Sigurður Ingi Jónsson
Sigurður Ingi Jónsson
SIGURÐUR Ingi Jónsson, sem var fyrsti maður á lista Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu kosningum, hefur sagt sig úr flokknum vegna óánægju með forystu hans.
SIGURÐUR Ingi Jónsson, sem var fyrsti maður á lista Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu kosningum, hefur sagt sig úr flokknum vegna óánægju með forystu hans.

Sigurður Ingi sagðist hafa sagt sig úr flokknum í kjölfar þess að varaformaður flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson, hefði verið tilnefndur formaður þingflokksins.

Sigurður Ingi sagði að aðdragandinn að þessu hefði verið langur og sneri að miklu leyti að tjáningarformi Magnúsar. Hann kynni ekki við hvernig Magnús hefði komið fram í ræðu og riti, jafnvel stundum í þingsal, og þó sérstaklega á spjallvef, sem nú væri orðinn þjóðþekktur fyrir tilstuðlan hans. Þar hefði hann hótað að sprengja upp forseta Alþingis og dómsmálaráðherra, sem hefði átt að vera grín. Síðan hefði verið röð af hlutum sem hann kynni ekki við. Magnús talaði um að hæstaréttardómarar væru misvitrir og Hæstiréttur væri handbendi sjávarútvegsráðuneytisins.

"Ég er bara ekki sáttur við að þetta sé viðurkennt tjáningarform eða tjáningaraðferð hjá forystu flokksins," sagði Sigurður Ingi.

Hann sagðist líta svo á eftir að hafa ítrekað kvartað yfir þessum tjáningarmáta varaformanns við formann og miðstjórn flokksins að honum hafi í rauninni verið hyglað með því að gera hann að þingflokksformanni, en formaður hafi tilnefnt hann sem slíkan og það hafi hlotið stuðning.

"Þetta var kornið sem fyllti mælinn og mér fannst það í rauninni vera óbeinn stuðningur formanns við þetta tjáningarform og ég get bara ekki tekið þátt í því. Mér finnst þetta ekki vera flokknum til framdráttar. Mér finnst svona framganga ekki sæma forystu stjórnmálaflokks. Alla vega er ég ekki tilbúinn til þess að vinna með eða fyrir svona forystu," sagði Sigurður Ingi.

Ekki afhuga hugsjónunum

Hann sagði að það væri alls ekki þannig að hann væri neitt afhuga hugsjónum flokksins. Hann væri búinn að vinna ötullega í flokknum frá stofnun hans. Það væri alls enginn málefnaágreiningur milli hans og Frjálslynda flokksins.

Í raun mætti segja að það væri málefnaágreiningur milli varaformannsins og flokksins því það sem hann hefði tjáð sig um til dæmis málefni RÚV eða landbúnaðar og jafnvel fleiri málefni, þar hefði hann verið að tjá sig þvert á stefnuskrá flokksins og jafnvel þvert á þingsályktunartillögur sem hefðu verið fluttar í nafni flokksins.