Þingmenn úr öllum flokkum hafa tekið höndum saman um að flytja tvö lagafrumvörp á Alþingi, sem hafa það að markmiði að styrkja stöðu lítilla hluthafa og koma í veg fyrir, að þeir verði hlunnfarnir í þeim viðskiptum, sem fram fara með hlutabréf í...

Þingmenn úr öllum flokkum hafa tekið höndum saman um að flytja tvö lagafrumvörp á Alþingi, sem hafa það að markmiði að styrkja stöðu lítilla hluthafa og koma í veg fyrir, að þeir verði hlunnfarnir í þeim viðskiptum, sem fram fara með hlutabréf í fyrirtækjum.

Það er Einar K. Guðfinnsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem hefur forystu fyrir þessum hópi en flutningsmenn með honum eru Halldór Blöndal, forseti Alþingis, Jóhanna Sigurðardóttir, alþingismaður Samfylkingar, Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokks, Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, og Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.

Samkvæmt þessum frumvörpum verður í fyrsta lagi óheimilt að kaupa eignir af einstökum hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félags eða móðurfélags eða aðilum, sem þeim eru tengdir, nema fram hafi farið mat óháðra aðila á verðmæti eignanna.

Þetta er mikilvægt ákvæði og svo vill til að tekizt er á um þetta í ævintýralegum átökum, sem nú standa yfir um yfirráðin yfir útgáfufélagi Daily Telegraph í London. Um slík viðskipti, þar sem félög, sem skráð eru á markaði hér eða hafa verið skráð, hafa keypt önnur félög eða hlutabréf í öðrum félögum af ráðandi aðila eru mörg dæmi.

Í öðru lagi eru ákvæði sem varða tengsl aðila, þegar skylda til yfirtöku skapast. Tryggja á, að verð, sem boðið er í yfirtökutilboði, sé sem næst raunvirði félags. Þegar veltuhraði bréfa í félagi er takmarkaður á skv. þessum tillögum að fela dómkvöddum matsmönnum að ákvarða hvaða verð skuli boðið. Dæmi um ágreining af þessu tagi eru til vegna félaga, sem skráð hafa verið á Kauphöll Íslands.

Í þriðja lagi er gerð tillaga um að samþykki eins tíunda hluta hluthafa nægi til þess að fram fari sérstök rannsókn ef grunur vaknar um að stærri hluthafar hafi nýtt sér aðstöðu til þess að verða sér úti um fjárhagslegan ábata á kostnað smærri hluthafa.

Allt eru þetta veigamikil atriði, sem snúa að hagsmunum minni hluthafa en stuðla jafnframt að heilbrigðara viðskiptalífi.

Það er sérstaklega ánægjulegt að svo víðtæk samstaða hefur tekizt á Alþingi um flutning þessara frumvarpa. Sú samstaða er vonandi vísbending um að víðtæk samstaða geti náðst á Alþingi um lagasetningu, sem setur viðskiptalífinu á Íslandi eðlilegan starfsramma, sem tryggi að viðskiptafrelsið, sem þjóðin býr nú við, verði ekki misnotað.