Páll S. Árdal fæddist á Akureyri 27. júní 1924. Foreldrar hans voru Steinþór Árdal, sonur Páls Jónssonar Árdals skálds og kennara og Álfheiðar Eyjólfsdóttur, og Hallfríður Hannesdóttir Árdal, dóttir Hannesar Jónassonar bóksala og Kristínar Bjargar Þorsteinsdóttur. Þau hjón fluttust til Siglufjarðar með Pál barnungan.

Árið 1946 kvæntist Páll Hörpu Ásgrímsdóttur, dóttur Ásgríms Péturssonar fiskmatsmanns á Akureyri og Maríu Guðmundsdóttur. Börn þeirra eru: Hallfríður, félagsráðgjafi, María leikkona og leikstjóri, Steinþór forstjóri hjá Upplýsingastofnun heilbrigðismála og Grímur kvikmyndamaður. Barnabörnin eru átta talsins.

Páll lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1944, efstur í sínum árgangi. Hann kenndi við M.A. veturinn 1944-45, en hélt þá til náms við háskólann í Edinborg haustið 1945. Hann lauk venjulegu MA-prófi 1949 í heimspeki og latínu, Honours-prófi í heimspeki frá sama skóla 1953 og doktorsprófi í heimspeki þaðan 1961 fyrir verkið Passion and Value in Hume's Treatise.

Hann gerði hlé á námi sínu 1949-51 og gerðist kennari við M.A. en hafði auk þess með höndum eftirlit á heimavist. Hann var aðstoðarfyrirlesari í heimspeki við Edinborgarháskóla 1955 til 1958 og fyrirlesari 1958-69. Hann var gistiprófessor við Dartmouth College í New Hampshire í Bandaríkjunum á síðara misseri 1963 og aftur 1971, og við University of Toronto á síðara misseri 1966. 1. júlí 1969 var Páll svo skipaður prófessor í heimspeki við Queen's University í Kingston í Ontario og gegndi því embætti til starfsloka. Hann var útnefndur Charlton-prófessor við skólann 1981, sem er mikill heiður. Hann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands 1991.

Páll var meðlimur í ýmsum samtökum, eins og The Hume Society, The Canadian Philosophical Association o.fl. og hann var forseti Kingstondeildar Parkinsonsamtaka Kanada.

Ritstörf Páls voru mikil að vöxtum og gæðum og vísast um þau til Æviskráa M.A. stúdenta. Hann var heimsþekktur sérfræðingur um verk skozka heimspekingsins Davids Hume.

Minningarathöfn um Pál fer fram í Queen's University í Kingston í dag.

Fyrir um 60 árum höguðu örlögin því svo, að við Páll S. Árdal urðum sessunautar, er við settumst í 5. bekk máladeildar í Menntaskólanum á Akureyri og hélzt sú skipan allt til stúdentsprófs, enda sat bekkurinn síðustu tvo veturna á hátíðasal, sem var eina stofan í húsinu, er rúmaði svo stóra bekksögn, eins og Sigurður skólameistari orðaði það. Þessi bekksögn, svo og stærðfræðideildarögnin, hafa reynzt samheldnar og skemmtanafúsar í betra lagi og ávallt glaðzt yfir velgengni og veitt stuðning í mótlæti.

Undir vor 1944 komumst við Páll að því, að hugur beggja stóð til háskólanáms í Bretlandi og fórum við þá saman til Arthurs Gook, trúboða og konsúls Breta á Akureyri, til að afla okkur upplýsinga. Hann vísaði okkur til Cyrils Jackson, gamals kennara við M.A. og fulltrúa British Council, sem góðfúslega tók við umsóknum okkar og sagðist mundu sjá um málið. Leið nú fram á sumarið, en þá hringdi Jackson til okkar og tjáði okkur, að vegna yfirvofandi innrásar bandamanna á meginland Evrópu yrðu engir erlendir stúdentar teknir inn í brezka háskóla haustið 1944. Við báðum hann þá um að geyma umsóknirnar til næsta árs, og Páll hóf sinn glæsta kennaraferil sem kennari við M.A. veturinn 1944-45.

