldi á næstu árum. "Spurning vaknar um hvaða áhrif hugsanlegir ávinningar í aðferðum við þorskeldi muni hafa á verð á veiðiheimildum, sérstaklega á villtum þorski, og þá um leið á fjárhæð þeirrar auðlindarrentu sem sumum er svo mikið kappsmál að heimta úr greipum útgerðarmanna. Verð á þorskafurðum og reyndar á afurðum fleiri fisktegunda, ekki síst ýsu, virðist vera afar viðkvæmt fyrir "truflunum" á framboði. En svo virðist sem aðrir, einna helst Norðmenn, séu komnir lengra en Íslendingar í undirbúningi að þorskeldi og verði þá fyrri til en við sjálfir til að skerða verðmæti auðlindarinnar," að sögn stjórnarformanns Granda.

Áætlun um rekstur Granda á yfirstandandi ári gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður af eigin starfsemi, þ.e.a.s. hagnaður fyrir frádrátt fjármagnsgjalda og fyrir tekjur af eignarhlutum verði tæplega 670 milljónir króna, sem gerir tæp 13% af rekstrartekjum. Á síðasta ári nam þessi hagnaður 960 milljónum króna, eða rúmum 16% af rekstrartekjum. Árni segir að afkoma landvinnslu Granda sé orðin nokkuð tæp. "Vegna gengisbreytinga sem þegar hafa orðið frá síðustu áramótum er gengishagnaður af erlendum langtímaskuldum þegar orðinn hærri heldur en áætluð vaxtagjöld fyrir allt árið," sagði Árni.

Samþykkt var á fundinum að fækka stjórnarmönnum úr 7 í 5 og að kjörinn skyldi einn varamaður en áður var enginn varamaður í stjórn. Í stjórn voru kosnir: Árni Vilhjálmsson, Bragi Hannesson, Grétar Br. Kristjánsson, Kristján Loftsson og Þorsteinn Vilhelmsson. Halldór Teitsson var kjörinn varamaður. Úr stjórn fóru Ágúst Einarsson, eftir rúmlega 12 ára stjórnarsetu og Einar Sveinsson.

Árni Vilhjálmsson hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra frá því að Brynjólfur Bjarnason lét af störfum í lok júní á síðasta ári. Í ræðu Árna kom fram að þessi ákvörðun stjórnar hefði byggst á því að ekki færi vel að ráða nýjan framkvæmdastjóra þegar líkur væru taldar á að innan skamms yrði gengið til sameiningar við annað fyrirtæki sem gæti lagt til hæfan leiðtoga. "Staðreyndin er nú sú að þessar væntingar hafa ekki enn orðið að veruleika og ég sit sem fastast," sagði Árni, starfandi framkvæmdastjóri Granda.

Á aðalfundinum var samþykkt að greiða hluthöfum arð sem nemur 15% af nafnverði hlutafjár. Fjárhæð arðsins er því 222 milljónir króna.