Steven Gerrard og Gerard Houllier fagna marki sem Gerrard skoraði í fyrri UEFA-leiknum gegn Levski Sofía á Anfield.
Steven Gerrard og Gerard Houllier fagna marki sem Gerrard skoraði í fyrri UEFA-leiknum gegn Levski Sofía á Anfield. — Reuters
ENSKA knattspyrnufélagið Liverpool skýrði frá því í gær að knattspyrnustjóri þess, hinn franski Gerard Houllier, hefði fengið morðhótun senda í bréfi fyrir nokkru og að búið væri að afhenda lögreglunni bréfið.
Houllier hefur legið undir mikilli gagnrýni í vetur vegna slaks gengis liðsins, en það er nú í sjötta sæti ensku deildarinnar og það sætta stuðningsmenn liðsins sig ekki við. Steininn tók þó úr á dögunum þegar Liverpool tapaði fyrir Portsmouth í bikarkeppninni. Þá sáu einhverjir ástæðu til að krota niðrandi orð um stjórann á búningsaðstöðu liðsins á æfingasvæði þess við Melwood. Þar var skrifað: "Við vonum að þú deyir úr AIDS."

Bréfið fékk Houllier hins vegar fyrir þennan leik, en því hefur verið haldið leyndu þar til í gær að ákveðið var að láta lögregluna rannsaka málið.

"Houllier fékk bréfið fyrir um þremur vikum og opnaði hann það sjálfur. Innihald þess er ekki fagurt og því ákváðum við að koma því til lögreglunnar til frekari rannsóknar. Við viljum ekki gera of mikið úr þessu, en það er ekki hægt að líta fram hjá svona hlutum," sagði Ian Cotton, fjölmiðlafulltrúi félagsins, í gær.

Ekki hefur verið látið uppi hvað stóð nákvæmlega í bréfinu en samkvæmt sumum enskum fjölmiðlum í gær mun Houllier hafa verið bent á að hann ætti að hætta hjá Liverpool eða eiga von á einhverju slæmu ella. Bréfritari virðist einnig hafa herbergjaskipan á heimili Houlliers á hreinu ásamt daglegum verkum knattspyrnustjórans.

Houllier hefur reynt að víkja þessu öllu frá sér og sagði til dæmis að krotið á vegginn á æfingasvæðinu væri örugglega eftir einhverja fyllibyttu, en eftir leikinn við Levski Sofía í síðustu viku, sem Liverpool vann 2:0, viðurkenndi hann að síðustu vikur hefðu verið einhverjar þær erfiðustu sem hann hefði lifað.