Um sumarið hringdi Jackson enn og tjáði okkur, að vegna forgangs fyrrum hermanna (svokallaðra demobs) kæmumst við ekki inn í Oxford eða Cambridge, sem verið höfðu efstir á okkar lista, en við gætum valið á milli Edinborgar, Leeds og Manchester. Við völdum Edinborg og sáum aldrei eftir því.

Erfitt var um ferðalög til Bretlands á þessum tíma, en fyrir velvild góðra manna fengum við að fljóta með á togaranum Drangey, sem áður hét Egill Skallagrímsson, og var á leið til Hull í söluferð. Síðla dags í september hittumst við á togarabryggjunni og sá ég þá Hallfríði móður Páls fyrst en hann síðast, því að hún lézt um veturinn. Þær fréttir voru Páli þungbærar.

Ekki sáum við Páll mikið hvor af öðrum fyrstu dagana um borð, því að við fengum kojur hvora á sínum stað í skipinu og reistum ekki höfuð frá kodda frá því við lögðumst fyrir í Reykjanesröstinni með hávaðarok á móti fallinu og þar til við nálguðumst Pentilinn þremur sólarhringum seinna. Þá ráku skipverjar okkur bókstaflega í matsalinn, því að við höfðum ekkert eftir til að kasta upp. Síðan skemmtum við vaktinni með söng í brúnni suður Norðursjóinn. Næsta sjokk kom, þegar við sigldum inn í dokk í Hull á sunnudagsmorgni og við blasti hin fræga viðurstyggð eyðileggingarinnar. Það stóð varla steinn yfir steini við höfnina eftir loftárásir Þjóðverja.

Til Edinborgar komumst við eftir okkar fyrstu járnbrautarferð og lestaskipti í Doncaster og það þrátt fyrir að innfæddir töluðu allt öðru vísi ensku en við höfðum lært í skóla og þótt nokkuð góðir í.

Mig minnir, að Páll hafi innritazt í latínu og frönsku, en þegar í byrjun þurftu nemendur að taka heimspekikúrs, Natural Philosophy, og þar með var framtíðin ráðin því að heimspekin tók hug hans allan og franskan var látin lönd og leið. Páll hafði alla tíð verið yfirburðanámsmaður, en það bókstaflega hvítfyssaði af honum í heimspeki og þar var hann búinn að finna skarpri og analýtískri hugsun sinni verðugan farveg. Það lék aldrei minnsti vafi á, að frami hans yrði mikill á því sviði, enda dugnaður og eljusemi snarir þættir í skapgerð hans, auk velvildar, glaðværðar og flestra annarra þátta, sem prýða mega góðan dreng.

Árin í Edinborg urðu töluvert fleiri hjá Páli en okkur hinum, sem vorum við nám og störf þar í stríðslokin. Hann varð fyrirlesari við Edinborgarháskóla og kenndi þar til 1969, auk þess sem hann skrifaði doktorsritgerð sína, er nefndist Passion and Value in Hume's Treatise, verk, sem ávann honum mikla frægð. Það er hins vegar stórmerkilegt og kapítuli út af fyrir sig, að allan sinn feril sem prófessor þjáðist Páll af Parkinsonsveiki. Hann lét veikindin aldrei smækka sig. Hann hélt sínu striki af fádæma kjarki. Hann spilaði golf og tennis og squash og gaf aldrei þumlung eftir.

Á meðan Páll og Harpa bjuggu í Edinborg hittumst við oft bæði heima og í Edinborg, þar sem við Katrín nutum gistivináttu og mikillar rausnar, og oft lagðist ég upp á þau, þegar ég sótti Edinborgarhátíð fyrir Alþýðublaðið og keypti fatnað á börnin ung og smá. Fundir strjáluðust að sjálfsögðu, þegar þau fluttust til Kanada, en alltaf voru fagnaðarfundir, þegar þau komu heim. Á stúdentsárunum æfðum við Páll kvartett með Friðriki Þorvaldssyni og Lúðvík Jónssyni. Þótti okkur þetta með beztu kvartettum og slógum í gegn á skemmtun í International House. Og alltaf höfðum við Páll það fyrir sið að syngja Sólsetursljóð í hverjum mannfagnaði, samkvæmt áskorunum að sjálfsögðu. Einu sinni heimsótti ég þau í Kingston og dvaldi hjá þeim í tvær vikur, þegar ég var kominn á eftirlaun. Þá var Parkinsonsveikin búin að leika Pál það illa, að líkamlegar íþróttir voru úr sögunni, en hin andlega íþrótt bridge var þá tekin við. Við fórum fjölmargar ferðir í bridgeklúbb í Kingston og höfðum oftast sigur, enda kunnu báðir því betur að sigra. Við tókum líka þátt í bridgemóti kennara og eiginkvenna í Queen's með góðum árangri. Og ekki lét Páll sig muna um að fylgja mér til að skoða Niagarafossana, þó að um alllangan veg væri að fara.

Og nú er minn gamli, góði vinur allur, saddur lífdaga, því að síðustu árin urðu honum erfið. En "orðstírr deyr aldregi, hveim es sér góðan getr", og ég vil trúa því, að hann hafi alveg fram undir það síðasta lifað samkvæmt öðrum orðum Hávamála "glaðr ok reifr skyli gumna hver, unz sinn bíðr bana."

Ég sendi Hörpu og börnum og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur yfir hafið.

Guðni Guðmundsson.

Páll Steinþórsson Árdal, sem nú er nýlátinn úti í Kanada, var Siglfirðingur að uppruna, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1944 með glæsibrag og las síðar heimspeki og aðrar skyldar greinar við Edinborgarháskóla. Þaðan lauk hann doktorsprófi í fyllingu tímans. Hann varð síðan háskólakennari í heimspeki, fyrst í Edinborg, en síðar prófessor í sömu grein við Queen's háskólann í Kanada. Við þá stofnun var sérstök kennarastaða í heimspeki tengd nafni hans og nefnd "The Páll Árdal Chair in Philosophy".

Páll Árdal skrifaði bækur um fræðigrein sína, og á sama vettvangi birti hann fjöldann allan af ritgerðum. Hann var eftirsóttur fyrirlesari víða um lönd. Orð hans töluð og rituð öfluðu honum orðstírs. Nemendur hans austan hafs og vestan hrósuðu honum fyrir kennslu og andlega umönnun.

Þótt ekki legði ég sjálfur stund á heimspeki svo að nokkru næmi átti ég engu að síður því láni að fagna að fylla flokk nemenda Páls í frönsku og latínu í tvo vetur um miðja síðustu öld. Hann gerði þá hlé á námi í Edinborg og réð sig tímabundið til kennslu við Menntaskólann á Akureyri. Þegar ég hugsa til þessara löngu liðnu menntaskólaára finnst mér að vorkoma væri daglegur viðburður innan veggja og utan í skólanum hvernig svo sem stóð á gangi sólar, eða þá að vorið væri einhvern veginn orðið ríkjandi árstíð þar um slóðir. Skammdegi og vetrarkuldar náðu ekki að festa varanlegar rætur í sálardjúpi eða heila. Skólasystkinum og kennurum má ég ugglaust þakka að minningin geymir að þessu leyti stóraukið hlutfall einnar árstíðar á kostnað hinna enda þótt sjálft náttúrulögmálið leyfi ekki slíka tilfærslu. Kennari okkar Páll Árdal átti hér vissulega hlut að máli. Honum fylgdi hressandi vorblær á fundi alla. Hann var mikill fræðari, vinur nemenda bæði í leik og starfi en þó strangur. Hefði ekki nokkur með fullu viti látið sér detta í hug að fara að bekkjast eitthvað til við hann í kennslustundum. Á þeim stundum sat hann uppi í kennarapúlti á sal geislandi af lífsþrótti með fyrstu bók Hórasar eða eitthvert ámóta hnossgæti og kynnti okkur bókmenningu og listir fornþjóða. Í frímínútum mátti svo búast við að hann væri kominn út á skólatúnið í fótbolta með strákunum. Hann var kappsfullur íþróttamaður eins og gleggst má ráða af frammistöðu hans í leik þeim sem enskir nefna squash en Íslendingar líklega veggjabolta. Á Edinborgarárum sínum varð Páll stórfrægur maður fyrir afrek í þessari íþrótt.

