IÐNAÐARRÁÐHERRA, Valgerður Sverrisdóttir, hefur lagt fram á Alþingi lagafrumvarp þar sem lagt er til að lög um jöfnun flutningskostnaðar á sementi falli úr gildi og að jöfnunin verði afnumin frá og með 1. júní 2004.
IÐNAÐARRÁÐHERRA, Valgerður Sverrisdóttir, hefur lagt fram á Alþingi lagafrumvarp þar sem lagt er til að lög um jöfnun flutningskostnaðar á sementi falli úr gildi og að jöfnunin verði afnumin frá og með 1. júní 2004. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að stjórn flutningsjöfnunarsjóðs annist uppgjör og frágang vegna skuldbindinga hans, s.s. gerð ársreiknings, og skal því lokið fyrir 1. október 2004.

Skv. gildandi lögum er flutningsjöfnunargjald lagt á hvert selt tonn af sementi og er gjaldið lagt í flutningsjöfnunarsjóð sements. Í athugasemdum frumvarpsins segir að útgjöld flutningsjöfnunarsjóðs hafi verið 156 milljónir árið 2002. "Samkvæmt upplýsingum flutningsjöfnunarsjóðs sements fór hlutfallslega stærstur hluti tekna sjóðsins miðað við innheimt gjöld sjóðsins í að jafna kostnað vegna flutning sements til Norðurlands eystra og Austurlands. Stærstur hluti tekna sjóðsins kom hins vegar af innheimtu flutningsjöfnunarsjóðsgjalda af sementi sem flutt var til Reykjavíkur og á Reykjanes eða tæpar 105 milljónir króna," segir í athugasemdunum.

Hafi leitt til hærra verðs

Lög um jöfnun flutningskostnaðar á sementi tóku gildi 24. maí 1973. Iðnaðarráðherra skipaði nefnd, í lok ágúst 2003, til að endurskoða þau lög. Pétur Örn Sverrisson frá iðnaðarráðuneytinu var formaður hennar. "Í áliti nefndarinnar kemur fram að frá því lög um jöfnun flutningskostnaðar á sementi voru sett hafi markaðsaðstæður og leikreglur á markaði gjörbreyst, hvort sem horft er til samkeppnisreglna eða viðhorfa til afskipta ríkisins af atvinnulífi. Þá hafi byggingaraðferðir, samgöngur og dreifileiðir gjörbreyst," segir í athugasemdum frumvarpsins.

"Þá telur nefndin að núverandi kerfi hafi leitt til hærra sementsverðs en ella þar sem það hafi í för með sér að flutningskostnaður sé hærri en vera þyrfti. Fyrirkomulagið leiði til þess að aðilar á markaði leiti ekki leiða til að auka hagkvæmni í flutningum." Í athugasemdunum segir ennfremur að afnám flutningsjöfnunar muni að öllum líkindum leiða til einhverrar lækkunar sementsverðs á suðvesturhorni landsins þar sem um 85% sements, sem ekki fer til stórframkvæmda, er notað. Jafnframt megi vænta einhverrar hækkunar á sementsverði á öðrum stöðum.

"Líkur bendi hins vegar til þess að hagræðing í flutningum og samkeppni á sementsmarkaði leiði til þess að hækkun sementsverðs á landsbyggðinni verði óveruleg." Telur fyrrgreind nefnd iðnaðarráðherra því umrædd lög úrelt og er hún sammála um að leggja til að starfsemi flutningsjöfnunarsjóðs sements verði lögð niður og hætt verði sérstakri jöfnun flutningskostnaðar sements.