Ingibjörg Þorgeirsdóttir fæddist á Höllustöðum í Reykhólasveit 19. ágúst 1903. Hún lést á Dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum 28. mars sl. Foreldrar hennar voru bændahjónin Kristrún Salbjörg Jóhannsdóttir og Þorgeir Þorgeirsson. Ingibjörg var næstyngst í hópi níu systkina, sem öll eru látin, en þau voru: 1) Jóhann, ókvæntur og barnlaus. 2) Þorgeir, kvæntur og átti tvö börn, bæði eru látin. 3) Gunnar, kvæntur og átti einn son. 4) Magnús, ókvæntur en átti einn son, sem lést í æsku. 5) Anna, ógift og barnlaus. 6) Sveinbjörn, dó í bernsku. 7) Salbjörg, ógift og barnlaus. 8) Ingibjörg, sem hér er minnst, ógift og barnlaus. 9) Gyða, dó í bernsku.

Ingibjörg stundaði nám við Kennaraskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi 1925. Eftir fáein ár við kennslustörf í sinni heimabyggð hélt hún til Noregs í framhaldsnám. Þar veiktist hún hastarlega og náði aldrei fullri heilsu eftir það. Hún dvaldi meðal annars lengi á Reykjalundi, þar sem hún tók virkan þátt í starfi SÍBS.

Ingbjörg var fróð og víðlesin. Hún ritaði greinar í blöð og tímarit um áhugamál sín. Einnig orti hún ljóð og tækifæriskvæði.

Útför Ingibjargar verður gerð frá Reykhólakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Aldamótakynslóðin er fyrir löngu orðið þekkt hugtak með þjóðinni. Það er kynslóðin, sem ung og bjartsýn í byrjun aldarinnar vildi byggja upp bætt mannlíf og framfarir, rækta hug og hönd, í frjálsu landi. Þegar Kennedy Bandaríkjaforseti tók við embætti, sagði hann í ræðu sinni eitthvað á þessa leið: "Hugsaðu ekki um hvað land þitt getur gert fyrir þig, heldur hvað þú getur gert fyrir land þitt." Þessi orð urðu fleyg um heimsbyggðina og hefur oft verið vitnað til þeirra, en fyrir aldamótakynslóðina íslensku var þetta engin nýjung, hún hafði haft þessa sömu hugsun að leiðarljósi áratugum saman.

Einn af fulltrúum aldamótakynslóðarinnar var Ingibjörg Þorgeirsdóttir. Bernska hennar var við innanverðan Breiðafjörð, þar sem sjóndeildarhringur og umhverfi er hvað fegurst á landinu. Þar ólst hún upp á miklu menningarheimili hjá foreldrum sínum, Þorgeiri Þorgeirssyni og Kristrúnu Salbjörgu Jóhannsdóttur, en faðir hennar var bæði hugsjóna- og framkvæmdamaður, þótt aldrei væri þar auður í búi.

Ung að árum fer Ingibjörg að afla sér menntunar, fyrst við kennaraskólann í Reykjavík og síðar til framhaldsnáms í Noregi. Þar veiktist hún hastarlega og lá lengi rúmföst, en með góðri hjúkrun komst hún til nokkurrar heilsu. Segja má að upp frá þessu hafi ævi hennar verið mörkuð baráttunni við berklana. Henni tókst þó að nýta nám sitt að nokkru leyti og var um tíma farkennari í sinni heimabyggð. En heilsan leyfði ekki að hún helgaði sig þessu ævistarfi, og þegar Magnús bróðir hennar tók við búsforráðum af foreldrum þeirra kom það í hennar hlut að annast þau í ellinni eftir því sem hún frekast mátti. Eftir lát beggja foreldranna dvaldi hún lengi á Reykjalundi og síðar hjá Öryrkjabandalagi Íslands í Hátúni í Reykjavík. Á Reykjalundi tók hún þátt í starfsemi SÍBS og gegndi trúnaðarstörfum fyrir þau samtök. En eftir því sem heilsan leyfði reyndi hún að dveljast hluta úr hverju sumri á bernskuheimilinu hjá Magnúsi bróður sínum meðan hann lifði og uppeldisbróður hans, Samúel Björnssyni, og fjölskyldu hans, sem ætíð sýndu henni frábæra velvild. Veit ég að hún hlakkaði til þess á hverju vori að komast vestur og hitta Theódóru vinkonu sína og aðra gamla vini og kunningja. Síðustu árin má þó segja að hún hafi verið komin alfarið á heimaslóðir, því hún hefur verið vistmaður á Elli- og dvalarheimilinu Barmahlíð, þaðan sem bernskuheimili hennar blasir við, örstutt í burtu.

