Eskja gerir nú út þrjú skip, þ. á m. tvö af aflasælustu uppsjávarskipum flotans; Jón Kjartansson SU og Hólmaborg SU.
Eskja gerir nú út þrjú skip, þ. á m. tvö af aflasælustu uppsjávarskipum flotans; Jón Kjartansson SU og Hólmaborg SU.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eskja hf. á Eskifirði er eitt margra gamalgróinna íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja sem að undanförnu hafa verið skráð af almennum hlutabréfamarkaði í kjölfar breytinga á eignarhaldi. Hópur einstaklinga með sterkar rætur í Eskju hefur nú eignast félagið til fulls. Helgi Mar Árnason leitaði skýringa á þessu hjá Elfari Aðalsteinssyni, stjórnarformanni Eskju, og ræddi við hann í leiðinni um ástand og horfur í sjávarútveginum.
Gagngerar breytingar urðu á sjávarútvegsfyrirtækinu Eskju hf. á Eskifirði í upphafi ársins þegar eignarhaldsfélagið Hólmi eignaðist 92% hlutafjár í félaginu. Í kjölfarið gerði Hólmi öðrum hluthöfum Eskju yfirtökutilboð og er félagið nú alfarið í eigu Hólma. Að rekstri Hólma standa Elfar Aðalsteinsson, Þorsteinn Kristjánsson og Kristinn Aðalsteinsson. Þeir þremenningar tóku við Hólma af Aðalsteini Jónssyni og Guðlaugu Stefánsdóttur, sem þeir eru allir tengdir fjölskylduböndum.

Elfar hefur í kjölfar eignarhaldsbreytinganna tekið sæti starfandi stjórnarformanns Eskju en hann hafði gegnt starfi forstjóra frá árinu 2001 er hann tók við stjórnartaumunum af Aðalsteini Jónssyni, en fyrirtækið hét þá Hraðfrystihús Eskifjarðar. Elfar mun í framhaldi hafa umsjón með heildarstýringu félagsins en Haukur Björnsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri og mun sinna daglegum rekstri.

Undir stjórn Elfars hefur verið hagrætt í starfseminni og hún endurskipulögð. "Reksturinn hefur verið einfaldaður mikið undanfarin ár og við sinnum nú eingöngu kjarnastarfsemi. Annarri starfsemi hefur verið útvistað, hún lögð af eða seld," segir Elfar. "Við höfum hagrætt í skipastól okkar og gerum í dag út þrjú skip, tvö uppsjávarskip og eitt bolfiskskip, í stað sex skipa áður. Framleiðslan hefur einnig verið sérhæfð og í dag framleiðir fyrirtækið eingöngu mjöl og lýsi og þorskafurðir. Einnig sameinuðum við rækjuvinnslu okkar rækjuvinnslu á Húsavík undir merkjum Íshafs."

Eskja hefur verið skráð úr Kauphöll Íslands, líkt og fleiri sjávarútvegsfyrirtæki að undanförnu. Nægir þar að nefna fyrirtæki á borð við Þorbjörn-Fiskanes, Hraðfrystihúsið Gunnvöru og Guðmund Runólfsson en stjórnendur þessara fyrirtækja hafa einnig ráðist í yfirtöku á þeim, líkt og gert var á Eskifirði.

En hvers vegna uppkaup á félaginu?

"Ástæðan fyrir því að við ákváðum að ráðast í uppkaup á hlutafé Eskju var fyrst og fremst sú að við sáum í því viðskiptatækifæri. Rætur kaupendahópsins liggja í fyrirtækinu og að okkar mati keyptum við traust og öflugt félag, sem býr yfir miklum mannauði," segir Elfar.

Sjávarútvegurinn sat eftir

Hvað veldur því að sjávarútvegsfyrirtæki sjá sér ekki lengur hag í því að vera skráð á almennum hlutabréfamarkaði?

"Afskráning Eskju af hlutabréfamarkaði er bein afleiðing þess að við keyptum upp hlutafé fyrirtækisins, og fyrirtækið uppfyllir ekki lengur lagalegar forsendur fyrir skráningu. Svo er auðvitað umdeilanlegt hvort Eskja hafi verið nægjanlega stórt félag til að vera skráð á hlutabréfamarkað, með þriggja milljarða króna veltu og virk hlutabréfaviðskipti einu sinni til tvisvar í mánuði. Hins vegar tel ég raunar að það skipti ekki höfuðmáli hvort fyrirtækið sé skráð á skipulögðum hlutabréfamarkaði eða ekki. Að minnsta kosti hef ég ekki trú á að við fáum lakari kjör á lánsmarkaði. Íslenskar lánastofnanir eru orðnar það faglegar að þær líta fyrst og fremst til þess hvernig félögin eru rekin, þegar þau falast eftir fjármagni, en ekki á það hvort þau eru skráð í Kauphöll eða ekki.

