Pétur Guðmundsson
Pétur Guðmundsson
...skora ég á alla sem fá greiðslur úr almennum lífeyrissjóðum að krefja TR um leiðréttingu.
ELDRI borgarar hafa vitað það lengi að alltaf er verið að sauma að þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, ekki síst öldruðum.

Það er hins vegar sárast þegar það kemur þaðan sem þeir eiga sér síst von. Á fræðslufundi Félags eldri borgara í Reykjavík (FEB) hinn 20. september sl. flutti forstjóri Tryggingastofnunar (TR) ræðu og sagði meðal annarrs: "Tryggingastofnun er miðstöð velferðarkerfisins, þar sem menn sækja rétt sinn". Einnig var farið fögrum orðum um aukna upplýsingaþjónustu TR við aldraða.

En eftir að hafa skoðað vandlega bréfaskriftir TR til lífeyrisþega í nóv. 2003 og í nóv. 2002, þá er það greinilegt að hann hefur rétt fyrir sér, aldraðir verða að sækja sinn rétt, og upplýsingar liggja ekki á lausu.

Því er sérstaklega áhugavert að benda á það sem ekki er nefnt í þessum bréfum og TR kýs þar með að þegja yfir. Í bréfi frá TR í nóv. 2003, þar sem beðið er um tekjuáætlun fyrir árið 2004, er tillaga TR að hækka áætlaðar greiðslur úr almennum lífeyrissjóðum um 10%, á milli áranna 2002 og 2004, en þeir nefna ekki í bréfinu forsendur hækkunarinnar né prósenttölu. Ekki er heldur bent á þá staðreynd að greiðslur úr almennum lífeyrissjóðum fylgja verðlagsvísitölu og hækka því vart meira en um 5-6% á þessu tímabili. Þetta vita þessir menn fullvel, en leyfa sér þó að segja í umræddu bréfi: "Sérstök athygli er vakin á eftirfarandi: Að tekjuáætlun sé í sem bestu samræmi við væntanlegar tekjur ársins 2004" og: "Að ábyrgðin á því að tekjuáætlunin sé rétt er á ykkar hendi !(leturbreyting mín). Það er fráleitt að halda því óbeint fram að TR beri hér ekki mikla ábyrgð.

TR lætur greinilega nota sig til þess að hafa allar áætlanir sem hæstar, og þar með lægri greiðslur tekjutengds lífeyris. Að vísu er lofað leiðréttingu seint á árinu 2005, og þannig er TR samkvæmt skipun að ofan að hjálpa ríkinu að ná sér í ódýr lán á kostnað "forríkra" ellilífeyrisþega! Lög segja 5,5% vexti en engar verðbætur eru nefndar.

Ekki er síður áhugavert að rifja upp atriði í bréfi TR til ellilífeyrisþega í nóv. 2002. Þar er nefnt að breytingar verði skv. nýsamþykktum lögum, þannig að framvegis (frá árinu 2003) verði tekjutengdar bætur miðaðar við tekjur sama árs, en ekki eins og undanfarin ár við tekjur næstu ára á undan. Í bréfinu er höfuðáherslan lögð á að menn gefi TR ótakmarkað leyfi til að hnýsast í skattaskýrslur þeirra, þó að þeim sé nóg að fá uppgefnar tekjur manna. Þá eru menn beðnir að senda inn tekjuáætlun fyrir árið 2003, og í þetta sinn án ábendinga frá TR.

Hins vegar er vandlega þagað yfir því að þessar breytingar þýða það að allar tekjur ársins 2002, hvort sem um er að ræða atvinnu-, lífeyrissjóðs- eða fjármagnstekjur muni ekki hafa nein áhrif á upphæð tekjutengdra bóta frá TR, þegar upp er staðið.

Þetta "skattfrelsisár" var greinilega einkamál TR og þeirra fáu sem gerðu sér grein fyrir því hvað þessar breytingar þýddu í raun og veru. Almennir lífeyrisþegar máttu umfram allt ekki komast á snoðir um þetta. Því að þarna höfðu þeir tækifæri til þess að selja gömul húsbréf, hlutabréf eða önnur verðmæti og greiða aðeins fjármagnstekjuskatt, án þess að þurfa að sæta skerðingum lífeyris frá TR vegna fjármagnstekna þessa árs. Halda einhverjir ennþá að TR hugsi fyrst og fremst um hagsmuni lífeyrisþega?

Forstjóri TR, sagði einnig í áðurnefndri ræðu að kerfið sé orðið flókið og að endalausar tekjutryggingar samkvæmt lögum frá Alþingi eigi þar stærstan hlut að máli. Skammirnar vegna þess fengi svo starfsfólk TR. Ég get tekið undir hans orð um endalausar tekjutryggingar lífeyris, en eftir að hafa grandskoðað bréf TR til lífeyrisþega undanfarin ár þá undrast ég ekki lengur að TR fái stundum orð í eyra og að þeir eigi það jafnvel skilið.

Nýjasta svar forstjóra TR, vegna kvörtunar LEB, sýnir að stofnunin er ennþá múlbundin af stjórnvöldum um að hafa tekjuáætlunina sem hæsta, og TR má þar engu um ráða.

Hins vegar lofa þeir leiðréttingu sé um hana beðið. Þess vegna skora ég á alla sem fá greiðslur úr almennum lífeyrissjóðum að krefja TR um leiðréttingu. Allir vita núna heildargreiðslur síðasta árs frá lífeyrissjóðunum í greiðsluyfirliti sjóðanna. Hæfilegt er að hækka þær ársgreiðslur um 2,5%, og tilkynna TR um þá endurskoðuðu tekjuáætlun fyrir árið 2004, og láta þar með vita að það er fylgst með gjörningum þeirra. Félög eldri borgara munu án efa veita aðstoð við þetta.

Það tekur því varla að nefna það að TR hefur svikið loforð um það að segja lífeyrisþegum það við hvaða tekjuáætlun ársins 2004 greiðslur TR eru miðaðar. Þeirra tölvukerfi er greinilega svo lélegt að það getur ekki einu sinni tilgreint á greiðsluseðli forsendur eigin útreikninga.

Það er því sannarlega rétt hjá forstjóra TR að aldraðir verða "að sækja sinn rétt".

Pétur Guðmundsson skrifar um lífeyrismál

Höfundur er verkfræðingur.