Sólveig Pétursdóttir
Sólveig Pétursdóttir
Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sem undiritaður var í Óportó 2. maí 1992 og tók gildi hér á landi 1. janúar 1994 hefur reynst Íslandi ákaflega vel þau 10 ár sem hann hefur gilt.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sem undiritaður var í Óportó 2. maí 1992 og tók gildi hér á landi 1. janúar 1994 hefur reynst Íslandi ákaflega vel þau 10 ár sem hann hefur gilt. Meginmarkmið samningsins er, sem kunnugt er, að mynda einsleitt evrópskt efnahagssvæði, grundvallað á sameiginlegum reglum um öll meginatriði viðskipta og samkeppni. Samningurinn veitir Íslandi aðgang að innri markaði Evrópusambandsins án þess að það þurfi að gerast fullgildur aðili að sambandinu með þeim réttindum og skyldum sem slíkri aðild fylgja óhjákvæmilega. Innri markaður Evrópusambandsins felur í megindráttum í sér frjáls viðskipti með vörur og þjónustu, frjálst flæði fjármagns, sameiginlegan vinnumarkað, sameiginlegar samkeppnisreglur og sérstakar reglur um ríkisaðstoð. Þegar samningurinn var gerður endurspeglaði hann í raun kjarnann í stofnsáttmála Evrópubandalagsins frá 1957 (Rómarsamningnum), þar sem reynt var að tryggja eins og kostur var samræmi milli samninganna á tilteknum sviðum.

Evrópusamruninn

Á þeim 10 árum sem liðin eru frá gildistöku EES-samningsins hefur mikið vatn runnið til sjávar í Evrópu. Evrópusambandið hefur stefnt að stöðugt meiri samruna ríkjanna og aukinni samvinnu á æ fleiri sviðum. Undanfarin missiri hefur Evrópusambandið svo varið miklum tíma, mannafla og fjármunum í að móta stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið. Svo virðist sem Evrópusambandið stefni með þessu inn í eins konar "Bandaríki Evrópu". Eins og flestum er kunnugt um hafa þær viðræður nú siglt í strand og er óvíst um framhald málsins enda er ekki eining með ríkjum sambandsins um innihald stjórnarskrárinnar. Þrátt fyrir allar þessar hræringar er EES-samningurinn í fullu gildi og veitir okkur áfram aðgang að mikilvægasta hluta Evrópusamvinnunnar, fjórfrelsinu, þ.e. frjálsum viðskiptum með vörur og þjónustu, fjármagnsflutningum og sameiginlegum vinnumarkaði auk sameiginlegs samkeppnis-svæðis.

Stækkun EES-svæðisins

Frá stofnun hefur bandalagið gengið í gegnum nokkur stækkunarferli. Í upphafi var það samband sex ríkja en þau voru orðin fimmtán talsins árið 1995. Hinn 16. apríl 2003 var svo undirritaður samningur í Aþenu um umfangsmestu stækkun Evrópusambandsins frá upphafi, nú með aðild lýðveldanna Tékklands, Eistlands, Kýpur, Lettlands, Litháens, Ungverjalands, Möltu, Póllands, Slóveníu og Slóvakíu. Stækkun Evrópusambandsins mun taka gildi 1. maí næstkomandi en þá á fullgildingarferlinu í aðildarríkjunum að vera lokið.

Samkvæmt 128. gr. EES-samningsins er aðildarríki ESB skylt að gerast jafnframt aðili að EES-samningnum. EES-samningurinn sjálfur mælir ekki beint fyrir um með hvaða skilmálum ný ríki komi inn í EES-samstarfið og því þarf að gera sérstakan samning um það. Viðræður um stækkun EES hófust í byrjun janúar 2003 og af hálfu íslenskra stjórnvalda var lögð megináhersla á að stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins gerðist samhliða. Í tengslum við inngöngu nýju ríkjanna í Evrópusambandið þarf að hafa í huga að Ísland hafði áður gert fríverslunarsamninga við þessi ríki og tryggja varð að viðskiptakjör okkar versnuðu ekki við inngöngu þeirra í sambandið því að við aðildina falla úr gildi allir fríverslunarsamningar sem áður höfðu verið gerðir tvíhliða við önnur ríki. Viðskiptakjör okkar við þessi ríki voru að sumu leyti mun betri en gilda samkvæmt EES-samningnum.

Samningurinn um stækkun EES var gerður í Vaduz í Lichtenstein 14. október 2003 en svo sem kunnugt er tafðist undirritun hans í tæpan mánuð vegna ágreinings milli Liechtenstein annars vegar og Slóvakíu og Tékklands hins vegar um viðurkenningu á fullveldi Liechtenstein. Svo að samningurinn taki gildi þurfa öll aðildarríkin að fullgilda hann og það þarf að gerast fyrir 1. maí ef stækkun ESB og EES á að geta orðið á sama tíma. Þær tafir sem urðu á undirritun samningsins í Vaduz eru því mjög óheppilegar enda er fullgildingarferli alþjóðasamninga í einstökum ríkjum oft mjög flókið og tímafrekt. Á þessari stundu er ekki ljóst hvernig brugðist verður við ef ekki næst að fullgilda stækkunarsamning EES í öllum aðildarríkjum sambandsins fyrir 1. maí.