Ingibjörg var margfróð og víðlesin, og áhugamál hennar voru bæði þjóðleg og alþjóðleg. Hún las bækur og tímarit, bæði innlend og erlend, um guðspeki og þroska sálarinnar, jafnframt því sem hún fylgdist með atburðum líðandi stundar og hafði ákveðnar skoðanir á gangi heimsmálanna. Sérlegt áhugamál hennar var að eiginleikar íslensku ullarinnar væru nýttir sem best. Þar fannst henni að kraftar vinnufærs gamals fólks væru vannýttir. Það vantaði að einhver aðili gæfi gamla fólkinu tækifæri til að grípa í að meðhöndla og tilreiða þetta ágæta hráefni. Það gæti mannshöndin betur en nokkrar vélar. Slíkt fyrirkomulag gæti orðið báðum aðilum til nokkurs gagns. En hún var ekki einungis tilbúin að leggja hverju góðu máli lið í orði, hún framkvæmdi líka. Háöldruð stofnaði hún sjóð til styrktar öldruðum. Sá sjóður er nú í vörslu hjá Landssamtökum eldri borgara.

Ingibjörg hafði frábært vald á íslensku máli, bæði töluðu og rituðu. Á þeim árum þegar hér var aðeins ein útvarpsrás með barnatíma á sunnudögum, þá flutti hún þar stundum frumsamið efni, sem að miklu leyti var byggt á bernskuminningum hennar, og þótti það einstaklega lifandi og áheyrilegt. Einnig liggur eftir hana nokkur fjöldi greina, einkum í tímaritum. Síðasta verk hennar á þessu sviði var lítil barnabók, sem lýsir daglegu amstri sveitabarns á fyrstu árum síðustu aldar. Bók þessi heitir "Sigga á Brekku" og var gefin út fyrir fáum árum, myndskreytt af Sigrúnu Eldjárn.

Mest áberandi þættir í fari Ingibjargar fannst mér vera fróðleiksþorsti, sterk réttlætiskennd, áhugi fyrir hverju góðu málefni og, síðast en ekki síst, bjartsýni. Ég undraðist þrautseigju og glaðlyndi þessarar smávöxnu konu, sem var búin að vera sjúklingur stóran hluta ævi sinnar. Aldrei heyrði ég hana kvarta yfir hlutskipti sínu, og í hvert skipti er ég talaði við hana, eftir að hún var orðin vistmaður á Dvalarheimilinu Barmahlíð, notaði hún tækifærið til að lýsa þakklæti sínu til þess góða fólks, sem annaðist hana þar.

Eitt af þeim mörgu ljóðum og tækifæriskvæðum, sem hún orti, er lítið ljóð, þar sem hún lítur til baka yfir æviskeið sitt. Ég vil leyfa mér að ljúka þessum orðum með þessu litla ljóði, sem hún nefndi Brota-brot.

Þótt löng sé orðin leið og stundin mér

svo leiftur-skammt er allt þá gengið er

og stuttur tíminn til að fanga og fá

það flest, sem mark hins sanna gildis á

- samt fátækt brot af fegurð ævidraums

mér féll í skaut á tæpu vaði straums.

Annelene og Ásgrímur Gunnarsson.

Okkur langar til að minnast Ingibjargar afasystur okkar með nokkrum orðum.

Ingibjörg frænka fæddist og ólst upp á Höllustöðum í Reykhólasveit. Hún hélt alla tíð tryggð við sveitina sína, fór flest sumur í heimsókn þangað eða þegar heilsan leyfði. Alltaf fékk hún þar höfðinglegar móttökur sem hún mat afar mikils. Hún bjó í Reykhólasveitinni síðustu æviár sín á dvalarheimili aldraðra á Reykhólum. Þar leið henni vel og naut hún góðrar umönnunar starfsfólks og vina í sveitinni. Henni þótti afar vænt um að fá að eyða síðustu æviárunum á heimaslóðum.

Ingibjörg var kennari að mennt, útskrifaðist frá Kennaraskólanum 1925 og aflaði sér framhaldsmenntunar í Noregi. Hún kenndi í nokkur ár í Strandasýslu og á Reykjalundi um árabil. Hún starfaði einnig sem prófdómari í lestri við Melaskóla í mörg ár. Hún hafði alla tíð mikinn áhuga á skólamálum og lét sér annt um unga fólkið, hafði mikla trú á sköpunarhæfni og víðsýni æsku landsins en hafði miklar áhyggjur af reykingum og áfengisneyslu unglinga.

Ingibjörg barðist við heilsubrest öll sín fullorðinsár eða afleiðingar berkla sem hún fékk sem ung kona í blóma lífsins. Þrátt fyrir heilsuleysi var Ingibjörg alltaf glaðlynd og hress í tali. Hún sýndi námi okkar systranna og störfum ávallt mikinn áhuga og verður okkur hugsað til þess nú hvað veikindin höfðu afgerandi áhrif á lífshlaup hennar. Hún var tíður gestur á heimili foreldra okkar. Þegar við vorum litlar færði hún okkur jólagjafir, gjarnan eitthvað handunnið sem hún hafði sjálf mótað, teiknað eða málað.