Því miður varð þessi hrausti maður fyrir því áfalli að fá Parkinsonsveikina meðan hann var enn á besta aldri. Um langa hríð hélt hann samt ótrauður áfram rannsóknum og kennslu sem fullheilbrigður væri. Hann skrifaði langt mál og flutti fjölda fyrirlestra um örlög og úrlausnir Parkinsonssjúkra þeim til andlegrar styrkingar. Einnig helgaði hann þeim beint eða óbeint sérstakt leikrit sem CBC útvarps- og sjónvarpsstöðin í Kanada flutti á sínum tíma við lofsamlegar undirtektir. Hann lá hvergi á liði sínu.

Eftir að Páll fluttist til Kanada létum við báðir svo heita að við værum orðnir nágrannar. Leiðin okkar í milli var þó talsvert á fjórða þúsund kílómetra. Sambandi héldum við engu að síður og fundum bar saman annað veifið. Stundum var það á ráðstefnum og fékk ég þá kærkomið tækifæri til að hlusta á Pál flytja fyrirlestur um heimspekileg efni. Hér er hvorki staður né stund til að ræða heimspeki Páls, en þó veit ég að einn höfuðkjarna þeirrar speki má að talsverðu leyti kenna við mannúð og frið. Bendi ég aðeins á skrif hans um refsingar en þau eru sum hver aðgengileg á íslensku. Um leið og mannúðar- og friðarhugtök ber á góma er rétt að minnast þess að í gegnum tíðina hafa Kanadamenn eignast tvo merka heimspekinga af íslenskri ætt, þá Stephan G. Stephansson og Pál S. Árdal. Ólíkir menn aðkomu með ólíkan feril að baki, mætti segja. En kjarninn í báðum sá hinn sami, mætti svo bæta við.

Páll Árdal var frá upphafi vega einlægur stuðningsmaður Háskólans á Akureyri. Þau hjónin, frú Harpa og Páll, gáfu háskólanum bókasafn sitt fyrir nokkrum árum. Um stórgjöf var að ræða sem hér skal þökkuð. Er ég fullviss að í sölum háskólans mun sams konar vorblær ávallt fylgja bókunum og ég sjálfur kynntist þegar fundum okkar Páls bar saman í fyrsta sinn fyrir hálfum sjötta áratug.

Páll Árdal var talinn einhver fremsti vísindamaður samtíðar sinnar í þeirri grein sem kennd eru við skoska heimspekinginn David Hume. Áðurnefnd bókagjöf, sem hefur að geyma fjölda merkra heimspekirita, leiddi meðal annars til þess að fyrir fáeinum vikum var stofnun sett á laggirnar við Háskólann á Akureyri til eflingar þeim fræðum sem Páll Árdal gerði að kjörsviði sínu. Stofnunin er við hann kennd og nefnist á ensku Páll S. Árdal Institute for Hume Studies. Vonir standa til að á komandi tíð verði Háskólinn á Akureyri alþjóðleg miðstöð í Hume-fræðum og að íslenskir og erlendir fræðimenn fái þar kjöraðstöðu til rannsókna.

Við Margrét, sem og gamlir Akureyrarnemendur Páls, sendum frú Hörpu Ásgrímsdóttur Árdal, börnum þeirra hjóna og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur.

Haraldur Bessason.

Skömmu eftir að ég hóf nám í heimspeki varð ég þess áskynja að Íslendingar áttu sér einn fræðimann í greininni sem öðrum mönnum fremur hafði getið sér gott orð erlendis. Maðurinn var Páll S. Árdal. Forlögin höguðu því svo þegar fram í sótti að ég hlaut þau forréttindi að njóta handleiðslu þessa manns er ég hélt til framhaldsnáms í Kanada. Fáum á ég jafn mikið að þakka og Páli, enda sjaldfundnir þeir menn sem hafa jafnmikið að gefa og hann.

Ég sá þess fljótt merki að erfið uppvaxtarár Páls höfðu gert hvorttveggja í senn að hneigja hann til bókar og ala upp í honum sterkt mannúðlegt viðmót. Frá tólfta ári lá hann rúmfastur í meira eða minna tvö ár vegna brjósthimnubólgu. Eftir þá legu var Páll sendur að Kristneshæli en þar var móðir hans sjúklingur fyrir.