Íslenski sjávarútvegurinn kom inn á hlutabréfamarkaðinn á sínum tíma þegar greinina vantaði fjármagn til að stækka og endurnýja sig. Á þeim tíma voru fá fyrirtæki fyrir á markaðnum og voru því viðskipti með bréf í sjávarútvegsfyrirtækjum nokkuð virk. Sjávarútvegurinn sat svo eftir er skráðum félögum fjölgaði og þau tóku að stækka eins og til dæmis fyrirtæki í lyfja- og fjármálageiranum. Þessi fyrirtæki drógu í auknum mæli að sér það fjármagn sem var í umferð á markaðnum, þau voru stærri og höfðu að mati margra meiri möguleika til vaxtar. Afleiðingin varð sú að viðskipti með bréf sjávarútvegsfyrirtækjanna urðu stopul og verðmyndun þeirra því ekki kvik."

Elfar telur líklegt að fleiri fjárfestar hafi horft til kaupa á Eskju, áður en stjórnendur fyrirtækisins ákváðu að fara þessa leið. "Félagið er yfirvigtað í uppsjávarfiski og reksturinn gæti vafalaust fallið vel að rekstri einhverra sjávarútvegsfyrirtækja. En það var einfaldlega ekki uppi á borðinu að fara slíka leið nú."

Millibilsástand

En má ekki líta á það sem skref aftur á bak að sjávarútvegsfyrirtæki hverfa nú unnvörpum af almennum markaði?

"Við sjáum til lengri tíma tækifæri í greininni til vaxtar og lítum því ekki á þetta sem skref aftur á bak. Hins vegar má segja að það ríki visst millibilsástand í sjávarútvegi um þessar mundir, að minnsta kosti hjá þeim félögum sem nú hafa farið í skuldsettar yfirtökur. Þessir aðilar þurfa nú tíma til þess að vinna úr sínum málum og meta í framhaldi tækifærin og þá framtíðarmöguleika sem þeir hafa í sínum rekstri. En tækifærin í íslenskum sjávarútvegi tel ég að séu og verði svo sannarlega til staðar."

En hvernig hafa viðbrögðin verið?

"Viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð og við höfum fundið fyrir miklum og góðum stuðningi í byggðarlaginu. Ef til vill finnst fólki ásættanlegra að það voru heimamenn sem keyptu fyrirtækið en ekki utanaðkomandi aðilar. Rætur félagsins og mannauðurinn eru á Eskifirði og hér hefur uppbyggingin átt sér stað og til lengri tíma litið tel ég að Austfirðingar vilji að sjávarútvegurinn verði áfram virkur þátttakandi í atvinnulífinu í fjórðungnum. Þó skilgreinum við Eskju ekki sem eskfirskt sjávarútvegsfyrirtæki, heldur lítum við á landið allt og miðin sem okkar starfsvettvang. Ef upp koma tækifæri annars staðar á landinu þá er ekkert sem hamlar því að við skoðum þau eða nýtum."

Virðið ekki aðeins í kvótanum

En fylgja ekki yfirtöku af þessu tagi miklar skuldir sem draga úr vaxtarmöguleikum fyrirtækisins?

"Óhjákvæmilega gerist það til skamms tíma en ég ítreka að við sjáum mikil tækifæri í þessu fyrirtæki og við tjöldum ekki til einnar nætur. Það má velta því endalaust fyrir sér hvenær skuldsetning fyrirtækja telst vera hæfileg en augljóslega er okkar helsta markmið nú að vinna úr þeim skuldum sem yfirtökunni fylgja. Þeir aðilar sem nú hafa verið að kaupa upp hlutafé sjávarútvegsfyrirtækjanna hafa greinilega séð kauptækifæri, að öðrum kosti hefðu þeir selt hlutafé sitt. Viðskipti með hlutabréf í sjávarútvegi eru ekkert öðruvísi en viðskipti með önnur hlutabréf. Ég hef ekki skilið þann málflutning óvina sjávarútvegsins að í viðskiptum með sjávarútvegsfyrirtæki sé aðeins verið að sýsla með kvóta. Þessum aðilum hættir til að gleyma því að í virði sjávarútvegsfyrirtækis felast einnig mannauður, skip, vinnsluhús og þekking svo eitthvað sé nefnt. Í þessum þáttum sjáum við tækifærin og vorum ekki síður að fjárfesta í þeim en nýtingarréttinum."