Ingibjörg frænka var ljóngáfuð, víðlesin og mjög vel máli farin. Hún hafði mikinn áhuga á íslenskum bókmenntum og hafði sérstakt dálæti á ljóðum. Einnig var hún áhugasöm um íslenskt mál og tungumál og hafði m.a. kynnt sér esperanto. Hún fylgdist alla tíð mjög vel með þjóðfélagsumræðunni, hafði skoðun á flestum málum og hafði gaman af rökræðum um þau. Hún var kvenréttindakona. Hún studdi heils hugar framboð Vigdísar Finnbogadóttur til forsetaembættis á sínum tíma og dáðist alla tíð að störfum Vigdísar. Ingibjörg hafði mikinn áhuga á spíritisma, var félagi í Guðspekifélaginu og hafði miklar mætur á predikunum séra Haraldar Níelssonar. Hún vildi gjarnan ræða um trúmál, t.d. þróun íslensku þjóðkirkjunnar, og hún var á þeirri skoðun að allar kristnar kirkjudeildir í heiminum ættu að sameinast í eina. Skömmu áður en hún flutti vestur í Barmahlíð, þá komin vel yfir nírætt, fór hún á fund í Reykjavík um framtíð þjóðkirkjunnar og tók þátt í umræðum.

Ingibjörg hafði mikinn áhuga á að miðla til komandi kynslóða lífsreynslu sinni úr barnæsku og lýsa því hvernig það var að alast upp í íslenskri sveit í byrjun síðustu aldar og atvinnuháttum á þeim tíma. Hún flutti nokkur erindi um Siggu litlu í Ríkisútvarpinu og gaf þau síðan út í bók árið 1998: Sigga á Brekku. Endurminningar aldamótabarns. Þar lýsir hún á einstaklega skemmtilegan og einlægan hátt ýmsum atburðum úr bernsku sinni, m.a. jólaundirbúningi og jólasiðum. Þrátt fyrir ýmis skyldustörf, sem börnin á bænum þurftu að sinna, gafst einnig tími til leikja, spilamennsku og söngs. Og þó að efnin væru ekki mikil var gleðin því meiri yfir jólaköku eða lummum á tyllidögum og á bænum var lífsgleðin ríkjandi.

Ingibjörg var skáldkona og gaf út tvær ljóðabækur, Líf og liti árið 1956 og Ljóð 1991. Yrkisefnin voru mörg en oft var það trúin og ástin á landinu sem átti hug hennar. Hún orti einnig ljóð til fólks á merkisdögum í lífi þess. Við skírn dóttur einnar okkar færði hún fjölskyldunni forláta kertastjaka sem langamma okkar hafði átt og sendi eftirfarandi ljóð með, skrifað á fallega handskreytt kort:

Forðum var þessi forni stjaki

fegursta djásnið í gömlum bæ,

hátíðarstundanna helsti vaki

himinstjarnanna vafinn blæ.

Einmitt þarna þín "elsta" amma

öll sín tendraði jólaljós.

Þá vegsemd fær nú í fangið mamma

í fylgd með gleðinnar dýrstu rós.

Blessuð sé minning Ingibjargar frænku.

Hjördís, Sigrún og Stefanía Þorgeirsdætur.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast frænku minnar, Ingibjargar Þorgeirsdóttur, sem fæddist á Höllustöðum 19. ágúst 1903.

Við hittumst síðast þegar ég heimsótti hana að Elli- og dvalarheimilið á Reykhólum sumarið 2001. Líkaminn var hrumur en andinn alltaf jafnungur og glaðvær. Við settumst niður yfir kaffibolla og fljótlega barst talið að æsku hennar og uppvaxtarárum í systkinahópnum á Höllustöðum. Rifjaði hún upp ýmsar minningar sem voru sveipaðar ástúð og hlýju. M.a. sagði hún mér frá ýmsum atvikum sem hún minntist frá þeim tíma þegar hún og Gunnsi bróðir hennar, afi minn, áttu að vaka yfir túnunum.

Þegar ég bjóst til brottferðar þá kvaddi hún mig með þeim orðum að óvíst væri hvort við myndum hittast aftur þar sem Gunnsa bróður væri farið að lengja eftir henni eins og í gamla daga þegar hún átti að færa honum nestið og vaka með honum.

Ég hafði ekki tækifæri til að hitta hana sumarið eftir þegar ég var á ferð á Íslandi en frétti þó alltaf reglulega af henni. Svo var það um síðustu helgi að hringt var í mig og mér sagt frá láti Ingu frænku. Rifjaðist þá upp fyrir mér síðasta samtal okkar og það hversu sannspá hún reyndist vera.

Ég geymi með mér minninguna um þessa ljúfu og indælu konu sem var ætíð full af atorku og lífsgleði þrátt fyrir langvarandi veikindi og háan aldur.

Katrín Ásgrímsdóttir,

Lúxemborg.