Þingmenn fylgjast grannt með umræðum á Alþingi. Fremstir sitja Guðjón Hjörleifsson og Magnús Stefánsson.
Þingmenn fylgjast grannt með umræðum á Alþingi. Fremstir sitja Guðjón Hjörleifsson og Magnús Stefánsson. — Morgunblaðið/Þorkell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞINGMENN Samfylkingarinnar kölluðu eftir afstöðu Þorgerðar K. Gunnarsdóttur menntamálaráðherra til innheimtu afnotagjalda Ríkisútvarpsins í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær.

ÞINGMENN Samfylkingarinnar kölluðu eftir afstöðu Þorgerðar K. Gunnarsdóttur menntamálaráðherra til innheimtu afnotagjalda Ríkisútvarpsins í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær. Ráðherra svaraði því til að það væri óábyrgt ef hún gæfi það út hér og nú að afnema ætti gjöldin. Hún sagði að það þyrfti að fara gaumgæfilega yfir þessi mál og skoða hvaða valkostir væru í stöðunni. Í máli hennar kom aukinheldur fram að rekstravandi Ríkisútvarpsins hefði verið til sérstakrar umfjöllunar í ráðuneytinu um nokkurt skeið. Sagði hún að skoða þyrfti málefni RÚV í heild sinni. Afnotagjöld væru þar engin undantekning. "Við verðum að gera okkur grein fyrir því hvaða kosti við eigum ef við segjum nei við afnotagjöldum," útskýrði hún. Ítrekaði hún síðar í umræðunni að hún vildi ekki segja af eða á um það hvort afnema bæri afnotagjöldin.

Vilja afnotagjöldin burt

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, var málshefjandi umræðunnar. Hann sagði að afnotagjöld hefðu margs konar ókosti. "Innheimtuaðferðin er dýr en nefnt hefur verið að það kosti um 80 milljónir króna árlega að reka innheimtudeild Ríkisútvarpsins." Hann sagði að afnotagjöldin væru einnig óskilvirk innheimtuaðferð. Talið væri að allt að 9% gjaldenda kæmust hjá því að greiða gjöldin. Menntamálaráðherra leiðrétti þetta hlutfall síðar í umræðunni og sagði það 5,5%. Ágúst sagði að mun vænlegra væri að standa undir rekstri Ríkisútvarpsins með framlagi á fjárlögum og með þjónustusamningi til langs tíma. Hann sagði að einnig mætti skoða aðrar leiðir til tekjuöflunar s.s. auðlindagjald á útvarpsrásum og gjald á tilteknar auglýsingar sem rynnu til stofnunarinnar.

Nokkrir þingmenn tóku til máls í umræðunni um þessi mál og kvaðst Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, algjörlega ósammála því sjónarmiði að fella eigi niður afnotagjöld. "Ég tel það nauðsynlegan tekjustofn fyrir Ríkisútvarpið, bæði til að tryggja afl þess og sjálfstæði."

Björgvin G. Sigurðsson, Samfylkingu, sagði að stefna ætti að því að fella niður afnotagjöld, sem væru úrelt og gamaldags innheimtuaðferð og Mörður Árnason, samflokksmaður hans, sagði mikilvægt að ráðherra gerði grein fyrir afstöðu sinni til þessa máls. Jóhann Ársælsson, Samfylkingu, tók í sama streng.

Birkir J. Jónsson, Framsóknarflokki, sagðist telja að það myndi ógna sjálfstæði RÚV ef það yrði sett á fjárlög. Einar Már Sigurðarson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði það athyglisvert að framsóknarmenn óttuðust það að RÚV yrði sett á fjárlög. Hann sagði að það hlyti að segja nokkuð um það hvernig rætt væri um RÚV meðal ríkisstjórnarflokkanna.

Gott samstarf milli stjórnarflokka

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði að sinn flokkur styddi það að fundin yrði önnur tekjuöflunarleið en afnotagjöldin. Jafnvel kæmi til greina að setja RÚV á fjárlög. Jón Kr. Óskarsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sagði að ekki mætti vanmeta það sjónarmið að Ríkisútvarpið væri mikilvægur öryggisventill og Valdimar L. Friðriksson, sem einnig er varaþingmaður Samfylkingarinnar, velti því fyrir sér hvort ekki ætti að skoða það hvernig þessi 5,5% sem ekki greiddu til RÚV væru hundelt.

Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins kom einnig í pontu undir lok umræðunnar og sagði það ekki rétt að Framsóknarflokkurinn héldi Ríkisútvarpinu í gíslingu. Hann sagði að það væri afskaplega gott samstarf milli ríkisstjórnarflokkanna um RÚV.