María Theresa Jónsson og Gyða Kristinsdóttir hlúa að Láru Magnúsdóttur á heimili hennar við Sléttuveg.
María Theresa Jónsson og Gyða Kristinsdóttir hlúa að Láru Magnúsdóttur á heimili hennar við Sléttuveg. — Morgunblaðið/Sverrir
"ÞETTA er skelfilegt ástand. Ég veit ekki hvað við höldum þetta út lengi," segir Gyða Kristinsdóttir sjúkraliði en hún hefur starfað við heimahjúkrun í 28 ár.
"ÞETTA er skelfilegt ástand. Ég veit ekki hvað við höldum þetta út lengi," segir Gyða Kristinsdóttir sjúkraliði en hún hefur starfað við heimahjúkrun í 28 ár. Gyða var í vitjun í gær ásamt Maríu Teresu Jónsson hjúkrunarfræðingi sem hefur starfað við heimahjúkrun í 25 ár, þegar ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði.

Gyða segist aldrei hafa kynnst öðru eins álagi og nú, þrátt fyrir að hafa einna lengstan starfsaldur þeirra sem starfa við heimahjúkrun. Hún segir starfsfólk aðeins hafa tök á að sinna allra brýnustu verkefnunum, annað verði einfaldlega að bíða. Allir, bæði starfsfólk og aðstandendur, reyni að leggjast á eitt til að leysa sem best úr vandanum sem skapast hefur vegna deilu við Heilsugæsluna í Reykjavík um aksturssamninga starfsfólks sem varð til þess að um helmingur starfsfólks í heimahjúkrun hætti störfum. Hún segir þær sem starfa við heimahjúkrun bæði sárar og reiðar yfir ummælum forstjóra Heilsugæslunnar í Reykjavík, Guðmundar Einarssonar, í hádegisfréttum Útvarpsins í gær og kveðst telja að með þeim hafi hann sakað starfsfólk hreint og beint um þjófnað.

Gyða segir deiluna hafa mikil áhrif á skjólstæðinga heimahjúkrunar. "Skjólstæðingar eru áhyggjufullir því þeir vita aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Þetta fólk hefur miklar áhyggjur af því að það séu ekki vanar manneskjur sem sinna þeim. Við reynum að redda einum degi í einu. Ég vona bara að þessi deila leysist sem allra fyrst því þetta ástand getur ekki varað mikið lengur að mínu mati," segir Gyða. /4