Hvort er betra að setja nagladekk undir bílinn eða bíða eftir hlákunni?
Hvort er betra að setja nagladekk undir bílinn eða bíða eftir hlákunni? — Morgunblaðið/Sverrir
Víkverji er afar feginn að hafa ekki látið freistast til þess að setja neglda vetrarhjólbarða undir bílinn í vetur. Aldrei hefur hann samt verið eins nálægt því og þegar ófærðin um áramótin var sem mest.
Víkverji er afar feginn að hafa ekki látið freistast til þess að setja neglda vetrarhjólbarða undir bílinn í vetur. Aldrei hefur hann samt verið eins nálægt því og þegar ófærðin um áramótin var sem mest. Víkverji setti vetrarbarðana ekki undir fyrr en einmitt þá og langaði mikið til að láta negla þá í leiðinni og hætta þessu spóli. Svo virtist sem mjög margir hefðu látið negla hjá sér fyrir veturinn ef marka mátti óformlega könnun Víkverja á vetrarbúnaði á bílum samborgara sinna. Hann hringdi líka í nokkur hjólbarðaverkstæði og kannaði þetta enn frekar og þar fékkst aðdráttarafl naglanna enn frekar staðfest.Víkverji lét það samt ekki eftir sér að fá sér nagla fyrir 5-6.000 krónur og vonaði þess í stað að það kæmi hláka, eins og raunin varð skömmu síðar. Fyrr en varði var allur snjór horfinn af götunum og Víkverji ánægður með ákvörðun sína. Undanfarin ár hefur hann nefnilega ekki verið á negldum börðum enda lítil ástæða til á tiltölulega snjóléttum vetrum svo ekki sé minnst á saltaustur á götum borgarinnar. Víkverji bjó hins vegar úti á landi fyrir nokkrum árum og þá voru allir barðar negldir og ekkert múður. En Víkverji sér bara enga þörf fyrir að skrölta á nagladekkjum heilu veturna á auðum götum borgarinnar. En auðvitað hefði verið ágætt að vera betur búinn þessa ófærðardaga um áramótin.

Ný stétt manna hefur verið endurvakin með nýrri vatnstísku hjá fyrirtækjum og stofnunum. Þetta eru vatnsberar sem settu svip á Reykjavík fyrr á tíð. Víkverji hélt að með vatnsveitum hefðu vatnsberarnir horfið af sjónarsviðinu enda engin þörf á að rogast með níðþungar vatnstunnur þegar fá má vatn úr krananum. En varla líður sá dagur að ekki sjái Víkverji sendibílstjóra flytja 5 til 6 vatnskúta inn í byggingar á þartilgerðri kerru. Hver kútur hlýtur að rúma um 10 lítra og því er þetta engin smáræðis þyngd. Hugsið ykkur alla orkuna og tímann sem fer í að flytja allt þetta vatn um bæinn. Til hvers var þá eiginlega verið að leiða vatn í hús?

Einn af áhugaverðari flækingsfuglum sem komið hafa til landsins í hinum þrálátu sunnanáttum að undanförnu er Leðurblökumaðurinn sem lenti í Skaftafelli um daginn. Þetta er svolítil sárabót fyrir brotthvarf storksins Styrmis sem hafði hér vetrardvöl og var tekinn í fóstur af starfsfólki Húsdýragarðsins. Kannski að Batman verði settur í Húsdýragarðinn innan tíðar? Það væri ekki ónýtt að geta farið að skoða hann á sunnudögum. Nei, kannski sér maður bara myndina þegar hún kemur.