Frumvarp til laga um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins var lagt fram á Alþingi fyrir jól og er nú til meðferðar í utanríkismálanefnd Alþingis. Málið hefur verið sent 50 félögum, samtökum og stofnunum til umsagnar og munu margir koma að málinu áður en meðferð þess lýkur í nefndinni og á Alþingi.

Eitt stórt atvinnusvæði

Við stækkun Evrópusambandsins úr 15 ríkjum í 25 ríki stækkar atvinnusvæði Evrópska efnahagssvæðisins gríðarlega. Eins og áður segir felur EES-samningurinn í sér að til verður einn sameiginlegur vinnumarkaður. Þorri nýrra aðildarríkja tilheyrir hópi efnaminni ríkja þótt verulegar efnahagslegar umbætur hafi orðið í mörgum þeirra undanfarin ár. Gera verður ráð fyrir að töluvert rót komist á íbúa þeirra ríkja sem eðlilega vilja leita að nýjum tækifærum í öðru landi innan EES-svæðisins.

Í aðildarsamningi EES er gert ráð fyrir að EES-ríkin geti gert fyrirvara við frjálsa för launafólks frá nýju aðildarríkjunum að Kýpur og Möltu undanskilinni og þannig tryggt sér aðlögunartíma í allt að sjö ár frá gildistöku stækkunarsamningsins eða fram til ársins 2011, að uppfylltum vissum skilyrðum. Í fyrstu töldu aðilar vinnumarkaðarins að Ísland þyrfti ekki að fara fram á aðlögunartíma gagnvart vinnumarkaðnum. Íslensk stjórnvöld héldu þeim möguleika hins vegar opnum meðan á samningaferlinu stóð. Ríkisstjórnin tók nýlega ákvörðun um að beita aðlögunartíma fyrstu tvö árin eftir gildistöku stækkunarsamninganna eða fram í maí 2006. Afstaða Alþýðusambands Íslands til málsins hafði breyst og taldi það nú nauðsynlegt að takmarka aðgengi launamanna frá nýju aðildarríkjunum að vinnumarkaðnum. Samtök atvinnulífsins hafa hins vegar ekki talið nauðsynlegt að nýta aðlögunarákvæðið enda hafi erlent starfsfólk gegnt veigamiklu hlutverki í íslensku efnahagslífi að undanförnu. Samtökin lýsa sig þó ekki andsnúin ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Að tveimur árum liðnum þarf svo að taka ákvörðun um hvort farið verði fram á aðlögunartíma framlengdan í allt að þrjú ár til viðbótar eða til ársins 2009. Eigi síðar en árið 2011 verður einn sameiginlegur vinnumarkaður á öllu EES-svæðinu.

Svo virðist sem afstaða EES-ríkja til opnunar vinnumarkaðarins hafi að sumu leyti breyst eftir því sem leið á samningaferlið og nú virðast mörg ríki ætla að notfæra sér tveggja ára aðlögunartímann hið minnsta. Danmörk hefur þó lýst því yfir að vinnumarkaðurinn þar verði opinn frá fyrsta degi en með hertu eftirliti. Ekki er alveg ljóst hvað átt er við með hertu eftirliti í þessu sambandi. Í reynd gæti það falið í sér hálfgerðan aðlögunartíma án þess að nokkuð verði um það fullyrt hér enda fer það að sjálfsögðu eftir því hversu strangt eftirlitið verður og hvernig formkröfum verður fylgt eftir.

Hvert stefnum við?

Íslensk stjórnvöld hafa lengi stutt við sjálfstæðisbaráttu og lýðræðisþróun í öðrum ríkjum. Er skemmst að minnast stuðnings Íslands við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna. Nú hafa þau uppskorið laun erfiðis síns og eru á leið inn í Evrópusambandið sem að þeirra mati var sjálfsagt ein besta leiðin til að tryggja efnahagslega framtíð þeirra. Hvort það er rétt mat skal ósagt látið en afstaða þeirra er fullkomlega skiljanleg eftir áratuga undirokun Sovétríkjanna.

Ísland býður ný aðildarríki Evrópusambandsins velkomin til samstarfs innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hins vegar má ekki gleyma að standa líka vörð um okkar eigin hagsmuni. Hagkerfi okkar og vinnumarkaður er í góðu jafnvægi sökum styrkrar efnahagsstjórnar, öflugra og framsækinna atvinnufyrirtækja og vel menntaðs og hæfs vinnuafls. Hins vegar er íslenskt efnahagslíf viðkvæmt fyrir utanaðkomandi áhrifum. Við þurfum að halda vöku okkar í Evrópusamstarfinu og tryggja hagsmuni Íslands í hvívetna. Að sjálfsögðu leitast hin aðildarríkin einnig við að tryggja eigin hagsmuni. Íslensk stjórnvöld hafa stundum verið gagnrýnd fyrir að taka löggjöf frá Evrópusambandinu því sem næst óbreytta upp í stað þess að aðlaga hana íslenskum rétti með því svigrúmi sem leyft er á hverjum tíma. Við þurfum að fylgja sannfæringu okkar og stefnumiðum í þessum efnum og vera ófeimin við að notfæra okkur það svigrúm sem alþjóðasamningar veita okkur.

Eftir Sólveigu Pétursdóttur

Höfundur er formaður utanríkismálanefndar Alþingis.