BJARKI Sigurðsson, handknattleiksmaðurinn örvhenti hjá Val, brotnaði á einum fingri vinstri handar á æfingu á dögunum og verður af þeim sökum frá keppni í þrjár til fjórar vikur, eftir því sem Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, reiknaði með þegar...
BJARKI Sigurðsson, handknattleiksmaðurinn örvhenti hjá Val, brotnaði á einum fingri vinstri handar á æfingu á dögunum og verður af þeim sökum frá keppni í þrjár til fjórar vikur, eftir því sem Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, reiknaði með þegar Morgunblaðið hafði tal af honum í gær. "Þetta hefur svo sannarlega ekki verið veturinn hans Bjarka í handboltanum," sagði Óskar og benti á að fingurbrotið væri þriðju meiðslin sem Bjarki hefði orðið fyrir á einu ári. Í fyrravor sleit hann krossband í hné og fór af þeim sökum ekki að leika með Val af krafti fyrr en undir lok síðasta árs. Þá voru slegnar úr honum fjórar tennur í kappleik og síðan fingurbrotnar hann nú. Einnig sagði Óskar að Bjarki væri orðinn aumur í öllu hnénu vegna þess að hann hefði hlíft fætinum þar sem krossbandið slitnaði í fyrra. "Bjarki hefur svo sannarlega fengið að reyna sitt af hverju og óskandi er að þessu sé lokið hjá honum," sagði Óskar.

Bjarki leikur því ekkert meira með Val í úrvalsdeildinni en ætti að verða orðinn klár í slaginn þegar að úrslitakeppninni kemur eftir rúman mánuð. "Við hinir verðum bara að þjappa okkur saman og tryggja okkur sæti í úrslitakeppninni, það er svo sem ekkert gefið í því," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals.