John Kerry verður forsetaefni demókrata í kosningunum í Bandaríkjunum í nóvember.
John Kerry verður forsetaefni demókrata í kosningunum í Bandaríkjunum í nóvember. Hann sigraði í forkosningum í níu af tíu ríkjum, sem kosið var í á þriðjudag, og í gær tilkynnti helsti keppinautur hans um útnefninguna, John Edwards, að baráttu sinni væri lokið. Telja margir sennilegt að Edwards verði varaforsetaefni Kerrys. Reyndar hafa þeir gagnrýnt hvor annan harðlega í kosningabaráttunni, en í gær og fyrradag mátti heyra greinilegan sáttatón.

Forkosningunum er þó ekki lokið enda á eftir að kjósa í fjölmörgum ríkjum og Kerry ekki komin með nægilega marga kjörmenn til að tryggja sér útnefninguna formlega á þingi demókrata í Boston í sumar. Í komandi forkosningum mun hann því geta beint spjótum sínum að George Bush forseta.

Ljóst er að Bush hyggst heldur ekki bíða boðanna. Fram kom í gær að kosningaherferð Bush hæfist í kvöld með birtingu auglýsinga í sjónvarpi nokkru fyrr en ætlað var.

Kosningabaráttan, sem í hönd fer í Bandaríkjunum verður löng og ströng því að átta mánuðir eru þar til kosið verður. Búast má við því að baráttan verði tvísýn og ýmsir þættir, sem frambjóðendurnir hafa lítið um að segja, gætu skipt sköpum. Ótryggt ástand í Írak gæti orðið Bush þungt í skauti og mikið veltur á þróun efnahagsmála. Skoðanakannanir sýna að stór hluti kjósenda telur Bush ótrúverðugan vegna bæði Íraksmála og efnahagsástandsins. Stuðningsmenn Bush segja að þetta megi rekja til þess að demókratar hafi í kosningabaráttunni getað beint spjótum sínum að forsetanum og nú sé kominn tími til að svara og snúa blaðinu við.

Bush er í mjög sterkri stöðu til þess. Hann hefur safnað 142 milljónum dollara (tæpum 10 milljörðum kr.) í kosningasjóði sína, en Kerry hefur aðeins 5 milljónir dollara (350 milljónir kr.) til ráðstöfunar. Peningastaðan er vitaskuld ekki svona einföld, en þessar tölur sýna þó muninn á því, sem frambjóðendurnir hafa til ráðstöfunar.

Forusta demókrata er sennilega ánægð með að Kerry skyldi hafa betur í forkosningunum. Kerry þjónaði í Bandaríkjaher í Víetnam-stríðinu og var heiðraður fyrir framgöngu sína þar. Hann hefur verið öldungadeildarþingmaður frá 1984. Kerry hefur verið legið á hálsi fyrir að hafa skort frumkvæði í lagasetningu. Hann hefur hins vegar staðið á bak við rannsóknir þingsins og vitnaleiðslur í erfiðum málum á borð við Íran-kontra og hvort enn væru bandarískir stríðsfangar í haldi í Víetnam. Langur ferill á þingi mun án efa gefa andstæðingum Kerrys kost á að draga fram mótsagnir af ýmsum toga í málflutningi hans og hvernig hann hefur greitt atkvæði, en hann greiddi atkvæði með því að heimila Bush að ráðast inn í Írak þótt hann hafi síðan gagnrýnt stjórnina harkalega fyrir það hvernig að innrásinni var staðið. Hann hefur þó verið sjálfum sér samkvæmur í mörgum lykilmálum í bandarískum stjórnmálum og þar á meðal ávallt greitt atkvæði með réttinum til fóstureyðinga og verið fylgjandi umhverfisverndarfrumvörpum. Hann lagðist gegn skattalækunum Bush og tillögum um að bora eftir olíu í óbyggðum Alaska. Það er því margt, sem skilur hann og Bush að. Ógerningur er að segja til um úrslit á þessari stundu. Ljóst er að þung undiralda er meðal demókrata gegn Bush og má meðal annars rekja það til talningarinnar í Flórída í kosningunum fyrir fjórum árum. En forskot Kerrys á Bush samkvæmt skoðanakönnunum gæti verið fljótt að hverfa og kosningabaráttan, sem fer í hönd verður tvísýn.