Margir nýttu sér tækifærið og kynntu sér fjölbreytilega möguleika á framhaldsnámi við HÍ.
Margir nýttu sér tækifærið og kynntu sér fjölbreytilega möguleika á framhaldsnámi við HÍ. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
MIKILL fjöldi fólks lagði leið sína í aðalbyggingu Háskóla Íslands á þriðjudag til að kynna sér þær leiðir sem þar standa til boða í framhaldsnámi, en Háskólinn býður nú upp á um áttatíu námsleiðir í framhaldsnámi auk hátt í fjörutíu leiða í viðbótarnámi...

MIKILL fjöldi fólks lagði leið sína í aðalbyggingu Háskóla Íslands á þriðjudag til að kynna sér þær leiðir sem þar standa til boða í framhaldsnámi, en Háskólinn býður nú upp á um áttatíu námsleiðir í framhaldsnámi auk hátt í fjörutíu leiða í viðbótarnámi til starfsréttinda.

Kennarar og nemendur í hinum ýmsu fræðigreinum voru á staðnum og veittu upplýsingar um námið og kynntu það fyrir viðstöddum. Fengu gestir tækifæri til að fræðast um námið frá báðum hliðum, bæði um námsefnið og tilhögun námsins og þá reynslu sem nemendur hafa af náminu. Ennfremur kynntu nemendur sum af þeim rannsóknarverkefnum sem unnin eru á framhaldsstigi.

Rannsóknartengt framhaldsnám er einn helsti áhersluþáttur í starfi HÍ, en uppbygging framhaldsnámsins styrkir stöðu skólans í samkeppni við erlenda háskóla um starfsfólk, stúdenta og fé til rannsókna úr alþjóðlegum sjóðum.

Mikill vöxtur hefur verið í framhaldsnámi við Háskólann undanfarin ár, bæði hefur nemendum fjölgað og námsframboð aukist. Allar deildir skólans bjóða nú upp á framhaldsnám og hefur framhaldsnemum fjölgað um 150% á síðustu fimm árum. Nú stunda um 1240 manns framhaldsnám við Háskóla Íslands, þar af um 110 í doktorsnámi.

Sífellt vaxandi áhugi

Guðrún J. Bachman, kynningarstjóri Háskólans, segir mikinn vöxt framhaldsnáms endurspegla aukna þörf fyrir menntað vinnuafl í landinu. "Kröfur um nám eru að verða sífellt meiri og þörf á vel menntuðu fólki. Gárungarnir kalla þetta stundum menntunarverðbólgu. Mesti vaxtarbroddur Háskólans er í framhaldsnáminu. Framhaldsnemar eru nú yfir tólf hundruð, en við gerum ráð fyrir því að sú tala nálgist fimmtán hundruð á næstu tveimur árum," segir Guðrún.

Aðstaða Háskólans hefur þó ekki vaxið samhliða fjölgun nemenda og hefur því þrengt nokkuð að bæði nemendum í grunn- og framhaldsnámi. Guðrún segir þetta allt stefna til bóta með nýja náttúrufræðihúsinu Öskju og Háskólatorgi, sem komi til með að rísa á næstu árum og tengja saman nemendur skólans á nýjan hátt. "Það er mikil uppbygging framundan og aðstaðan verður sífellt betri. Háskóli Íslands er í raun samfélag nemenda og kennara, lifandi og í stöðugri mótun. Þar er hlutverk rannsóknarnáms auðvitað mjög mikilvægt."

Guðrún segist ennfremur ákaflega ánægð með þær undirtektir sem kynningardagurinn hefur fengið. "Þetta er í fjórða sinn sem við höldum kynningu af þessu tagi og gestirnir verða fleiri með hverju árinu. Hér var allt orðið fullt út úr dyrum um leið og kynningin hófst klukkan fjögur. Við höfðum örlitlar áhyggjur af því að veðrið myndi setja strik í reikninginn, en fólk lét það greinilega ekki aftra sér," segir Guðrún að lokum. Meðal nýrra námsleiða sem kynntar voru má nefna meistaranám í blaða- og fréttamennsku, meistaranám í bókasafns- og upplýsingafræði, þverfaglegt meistaranám í upplýsingatækni á heilbrigðissviði auk þess sem Lagadeild býður nú upp á alþjóðlegt meistaranám í alþjóða- og umhverfislögfræði.