Á æskuheimili hans var menntun mikils metin og vafalítið hefur það veganesti veitt honum kjark og þor til að takast á við það örðuga verkefni að brjótast til mennta eftir undangengin veikindi. Að afloknu stúdentsprófi frá M.A. 1944, sem hann lauk með glæsibrag, hélt hann til framhaldsnáms við Edinborgarháskóla ásamt eiginkonu sinni Hörpu Ásgrímsdóttur, en til þessa náms hlaut hann námsstyrk til fjögurra ára. Í upphafi hugðist Páll leggja stund á tungumál, latínu og frönsku, en tók brátt til við heimspekinám, en til þess sagðist hann hafa verið neyddur af illri kvöð í upphafi. Vitnaði Páll oft til þess tiltals sem honum var veitt þegar hann andmælti fánýti þess að ætla nokkrum manni að leggja stund á slíka grein. Segir sú saga býsna margt um víðsýni hans og heimspekilegt upplag að hann skyldi söðla um og láta til leiðast að leggja fyrir sig þá fræðigrein sem honum þótti fánýtust allra í upphafi máls. Eftir stutta dvöl á Íslandi á árunum 1949-1951, en þann tíma kenndi Páll við M.A., hélt hann aftur til náms í Edinborg, að þessu sinni styrktur af sjóði Hannesar Árnasonar prestaskólakennara. Í Edinborg hóf Páll fljótt kennslu með námi og 1958 hlaut hann fasta kennarastöðu við skólann sem hann gegndi fram til ársins 1966 er hann lauk doktorsprófi. Þá hélt hann sem gistiprófessor til Dartmouth College í Bandaríkjunum og síðan Toronto-háskóla í Kanada. Árið 1969 bauðst honum síðan prófessorstaða við Queen's University í Kingston, Ontario í Kanada, þar sem hann bjó ásamt fjölskyldu sinni síðan.

Queen's-háskólinn heiðraði Pál árið 1984 með því að skipa hann Charlton prófessor við heimspekideild skólans en sú staða er heiðurssæti ætlað þeim er mest afrek hefur unnið í heimspeki við skólann. Háskóli Íslands skipaði síðan Pál heiðursdoktor við heimspekideild árið 1991.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna nokkrum orðum heimspekistarf Páls. Með einum eða öðrum hætti snerist fræðimennska hans um skoska heimspekinginn David Hume. En í doktorsverkefni sínu sem síðar var gefið út sem sjálfstætt rit eyddi hann margvíslegum misskilningi er viðtekinn var um heimspeki Humes og benti á nýjar leiðir til skilnings. Í þessu efni má fullyrða að Páli hafi tekist svo rækilega að umbylta hugmyndum manna um heimspeki Humes að við blasti algerlega ný sýn á kenningar hans um sálarfræði og siðfræði. Fyrir þetta framlag hlaut Páll ótvíræða viðurkenningu alþjóðlegs fræðasamfélags siðfræðinga. Það má því með réttu segja að efnismeðferð Páls á verkum Humes hafi orðið til þess að auðga umræðu samtímaheimspekinga um siðfræðileg efni, þar sem hann dregur aftur fram í dagsljósið gleymda og misskilda þætti í sögu eins merkasta heimspekings sögunnar.

Margt í þessum rannsóknum Páls leiddi hann á vit annarra viðfangsefna innan siðfræðinnar án þess að þær komi heimspeki Humes beinlínis við, en grunnskilningur Páls á Hume mótaði afstöðu hans til mikilvægra viðfangsefna innan siðfræðinnar. Helstu dæmi þar um eru viðfangsefni líkt og refsingar, samningar og loforð, en eftir Pál liggur fjöldi greina um þessi viðfangsefni. Þessar grunnhugmyndir ganga sem rauður þráður í gegnum verk hans og birtast lesandanum gjarnan í heillandi, frumlegum og skemmtilegum útfærslum. Sérstaða Páls er sú að hann dró fram viðfangsefni sem alltof sjaldan sjást í samtímaumfjöllun um siðfræði. Þau hafa að jafnan verið af þeim toga sem tekur til þess sem gildi hefur fyrir daglegt líf fólks. Í þessu var Páll samkvæmur sjálfum sér. Ennfremur hafði hann alla tíð að leiðarljósi í skrifum sínum að framsetning hans á efninu væri sem einföldust og skrifuð á máli sem allur almenningur getur skilið. Í þessu var Páll löngum trúr þeirri skoðun sinni að ef menn geti hugsað skýrt um eðli sitt og tilverunnar þá megi bæta tilveru þeirra.

Einn er sá höfuðkostur enn sem ótalinn er í heimspeki Páls. Á það hefur verið bent af fræðimönnum að hann hafi borið á borð fyrir samtíð sína mikilvægt framlag til nútímasiðfræðiumræðu sem fólst í því, að í stað þess að festast í sundurgreiningu einstakra þátta í umræðu þá var sjónarhorn hans ætíð það að draga saman einstaka þætti umræðunnar til samþættingar og lausnar í stað þeirrar spennu sem sundurgreining gjarnan skapar. Í þessu varð Páll merkisberi hugmynda forvera síns og læriföður Davids Humes og bar á þann máta að betur var af stað farið en heima setið.

Páll lét eftir sér hafa að í vissum skilningi ætti heimspeki ekki að vera sérstakt fag, heldur miklu fremur viðhorf eða gagnrýnið sjónarhorn til veruleikans, þar sem menn reyni að mynda sér skynsamlega skoðun á stöðu sinni í veruleikanum. Í persónulegum kynnum mínum af Páli veit ég að hann hefur sjálfur lifað þessi sannindi.

Páli var gefinn sá sjaldgæfi kostur að vera sterkur fyrir í einkalífi í því sem hann boðaði öðrum. Hann kom mér öðru fremur fyrir sjónir sem samkvæmur sjálfum sér og heill. Lyndiseinkunn hans var félagslyndi, góðvild og djúpur samúðarskilningur og hluttekning í örlögum annarra. Það nægir ekki að segja að Páll hafi verið lífsglaður maður í viðkynningu, heldur vildi ég fremur segja að oftar en ekki geislaði af honum hrein og klár kátína hvenær sem við varð komið. Sterk kímnigáfa og jafnlyndi blasti jafnan við og var hann seinþreyttur til vandræða, sem ég markaði af því að hann tók ekki þátt í mislyndi því sem oft vill geisa á vinnustað háskólakennarans. Frekar en taka þátt í slíku hjali þá gekk hann um ganga heimspekideildarinnar í Queen's og söng íslenska ættjarðarsöngva hástöfum. Þær stundir gleymast seint. Fyrir vikið uppskar hann virðingu samstarfsfólks og nemenda, en hina síðarnefndu var hann óþreytandi að vekja til hrifningar fyrir ráðgátum fræða sinna.

Baráttuandi Páls gegn sjúkdómi sínum sýnir í mörgu hvern mann hann hafði að geyma. Þar barðist hann fyrir upplýsingu og skilningi á eðli sjúkdómsins og félagslegum rétti. Hann háði sína einkaorrustu af reisn og tók þátt í íþróttum meðan stætt var.

Það mun alla tíð verða mér minnisstætt að hafa kynnst Páli og Hörpu. Það sem meira er þá varð mér fyrst ljóst, ungum manni, er ég kynntist þeim, að það væri kannski ekki svo slæmt að eldast. Þar upplifði ég lífsgleði og kraft sem sjaldgefinn er og virðingu hjóna fyrir maka sínum. Þannig minnist ég þess er Páll dró mig eitt sinn afsíðis á heimili þeirra hjóna og sýndi mér stoltur gamalt íslenskt auglýsingaskilti fyrir málningu er á stóð eitthvað á þessa leið: Harpa - merkið sem tryggir þér árangur starfs þíns.

Það er þakkarvert að hafa fengið að kynnast slíkum manni.

Kæra Harpa og fjölskylda, við Jakobína og Auður sendum ykkur samúðarkveðju okkar og þökkum Páli samfylgdina.

Jörundur Guðmundsson.