SEGJA má að þorri Íslendinga sé náttúruverndarsinnar og vilji lifa í sátt við landið ásamt því að umgangast það með fullri gát og er það vel.
SEGJA má að þorri Íslendinga sé náttúruverndarsinnar og vilji lifa í sátt við landið ásamt því að umgangast það með fullri gát og er það vel. Hitt er verra að öfgamönnum sem virðast vera búnir að gleyma því að við þurfum að lifa í okkar landi fer nú fjölgandi og vanda þeir lítt til málflutnings og vinnubragða.

Málefni Laxárvirkjunar í S-Þing. hafa nú verið talsvert á dagskrá að undanförnu og eru um þau deildar skoðanir. Svo vill til að ég er þessum málum nokkuð kunnugur þar sem mér lagðist það til að sitja í stjórn Landeigendafélags Laxár og Mývatns um 29 ára skeið og lengst af sem formaður.

Elda Laxárdeilunnar fékk ég að vaða frá upphafi til enda. Um þá deilu vil ég segja það að hún var sorglegt dæmi um það hvernig menn eiga ekki að skipta saman. Einnig er ég sannfærður um það að ef báðir aðilar þeirrar deilu hefðu verið lausir við öfgamenn þá hefði sú deila verið leyst mun fyrr og aldrei orðið sú ófreskja sem raun varð á.

Áform stjórnar Laxárvirkjunar í sambandi við fyrirhugaða Gljúfurversvirkjun voru þau að byggja 56 m háa stíflu og einnig leiða Suðurá og Svartá til Mývatns og Laxár. Miðað við þau áform finnst mér fyrirhugaðar aðgerðir Landsvirkjunar nú í sambandi við Laxárvirkjun ekki þeirrar stærðargráðu að eigi megi miðla svo málum að um þau náist full sátt.

Vert er að geta þess að búið er að græða um a.m.k. 2 þúsund ha við Krákárbotna og hefur Landsvirkjun lagt meginfjármagnið til þeirra framkvæmda, þótt fleiri hafi komið þar að.

Þessi uppgræðsla er þegar orðin veruleg brjóstvörn fyrir hluta Mývatnssveitar og hefur minnkað sandfokið í Kráká. Mér finnst að þessi uppgræðsla þurfi að halda áfram og best væri ef jafnframt yrði komið upp sandgildru í Kráká svo sandurinn berist ekki út í Laxá. Takist það þá er það gríðarleg náttúruvernd varðandi lífríkið í gjörvallri Laxá og betri kostur en að byggja háa stíflu sem látin yrði fyllast af sandi.

Mannvirkin í Laxárgljúfri eru falleg og hygg ég að fáir vildu sjá þau hverfa, einnig hygg ég að þótt stíflan yrði eitthvað hækkuð þá myndi það hvorki valda sjónmengun né tjóni.

Þess ber að geta að beri menn ekki gæfu til að framkvæma umræddar aðgerðir í fullri sátt þá skeður það grafalvarlega, sem sé að Laxárvirkjun leggst niður til óbætanlegs tjóns fyrir héraðið bæði hvað snertir öruggt rafmagn og atvinnu margra.

Það fer ekki vel í mig að sjá nú í blöðum spár og jafnvel hótanir um að ný Laxárdeila sé í uppsiglingu og hvernig skyldi sú deila verða? Ég hef á undangengnum 20 árum haft nokkur samskipti við frammámenn Landsvirkjunar og hafa þeir jafnan komið fram af vinsemd og kurteisi. Ég er sannfærður um að þeim mönnum dettur ekki í hug að takast á við heimamenn í Þingeyjarsýslu á sama hátt og stjórn Laxárvirkjunar forðum. Þeir munu frekar taka þann kostinn að hætta rekstri virkjunarinnar eftir því sem hún gengur úr sér. Hitt býður mér frekar í grun að öfgamönnum takist e.t.v. að kveikja einhverja elda hér í héraði sem þeir munu svo ekki reynast menn til að slökkva sjálfir. Ég efa ekki að öfgamenn hér innan héraðs og utan muni halda háttum sínum, stappa niður fótum, segja nei við öllu og kalla "úlfur, úlfur", þó enginn úlfur sé á ferðinni.

Við Þingeyingar höfum misst ýmislegt á undangengnum árum, t.d. kaupfélagið, mjólkursamlagið og flugsamgöngurnar, því skulum við ekki láta viðkomandi og óviðkomandi öfgamenn taka af okkur Laxárvirkjun í ofanálag.

VIGFÚS B. JÓNSSON,

Laxamýri.

Frá Vigfúsi B. Jónssyni: