Ottó Jakobsson fiskverkandi á fleygiferð í vinnslunni.
Ottó Jakobsson fiskverkandi á fleygiferð í vinnslunni. — Morgunblaðið/Friðþjófur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"NÚNA er háannatíminn í hrognunum og þá er unnið myrkranna á milli," segir Ottó Jakobsson, fyrrum aflaskipstjóri sem rekur fiskverkunina O. Jakobsson ehf. á Dalvík. Þar eru m.a. unnin þorskhrogn og afskurður af frystiskipum.
"NÚNA er háannatíminn í hrognunum og þá er unnið myrkranna á milli," segir Ottó Jakobsson, fyrrum aflaskipstjóri sem rekur fiskverkunina O. Jakobsson ehf. á Dalvík. Þar eru m.a. unnin þorskhrogn og afskurður af frystiskipum.

Á síðasta ári voru fryst hjá fyrirtækinu um 150 tonn af þorskhrognum og söltuð hrogn í um 60 tunnur.

Alls vinna 9 manns í fyrirtækinu og segist Ottó fá stærstan hluta af þeim hrognum sem til falla hjá fiskverkunum og bátum á svæðinu allt frá Borgarfirði eystra til Grímseyjar. "Hér hefur verið góð vertíð, ágætt fiskirí í öll veiðarfæri. Vertíðin byrjaði nokkuð fyrr en í fyrra en það kom sér vel fyrir okkur því þá fengum við smærri hrogn en þau eru verðmætari."

Ottó segir ágætt framboð á hrognum en hann kæri sig ekki um að kaupa meira, hann láti sér nægja að vera í viðskiptum við valda birgja. "Við höfum ekki keypt hrogn af fiskmörkuðum í tvö ár. Við gáfumst hreinlega upp á því, enda þótti okkur illa um þau gengið og við viljum vera vandvirkir. Það er talsvert framboð á þorskhrognum en gæti vissulega verið miklu meira. Það fer stór hluti af hrognunum í hafið aftur og menn ganga misjafnlega um þau hrogn sem hirt eru. Það þarf ekki nema að reka hnífinn örlítið í hrognasekkinn til að varan hríðfalli í verði. Það mætti gera átak í að kenna mönnum að ganga vel um hrognin," segir Ottó. Hrognin selur Ottó til Spánar, Portúgals, Japans og Bretlands og fást nú um 4 evrur, um 350 krónur, fyrir kílóið af frosnum hrognum. Svokölluð iðnaðarhrogn, þ.e. hrogn sem hafa skaddast á einhvern hátt, eru einkum seld til Rússlands. Ottó segir hrognamarkaðinn nokkuð sveiflukenndan. "Ástandið er afskaplega misjafnt frá ári til árs en við höfum í gegnum tíðina komist í góð sambönd og getum tryggt sölu á allri framleiðslunni. En þetta hefur gengið hingað til og hér er vinnsla allt árið. Hrognavinnslan stendur þó yfir í stuttan tíma á hverju ári, byrjar jafnan í janúar, nær hámarki fyrstu dagana í mars en síðan dregur úr henni þegar líða fer á aprílmánuð."

Ottó segist einnig vinna afskurð fyrir Spánarmarkað. "Við fáum afskurð af frystitogrunum, enda fellur mikið til af afskurði hjá þeim. Við söltum afskurðinn, ásamt þorskflökum og gellum, pökkum í lofttæmdar umbúðir og seljum frosið til Spánar. Þetta eru nokkrir tugir tonna á ári," segir Ottó.