Að lengja virðiskeðjuna

Elfar útlokar ekki að sjávarútvegsfyrirtæki skrái sig aftur á hlutabréfamarkað í framtíðinni. "Það yrði þá með sameiningum í stærri einingar sem gætu keppt sem fjárfestingarkostur við fyrirtæki í öðrum greinum. Þau fyrirtæki þyrftu einnig að ná að lengja virðiskeðju sína, vera í senn útgerðarfyrirtæki, vinnslufyrirtæki og markaðsfyrirtæki. Fyrirtæki á borð við Samherja hafa náð hvað lengst á þessari braut og eru því með breiðari rekstrargrundvöll en önnur íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Ég tel að stjórnendur gætu allt eins litið til slíkra vaxtarmöguleika á komandi árum, fái þeir pólitískan frið til þess."

Elfar telur að hér á landi skorti hins vegar pólitískan vilja til að leyfa sjávarútvegsfyrirtækjunum að vaxa. "Í fyrsta lagi stendur til að skattleggja þessa atvinnugrein sérstaklega, sem mun draga verulega úr vaxtarmöguleikunum. Í öðru lagi tel ég að við þurfum að opna umræðuna um beina erlenda eignaraðild í sjávarútvegi, því annars er hætt við því að greinin sitji eftir ef möguleikar hennar verða áfram skertir með handafli. Við skulum ekki gleyma því að slíkt yrði ekki eingöngu tækifæri fyrir erlenda aðila að kaupa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, heldur allt eins tækifæri fyrir íslensk sjávaútvegsfyrirtæki til þess að hleypa heimdraganum og vaxa á alþjóðlegum vettvangi. Sú leið hugnast mér betur en að fara að sigla þjóðinni inn í miðstýringu Evrópusambandsins. Þar höfum við hvað skýrustu dæmin um hornreka og illa úthugsaða sjávarútvegsstefnu."

Erfitt starfsumhverfi

Elfar segir þannig mikilvægt að sjávarútveginum verði skapaður góður rekstrargrundvöllur og samstaða náist um að efla greinina. "Kvótakerfið er orðið rúmlega tvítugt og ætti að vera orðið nægjanlega gamalt til þess að flytja að heiman. Hugmyndafræði kvótakerfisins er bæði einföld og árangursrík. Við eigum sem þjóð sameiginlegan höfuðstól í fiskimiðunum sem íslensk sjávarútvegsfyritæki ávaxta árlega. En það eru ekki allir á eitt sáttir um aðferðafræðina við að ávaxta þennan höfuðstól og það gerir starfsumhverfi greinarinnar mjög erfitt. Það er erfitt að þurfa sífellt að verja baklandið um leið og menn standa í harðri samkeppni á erlendum mörkuðum. Umræðan hefur á stundum verið mjög neikvæð og það undarlega er að hún verður háværust þegar gengur sem best í greininni.

Það er ekki hægt að halda greininni í gíslingu út af tuttugu ára gamalli deilu. Hæstiréttur kvað upp mikilvægan dóm á árinu 2000 sem skar úr um það að upphafleg úthlutun nýtingarréttarins hefði ekki verið brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar um jafnræði og atvinnufrelsi. Samt sem áður finnast hér öfl sem virðast hafa það eitt að markmiði að skapa tortryggni og pólitíska óvissu með því vega sífellt að sjávarútveginum. Þetta erfiða starfsumhverfi dregur að sjálfsögðu úr drifkrafti í greinarinnar.

Við skulum heldur ekki gleyma því að sjávarútvegurinn hefur ekki eingöngu verið í hlutverki þiggjanda heldur lagt í heilmikla frumkvöðulsstarfsemi, með veiðum á tegundum eins og kolmunna, norsk-íslenskri síld, rækju á Flæmingjagrunni og Barentshafsþorski. Þessi veiðiréttindi eru nú orðin um þriðjungur af fiskveiðum Íslendinga og skapa þjóðinni miklar tekjur."

Elfar telur að uppstokkun síðustu vikna í sjávarútvegi sé af hinu góða. Umskipti hafi orðið í greininni hér á landi en hið ytra umhverfi sé stöðugt að breytast og samkeppnin að harðna. "Okkar helsta verkefni er að ná lokasátt um nýtingarréttinn og efla starfsumhverfið almennt. Það er slagkraftur í greininni sem við megum ekki láta koðna niður á kostnað pólitískrar neikvæðni," segir Elfar Aðalsteinsson.

hema@mbl.is