Katrín Hulda Tómasdóttir fæddist í Reykjavík 10. júlí 1917. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 19. mars síðastliðinn og fór bálför hennar fram í kyrrþey fimmtudaginn 27. mars.

Hún amma mín sagði að gerðir manns í annars garð væru meira virði í lifanda lífi. Engu að síður ætla ég að skrifa til hennar fáeinar línur, þótt mér sé margt betur til lista lagt en að stinga niður penna. Það dýrmætasta sem hún amma mín gaf mér var fang sitt en hjá henni og afa fékk ég að alast upp.

Hún leit á mig sem sitt fimmta barn og alltaf þegar á móti blés var hún til staðar fyrir mig. Hún reyndi alltaf að líta á björtu hliðarnar og að gera líf annarra auðveldara. Hún hugsaði meira um aðra en sig sjálfa og það þótti mér stundum miður. Ég man að ekki var alltaf til nóg af peningum en samt var alltaf nóg til af öllu hjá henni ömmu. Þau ár sem ég bjó hjá henni voru bestu ár ævi minnar - það var ekki til sá hlutur í þessum heimi sem hún vildi ekki gera fyrir mig og fyrir mér var hún allt. Ég fæ henni aldrei þakkað nóg allt það sem hún gerði fyrir mig og son minn, hann Guðmund Hilmar.

Þegar lífshlaup hennar var að lokum komið og ljóst hvert stefndi heimsótti ég hana. Hún var eins og ævinlega þrjósk og ekki tilbúin að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Hún trúði því að allt væri hægt ef viljinn væri fyrir hendi. Hún kenndi mér það ásamt flestu því sem gert hefur mér gott. Þegar ég skrifa þetta klökkna ég. Ég sakna faðmsins hennar ömmu.

Tómas Ragnarsson.